Showing posts with label markhópagreining. Show all posts
Showing posts with label markhópagreining. Show all posts

Stundum verður maður bara að reka viðskiptavinina!


Það er mikilvægt að finna rétta markhópinn fyrir þig, fólkið sem þú átt að vera að selja til. Ein besta leiðin til þess er að finna draumaviðskiptavininn. Þetta fólk sem þú algjörlega elskar að vinna með og fyrir. Hefurðu hinsvegar nokkurn tímann hugsað út í hversu mikilvægt það er að vita hverjum maður vill ekki vinna með eða fyrir? Það er jafn mikilvægt í markaðssetningu að fæla frá þá viðskiptavini sem þú vilt ekki, eins og að draga að þá sem þú vilt fá. Og það getur þýtt að þú þurfir hreinlega að reka viðskiptavini!

Nú hugsarðu kannski: "Jæja, nú er hún endanlega orðin rugluð!" - og já já, það er ég ábyggilega að mörgu leyti - en ekki þegar kemur að þessu! Viðskiptavinur er ekki það sama og viðskiptavinur. Það eru ekki öll viðskipti góð viðskipti!

20% gott og 20% slæmt


Þumalputtareglan er að þú ættir að reka u.þ.b. 20% af viðskiptavinunum þínum. Bíddu aðeins áður en þú afskrifar mig alveg og hættir að lesa ;)

Hverjir eru þetta? Skilgreindu markhópana með meira en bara tölum og hörðum skilgreiningum!



Í fyrri póstum höfum við skoðað af hverju þú getur ekki selt öllum og hvernig þú getur fundið drauma viðskiptavininn þinn, og þar með besta markhópinn eða bestu markhópana fyrir þig að einbeita þér að. En hvernig skilgreinum við svo þessa markhópa?

Klassíska leiðin er að skilgreina þá lýðfræðilega og landfræðilega, eftir hlutum eins og aldri, kyni, tekjum, menntunarstigi o.s.frv. Í sumum tilfellum á þetta algjörlega við, en í öðrum skiptir þetta bara alls engu máli! Hvort sem lýðfræði eða landafræði á við hjá þér eða ekki, þá muntu alltaf þurfa að fara dýpra og læra meira um þá sem þú ert að markaðssetja til.

Draumaviðskiptavinurinn - finndu besta markhópinn fyrir þig!


Það getur verið að við séum fyllilega búin að gera okkur grein fyrir því hversu mikilvægt er að reyna ekki að markaðssetja til allra. Vandmálið hinsvegar er þá oft, hvernig í ósköpunum eigum við að vita hvað er besta fólkið fyrir okkur að markaðssetja til? Hvernig í ósköpunum átt þú að finna út hvað er besti markhópurinn fyrir fyrirtækið þitt?! - engjar áhyggjur - ég ætla að hjálpa þér að finna út úr því ;)

Stærsta vísbendingin um hver besti markhópurinn þinn er liggur í núverandi viðskiptavinum þínum. Hugsaðu þig vel um. Hverjir eru bestu viðskiptavinirnir þínir í dag? Hvaða viðskiptavinum elskarðu að vinna með og fyrir? Almennt gildir sú regla að 20% viðskiptavinanna þinna eru draumaviðskiptavinri og þessir 20% gefa af sér 80% af tekjunum þínum. Væri þá ekki vit að finna fleiri svoleiðis?

Þú getur ekki selt öllum - finndu markhópinn þinn!



Þegar eigendur minni fyrirtækja eru spurðir um markhópinn sinn, þá eru enn ansi margir sem svara því til að þeir selji barasta öllum. Sem er mjög skiljanlegt. Hver vill ekki að sem allra flestir kaupi vörurnar þeirra eða þjónustu? Ég skil þetta barasta ósköp vel. Stundum langar mann bara að standa úti á torgi og hrópa yfir allan heiminn hvað maður hefur að bjóða. Ég sjálf á það til að taka bara smá kast og hugsa - æi, ég hendi þessu bara þarna út á alla. Vandamálið er bara að það virkar ekki. Af hverju ekki?

Spáðu aðeins í þessu. Það dúndrast á okkur hundruð ef ekki þúsundir markaðsskilaboða á hverjum degi. Það er í viðbót við öll önnur skilaboð eins og símtöl, tölvupósta, fréttirnar og bara svona almenn dagleg samskipti við heiminn og fólkið í kringum þig. Við verðum stöðugt að vera að sía úr og velja hverju við eigum að veita athygli og hvað við eigum að loka úti. Ef einhver er ekki að tala beint til okkar - og helst bara okkar - þá erum við ekkert að fara að hlusta.

Þegar kemur að því að tala við fólk um vörur og þjónustu þá er fólk ekkert að fara að hlusta ef því finnst hlutirnir ekki eiga við sig. Ef fólk hefur ekki áhuga, eða telur sig ekki hafa þörf fyrir vöruna eða þjónustuna (jafnvel þó að við vitum að þau þurfa hana ;)  þá munu þau bara loka augum og eyrum fyrir okkur og velja að nýta þau til að hlusta og horfa á eitthvað annað sem þeim finnst eiga betur við sig. Það er þessvegna mjög mikilvægt bæði að skipta máli fyrir viðkomandi og að vera áhugaverður. Og maður getur einfaldlega ekki skipt alla máli eða verið þannig að allir finnist maður áhugaverður.

Það er líka ferlega dýrt að ætla að reyna að vera alls staðar og tala við alla. Með því ertu að eyða óskaplega miklu af tíma, orku og peningum í að koma áfram skilaboðum sem fólk einfaldlega skellir skollaeyrum við. Sem frumkvöðull eða fyrirtækjaeigandi, hefurðu efni á að eyða tíma, orku og peningum á þann hátt? Ég veit að ég hef það ekki.

Þess vegna verðurðu að velja og fókusera. Þú verður að finna þann hóp, eða þá hópa, fólks sem er tilbúinn til að hlusta á þig og er tilbúinn að kaupa vöruna þína eða þjónustu - markhópana þína. Og þú þarft svo að stúdera þá út í gegn.

Finndu út hvernig best er að ná til þeirra. Hvaða skilaboð eru sterkust og ná í gegn? Hugsaðu bara um þitt daglega líf og hvernig þú þarft að sníða skilaboðin að mismunandi aðilum, þó að þú sért að segja í grunninn sama hlutinn. Ef ég ætla að fá táningsson minn til að koma með mér upp í sumarbústað þá þarf ég að selja það ansi mikið öðruvísi heldur en þessi sem er 6 ára, eða gagnvart vinafólki mínu, ekki satt? Það þarf líklega að tala unglinginn svolítið til, 6 ára guttinn flippar af spenningi um leið og orðið "sumarbústaður" er nefnt og þegar ég býð vinafólki mínu skemmir ekkert fyrir að minnast á nautasteikina sem verður á grillinu eða góða rauðvínið sem verður með henni ;)

Stendurðu nokkuð enn á kassa á Lækjartorgi og reynir að garga yfir allan heiminn? Veistu hver markhópurinn þinn er, eða markhóparnir? Segðu mér frá hér fyrir neðan :)







Hvernig nýtist markaðssetning fyrir hreyfihamlaða?

Markaðsmál eiga það til að hafa á sér þá ímynd að markaðsfólk læri einfaldlega að troða upp á mann allskonar hlutum sem maður þarf ekki. Það er hinsvegar mikill misskilningur. Markaðsstarf snýst um að mæta þörfum fólks, og svo þarf maður að láta fólk vita að maður getur mætt þörfum þess, leyst vandamál þess o.s.frv. Það gerir ekkert gagn að geta gert gagn en gera það svo ekki vegna þess að enginn veit af því, eða fólk áttar sig ekki á því hvað maður gerir fyrir það ;)

Gott dæmi um hvernig nýta má markaðsfræðin algjörlega til góðs var þegar Sigurbjörg Daníelsdóttir, ráðgjafi hjá Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar, hafði samband við mig í vetur. Þekkingarmiðstöðin er upplýsinga- og fræðslumiðstöð fyrir hreyfihamlaða og aðstandendur þeirra og starfsfólk hennar fann að þrátt fyrir að hafa komið upp glæsilegum upplýsingavef o.fl. þá var það ekki nóg. Þau þurftu að finna leiðir til að láta fólk vita af honum og hvernig mætti nýta þjónustuna þeirra.

Ég ákvað að bjóða þeim frítt í MáM Bootcamp (planið er að bjóða alltaf einu verkefni frítt í Bootcamp framvegis, einhverju sem er "not-for-profit" og samfélagið nýtur góðs af). Í staðinn bað ég Sigurbjörgu að deila með fólki hvernig MáM hefði nýst þeim. 

Við settumst því við tölvurnar, Sigurbjörg í Reykjavík og ég í Njarðvík, og tókum spjall um þessi mál. Þar sem netið var eitthvað að stríða okkur og myndin var ekki góð, ákvað ég að láta hljóðið nægja - bara svona eins og í gamla góða útvarpinu :)

Ég vona að þú hafir gagn og gaman af því að heyra um reynslu þeirra hjá Þekkingarmiðstöðinni af því að vinna markaðsstarfið eftir MáM ferlinu. Ég hvet þig líka eindregið til að kynna þér það frábæra starf sem miðstöðin vinnur. Vefurinn þeirra er thekkingarmidstod.is og óhætt að mæla með honum við hvern þann sem málefni hreyfihamlaðra varðar, hvort sem þú ert hreyfihamlaður einstaklingur, aðstandandi, fyrirtæki eða félag sem vilt betur mæta þörfum þessa hóps eða hvað annað það er.

Smelltu hér til að hlusta á spjallið okkar um reynslu Þekkingarmiðstöðvarinnar af MáM Bootcamp.



Viltu vita meira um MáM þjálfunina/MáM Bootcamp? Smelltu þá hér!



Er tíminn með þér í liði? - 5 leiðir til að spara meiri tíma í markaðssetningu

Þessi blessaður tími! - okkur vantar alltaf meira af honum!

“Time is on my side” sungu Rolling Stones. Svei mér þá, ég held þeir séu þeir einu sem það á við um! Alveg sama við hvern maður talar, hvert maður snýr sér og hvað maður gerir, það hefur enginn tíma.

Í sumar hef ég gert tvær kannanir meðal fólks í fyrirtækjarekstri og rauði þráðurinn, gegnumgangandi er að fólk vantar tíma. Það hefur ekki tíma í markaðsstarfið, það hefur ekki tíma til að læra að gera markaðsstarfið hagkvæmara þannig að það nái meiri árangri með það á minni tíma. Það hefur ekki tíma til að vera til!

Úff, ég skil það svo vel. Ég þekki þetta algjörlega sjálf!

En veistu, þetta þarf ekki að vera svona. Ég veit það líka af eigin raun, bæði frá mér og viðskiptavinum mínum.

Þú þarft engan fyrirlestur um um nauðsyn markaðsstarfsins og hversu mikilvægt það er að eyða tíma í það því annars gerist lítið sem ekkert í fyrirtækinu þínu og þú heldur áfram eins og hamstur í  hjóli. Ég meina - hey, þú veist það nú þegar, ekki satt ;)   Ef ekki, þá ættirðu kannski að kíkja hér.

Núna ætla ég að tala um tímann sem þú græðir á því að eyða fyrst smá tíma í að koma markaðsstarfinu í öflugan farveg. Þeim tíma sem þú verð í markaðsstarfið í dag, ef einhver er, gæti mögulega verið betur varið þannig að þú fáir mun meira út úr því sem þú gerir  ;)    Æi þú veist, þetta með að taka sér tíma til að gera teikningar af húsinu áður en maður byggir svo að það endi ekki svona:




















heldur svona:




Ólíkt betra, ekki satt?

Kíktu á þetta litla vídeó til að sjá hvað eru mikilvægustu atriðin til að spara tíma í markaðsstarfinu en ná samt sem áður mun betri árangri en ella:


Hér er slóðin, svona til öryggis: http://youtu.be/tUMaEVuF854?list=UULxq0F4mbyKZaiFGSw8I23w

Ég er einmitt líka um þessar mundir að vinna í því að losa um enn meiri tíma svo ég geti sinnt því sem er mikilvægt, en ekki bara að slökka elda sem eru áríðandi. Ég ætla að segja þér meira frá því í síðari pósti, svo vertu viss um að missa ekki af honum (besta leiðin til þess er náttúrulega að vera á póstlistanum ;)

xo
Þóranna

Dæmi úr reynslubanka markaðsnörds

Númer 1


Viðmælandi: “Mig vantar aðstoð með markaðsmálin. Getur þú aðstoðað mig?”

Markaðsnörd: “Það eru góðar líkur á því”

Viðmælandi: “Geturðu græjað fyrir mig … [hér koma ýmsar útfærslur af hlutum eins og Facebook auglýsingum, Google auglýsingum, vefsíðu og bara svona almennt að græja hitt og þetta svona taktískt]?”.

Markaðsnörd: “Hver er markhópurinn?”

Viðmælandi: “Bara allir”

Markaðsnörd: “Hverjir eru helstu samkeppnisaðilar?”

Viðmælandi: “Ég þarf ekkert að pæla í þeim”

Markaðsnörd: “Hvernig er brand stefnan þín?”

Viðmælandi: “Brand hvað…? - ég er ekki með neitt svoleiðis”

Markaðsnörd: “Hvað hefurðu verið að gera í markaðsstarfinu hingað til?”

Viðmælandi: “Ég var með [hér koma ýmsar útfærslur af hlutum eins og útvarpsauglýsingum, blaðaauglýsingum, Facebook auglýsingum og hinu og þessu] þarna um daginn en það kom nú sosum ekkert út úr þeim”

Markaðsnörd: “Má ég leggja til að við byrjum á því að vinna grunnvinnuna, skoða markhópana þína, samkeppnina og hvaða brand þú vilt byggja upp og svo byggt á því að gera markvissa aðgerðaáætlun og prógramm fyrir markaðsstarfið þitt?”

Viðmælandi: “Getur þú ekki bara gert þetta fyrir mig?”

Markaðsnörd: “Nei því miður, við þurfum alltaf að vinna saman að þessu. Þetta er þitt fyrirtæki, sem þú þekkir manna best og veist hverjum þú vilt vinna með og hver þú ert og þ.a.l. hvernig þú vilt að fyrirtækið þitt birtist heiminum. Auk þess er dýrt að kaupa mig til að sjá um þetta í framhaldinu. Það myndi þá borga sig frekar að ráða manneskju, ef þetta er ekki eitthvað sem þú ert tilbúinn að gera sjálf(ur), og þar sem þú ert að leita til mín þá grunar mig að það sé ekki inni í myndinni.”

Viðmælandi: “Ég nenni ekkert að standa í þessu.”

Númer 2


Viðmælandi: “Mig vantar aðstoð með markaðsmálin. Getur þú aðstoðað mig?”

Markaðsnörd: “Það eru góðar líkur á því”

Viðmælandi: “Ég geri mér grein fyrir að ég þarf að hafa skilning á þessu og að þó að ég fái aðstoð við þetta, eða mögulega ráði einhvern síðar meir, þá er þetta mitt fyrirtæki og markaðsmálin það sem nær í viðskiptin. Ég vil þess vegna setja mig vel inn í þetta, þó ég fái síðan meiri hjálp með eitt og annað. Getur þú hjálpað mér með það?”.

Markaðsnörd: “Já klárlega. Besta leiðin er að þú vinnir skýra markaðsstefnu með minni aðstoð, fáir markhópana þína á hreint, skoðir samkeppnina vel, farir í stefnumótun fyrir brandið þitt og svo geturðu gert skilvirkt plan um hvaða markaðsaðgerðir þú ætla að nota og hvernig þú getur skipulagt þær þannig að þær verði sem áhrifaríkastar og hagkvæmastar.”

Viðmælandi: “Mér líst vel á það. Hvenær getum við byrjað?”

Markaðsnörd: “Þú getur ýmist byrjað núna strax og unnið sjálfsætt en þó með aðgang að mér á netinu og með ráðgjöf yfir netið ef á þarf að halda, eða þú getur verið með í Bootcamp í haust þar sem hópur fólks fer saman í gegnum þetta ferli og þannig færðu meira aðhald og stuðning bæði frá mér og hinum þátttakendunum.”

Viðmælandi: “Þetta hljómar vel. Hvernig skrái ég mig?”

Markaðsnörd: “á www.mam.is ef þú vilt byrja strax, og á www.mam.is/bootcamp ef þú vilt vera með í haust”

Viðmælandi: “Frábært - ég kýli á það”

Hvor heldurðu að sjái meiri árangur í markaðsstarfinu sínu?




Ekki vera rass - markaðsrannsóknir eru nauðsynlegar!

Ég vaknaði upp við vondan draum um daginn. Ég var að vinna með stórum hóp af fólki í markhópagreiningu og allt í einu áttaði ég mig á því að þau voru bara að skálda út í bláinn með hvernig markhópurinn þeirra væri, í stað þess að hafa einhverjar raunverulegar upplýsingar. Og það minnti mig á eitthvað sem ég veit alveg en maður á til að gleyma. Það kann ekkert okkar hugsanalestur! (Ef það er rangt, og þú kannt hugsanalestur, vertu þá endilega í bandi því mig langar miiiiiiiiiiiikið að tala við þig! :)

Ekki bara gerði ég ráð fyrir að þau vissu að þau yrðu að gera markaðsrannsóknir til að fá að vita meira um markhópinn - og gerði þar með ráð fyrir að þau læsu mínar hugsanir - heldur gerðu þau ráð fyrir að þau vissu allt um markhópinn - og gerðu þar með ráð fyrir að þau læsu hugsanir og vissu allt mögulegt um fólk sem þau höfðu jafnvel aldrei hitt!

Og hverju skiptir þetta? Jú, þetta skiptir nefnilega öllu máli. Markaðsstarfið snýst allt um að ná til fólks og mynda við það samband. Ef að þú heldur eitthvað um fólk sem ekki er rétt og talar við það byggt á því, þá er blaðrið í þér tilgangslaust - ekki satt?

Þetta er svona eins og að vera strákur og labba upp að stelpunni á barnum og byrja að reyna við hana á fullu - sem þú hefðir getað sparað þér með smá könnun sem leitt hefði í ljós að hún væri barasta ekkert fyrir stráka heldur kysi heldur fegurra kynið ;)

Það er alltaf gott að muna það sem þeir segja á engilsaxneskunni:



En þá heyrist gjarnan: “En ég er bara með lítið fyrirtæki og ég hef ekkert efni á að kaupa markaðsrannsóknir”. Veistu, það er heldur enginn að tala um að gera það. Nú verður kannski einhver fræðimaðurinn alveg tjúll, en það er betra að gera tiltölulega einfalda könnun upp á eigin spýtur sem getur gefið manni einhverjar vísbendingar, heldur en að gera ekki neitt.

Hér eru nokkrir einfaldir hlutir sem þú getur gert til að læra meira um markhópinn þinn, án þess að þurfa að veðsetja fyrirtækið!:

  • Skoðaðu gögn hjá þér: Sölutölur, viðskiptavinaskrár, dagbækur, gestabækur, bókanir og aðrar upplýsingar sem þú kannt að luma á.
  • Ræddu við framlínufólkið þitt (ef það er ekki þú), þá sem afgreiða viðskiptavininn og þjónusta hann alla daga. Hverjir eru viðskiptavinirnir þínir? Hverjir þeirra eru bestir? Hvernig eru þeir?
  • Gerðu könnun á netinu með tólum á borð við Google Forms.

  • Gerðu vettvangsrannsókn, settu saman rýnihóp eða taktu viðtöl við fólk - eða enn betra, fáðu einhvern sem þú þekkir til að aðstoða þig við það ;)

Hvað sem þú gerir, ekki gera rass úr mér eða þér - fáðu að vita hvernig hlutirnir raunverulega eru ;)

Í MáM þjálfuninni er ekki bara farið í rokna góða markhópagreiningu, heldur einnig hvernig þú getur gert markaðsrannsóknir til að fá að vita meira um markhópana þína og þú getur alltaf spurt spurninga og fengið svör og ráð í lokaða hópnum okkar á Facebook :)  


Að kenna viðskiptavininum - hvernig efnismarkaðssetning getur auðveldað þér viðskiptin ;)



Í síðustu viku sýndi ég upptöku af fyrirlestri sem ég var með hjá Nýsköpunarhádegi Klak Innovit um efnismarkaðssetningu. Eitt af því sem ég minntist á þar var hvernig efnismarkaðssetning getur gert sambandið við viðskiptavininn mun betra, með því að fræða hann...
Flest okkar kannast við erfiða viðskiptavini, hvort sem það er að selja þeim til að byrja með, eða að vinna með þeim. Það eru ýmsar ástæður fyrir því (sumir eru bara svona ;) en í mjög mörgum tilfellum er hægt að minnka erfiðleikastigið með efnismarkaðssetningu. Með því að fjalla um hluti í kringum það sem þú gerir og uppfræða viðskiptavininn geturðu verið búinn að fjarlægja mikið af vegatálmunum og jafnvel opna dyrnar að því að selja þeim hluti sem annars væri erfitt að selja þeim.
Það er sennilega best að sýna þetta með dæmum:
Með því að fjalla um hvernig góður undirbúningur getur leitt til betri vefsmíði og þess að verkinu lýkur fyrr og innan fjárhagsáætlunar getur vefstofa hvatt viðskiptavini sína til að þess að koma betur undirbúnir að borðinu. Hún getur m.a.s. verið búin að fræða viðskiptavininn um það í hverju sá undirbúningur felst.
Sama vefstofan getur líka verið búin að fjalla um mikilvægi leitarvélabestunar og efnismarkaðssetningar, og þannig undirbúið jarðveginn svo að auðveldara verður að sannfæra viðskiptavininn um að hann þurfi að nota þessi tól og jafnvel selja viðskiptavininum þjónustu í kringum það.
Snyrtistofa getur fjallað um hvernig hinar ýmsu meðferðir fara fram og kosti þeirra. Ef að ég er t.d. búin að lesa um hvað ég græði á því að koma reglulega í andlitsbað, í stað þess að koma bara af og til, þá er ég líklegri til að koma reglulega en ella.
Einkaþjálfari getur fjallað um kosti þess að æfa á þennan hátt frekar en hinn þannig að þegar viðskiptavinurinn kemur í þjálfun þá skilur hann af hverju verið er að velja þær æfingar sem valdar eru. Þá er viðskiptavinurinn ánægður og þjálfarinn þarf ekki að eyða tíma í að útskýra af hverju hlutirnir eru gerðir svona en ekki hinsegin.
Hönnuður eða listamaður getur sagt frá pælingunum að baki verkunum, af hverju þessi og hin efni eru valin, hvernig þau eru unnin og þannig vakið áhuga og sýnt fram á gæði og virði þess sem verið er að selja. Að ekki sé minnst á að leyfa fólki að kynnast sér, sem myndar mun sterkari og skemmmtilegri tengingu fyrir viðskiptavininn.
Sjálf finn ég að ef að einhver hefur samband við mig eftir að hafa verið á póstlistanum mínum í einhvern tíma, þá er allt allt annað að tala við og vinna með viðkomandi heldur en t.d. þegar einhverjum hefur verið vísað á mig sem veit í rauninni ekkert um markaðsmál og hefur ekki fylgt mér áður. Þá veit sá hinn sami ekkert hvernig ég vinn og í markaðsmálunum er það oft svo að þegar fólk hefur ekki þekkingu á þeim, þá heldur það að hægt sé að smella fingrum og láta hluti gerast án nokkurrar fyrirhafnar - sem þú veist, af því þú lest pistlana mína, að er ekki alveg málið. Hinsvegar er hægt að gera hluti án mikils fjármagn og ná meiri árangri með því að vita hvað maður gerir, ó já, en þú uppskerð eins og þú sáir. Markaðsmálin eru nebblega ansi misskilin, skal ég segja þér :)
Hvað myndir þú vilja að viðskiptavinir þínir vissu um það sem að þér snýr? Hvað myndi hjálpa þér að eiga við erfiða viðskiptavini? Hvað myndi hjálpa þér að selja vöruna þína eða þjónustu? Hvernig geturðu notað það í efnismarkaðssetningu?
Segðu frá áskorunum þínum í ummælunum og kannski get ég eitthvað hjálpað ;)

Með því að þekkja markhópinn þinn almennilega geturðu betur skilið hvað þú þarft að segja og gera til að fá hann í viðskipti. Þess vegna er markhópagreining svona mikilvægur hluti af MáM þjálfuninni.
Vissirðu að MáM býður upp á þjálfunarprógramm í efnismarkaðssetningu? Tjékkaðu á því á mam.is/efnismarkadssetning

Að leigja eða eiga markaðsstarfið



Þeir sem hafa fylgst með mér í einhvern tíma gætu sakað mig um að vera á móti auglýsingum, svo mig langar aðeins að fjalla um þær í dag.

Ég er alls ekkert á móti auglýsingum, per se. Ég hinsvegar vil, í öllum tilfellum, nota þær markaðsaðgerðir sem henta best viðkomandi aðila, markaði og brandi, og sem skila sem allra mestri arðsemi (mmmm skemmtilega bissnesslegt orð! :) - og sem hægt er að sýna fram á að skili þeirri arðsemi og árangri.

Því miður erum við allt allt of oft að nota auglýsingar bara út í loftið og ekki að hugsa nógu vel út í hvað við viljum að þær geri og mæla hvort þær gera það. Staðreyndin er sú að fólk þarf að sjá mann (fyrirtækið, vöruna, þjónustuna) ansi oft áður en það er tilbúið að kaupa, og fyrir flest minni fyrirtæki er það einfaldlega of dýr kostur að gera það allt í gegnum auglýsingar. Ég hef talað töluvert mikið um hversu oft fólk þarf að sjá mann m.a. í þessu vídeó um markaðsferlið og þessu um endurtekningu og þessu um hversu oft! :)  Ef maður ætlar að keyra markaðsstarfið mikið til á auglýsingum, þá þarf maður að auglýsa oft og mikið og það getur orðið ansi dýrt.

Annað sem óvant fólk hefur tilhneigingu til að gera í auglýsingum er að reyna að segja milljón hluti í einu. Staðreyndin er sú að það er nógu erfitt að fá fólk til að taka eftir og meðtaka ein skilaboð í auglýsingu - og um leið og þú reynir að gera meira þá sullast allt saman hjá fólki og auglýsingin missir algjörlega marks.

Hinsvegar geta auglýsingar verið frábær kostur ef notaðar rétt. Hvað þarf til að nota þær rétt? Hér eru 5 atriði sem skipta máli þegar þú notar auglýsingar:

  1. Hvar er markhópurinn þinn og hvar er best að ná til hans? Það er almennt mun sterkara að auglýsa í sérhæfðari miðlum og ná til færri en rétta fólksins heldur en að spreða t.d. í heilsíðu í blöðunum eða auglýsingar í kringum fréttir í útvarpi eða sjónvarpi.
  2. Hvaða skilaboð virka best á markhópinn þinn? Hvað er það sem hann er að leita eftir? Hvað er það sem þú getur gert fyrir hann? Hvað er það sem skiptir hann máli? Þetta veistu ekki nema með öflugri markhópagreiningu.
  3. Notaðu frekar minni auglýsingar og oftar. Ein og ein stór auglýsing gerir ósköp lítið en minni auglýsingar, sem eru alltaf í gangi byggja upp sýnileikann og minna á þig, byggja meira upp.
  4. Hvað viltu að auglýsingin geri? Hver er tilgangurinn með henni? EITT atriði - ekki meira! Hvað viltu að sá sem sér hana og tekur eftir henni geri næst? Jú, stundum auglýsum við bara til að láta vita af okkur, minna á okkur og vera sýnileg, en það er eiginlega bara allt of dýrt fyrir minni fyrirtæki að nota auglýsingar í þeim tilgangi. Ekkert mál t.d. fyrir banka og risa verslunarkeðjur sem eru með fjármagn í þessar leiðir, en fyrir flest fyrirtæki er þetta barasta of dýr leið. Það er betra að nota auglýsinguna til að fá fólk til að taka næsta skref í áttina að viðskiptum. Hvaða skref er það?
  5. Hvernig ætlarðu að mæla hvort að auglýsingin er að gera það sem þú vilt að hún geri? Ef þú ætlar að mæla sýnileika og vitund þá ertu kominn í kannanir og annað þess háttar og það þarf sæmilegt úrtak til að það sé marktæk mæling - semsagt frekar dýrt og mikið vesen. Auglýsingar á netinu eru jú mun mælanlegri, sérstaklega ef auglýsingin er gerð til að fólk smelli á hana því þá geturðu mælt smellina. En hvað svo? Hvað svo eftir smellinn?

Staðreyndin er sú að ef þú treystir bara á auglýsingar í markaðsstarfinu þínu þá ertu að leigja markaðsstarfið. Ef einu skiptin sem fólk sér þig er þegar þú auglýsir, þá hættir það að sjá þig um leið og þú hættir að borga og þar með auglýsa. Búið. Bless. Ekkert meir. Búið að henda þér út.

Þess vegna hvet ég alltaf viðskiptavini mína til að eiga markaðsstarfið sitt. Jú, getur virkað vel að nota auglýsingar til að byrja ferlið, en svo viltu fá áhugasama inn til þín þannig að þú getir haldið sambandinu áfram án þess að þurfa alltaf að borga leigu. Hvernig, jú, t.d. með því að fá þau með þér á samfélagsmiðlunum þar sem þú getur haldið sambandinu áfram - eða enn betra - á póstlistann. Þar ertu kominn með viðkomandi inn í eitthvað sem er þitt og þú þarft ekki að borga í hvert skipti sem þú vilt eiga samskipti við viðkomandi. Þannig geturðu átt markaðsstarfið í stað þess að leigja það með auglýsingum.

Næst ætla ég að gefa þér dæmi um hvernig þú getur gert þetta ;)

Hint - já, það er efnismarkaðssetning í því - ég veit ég er alltaf að tala um hana, en það er góóóóð ástæða fyrir því ;)


Pissar þú í skóinn?

Ég er alsæl að bjóða velkominn gestabloggara á MáM bloggið. Þetta hefur staðið til lengi, en það er jú staðreynd að duglegt fólk sem hefur eitthvað að segja hefur líka mikið að gera og því hefur tekið sinn tíma að koma þessu af stað. Vonandi verður þetta bara fyrsti af mörgum skemmtilegum, áhugaverðum og gagnlegum gestabloggum.

Í dag bloggar hún Halla Kolbeinsdóttir, viðskiptastjóri hjá Hugsmiðjunni, en við Halla kynntumst haustið 2012 þegar ég vann með Hugsmiðjunni í markaðsstefnunni þeirra. Síðan þá hafa þau bara verið að rokka sífellt feitar og feitar (bókstaflega - það er fullt af tónlistarmönnum þarna ha ha ha!) og nú nýlega var bloggið þeirra tilnefnt til SVEF verðlaunannna sem besti vefmiðillinn - og það í hópi stórra og landsþekktra vefmiðla! (Ég vil nú eiga pínku oggu ponsu pons í að blogginu skuli hafa verið ýtt úr vör svo ég er extra glöð fyrir þeirra hönd ;)

Jæja, nóg blaður frá mér - et voilà - gestablogg frá Höllu í Hugsmiðjunni: 

Góður grunnur er gulls ígildi

Í okkar daglega starfi hjá Hugsmiðjunni vinnum við mikið með viðskiptavinum sem koma til okkar í leit að nýjum, betri vef.

Sumir koma til okkar því þau vita að hér eru afburða forritarar, aðrir hafa séð hönnun frá okkur sem heillar og aðrir þekkja okkur vegna vinnubragða í viðmótsforritun. Það sem færri sjá er ósýnilega undirbúningsvinnan. Grunnurinn að góðum vef.

Vinnan sparar tímann

Fyrsta fasa í vefgerð köllum við oft greiningu og hönnun. Til eru mörg afbrigði af fyrstu skrefunum: Markhópagreining, markaðsgreining, vefstefnumótun, ímynd fyrirtækisins og tónn, samkeppnisgreining o.fl. Misjafnt er eftir verkefnum hvort þurfi að ráðast í allar greiningar, en best er, ef vel á að fara, að taka skurk á nokkrum þeirra. Greining getur munað því hvort vefur er hannaður fyrir markhóp fyrirtækisins (í stað starfsmanna fyrirtækisins) og hvort auðvelt sé að nota hann eða ekki.

Við bjóðum sjálf upp á marga þætti hjá okkur, en þegar kemur að því að gera fínt hjá sjálfum sér getur hjálpað að leita utan sinna eigin veggja og fá óháða leiðsögn og ráðgjöf.

Árið 2012 vorum við hjá Hugsmiðjunni að vinna að því að koma okkar eigin vef í loftið. Það gekk svona upp og ofan þannig að við tókum á það ráð að sækja leiðsögn að utan. Við höfðum samband við MáM og eftir nokkra fundi með Þórönnu fór leiðin hjá okkur að skýrast.

Það að sjá skýrt hverjir okkar markhópar eru, hverjir samkeppnisaðilarnir eru og hvað skilur okkur frá þeim er dýrmætt. Saman unnum við að því að koma auga á hvert núverandi brand okkar var og skerpa á því sem var að virka og setja upp plan fyrir framtíðina.

Pissum í skóinn?

Ég fæ á tilfinninguna að sumum finnst þessi vinna vera óþörf. Að fólk hugsi oft „við vitum hver við erum og við hvern við erum að tala: alla - stærra net hlýtur að þýða fleiri viðskiptavinir?“ “Sleppum frekar þessari ‘aukavinnu’ og förum beint í að vinna herferðina”. “Pissum í skóinn” heyri ég bara – skammgóður vermir.

Það er sjaldan sem fleiri en einn til tveir starfsmenn eru með sýnina á hreinu. Verðmætið í að vef-, markaðs-, hönnunar- og framkvæmdastjóri séu öll á sömu blaðsíðu með sýnina er ómetanlegt. Skyndilega er hægt að tala saman út frá sömu forsendum og setja saman aðgerðaplan fyrir markaðsstarf, stefnu og hönnun. Þegar vegakortið liggur fyrir er svo mikið auðveldara að klára hönnun því þá liggja markmiðin í augum uppi. Búið er að taka út mikið af ágiskunum og „tilfinningunni“ sem mismunandi aðilar eru með. Í stað þess að meta vef út frá því sem einhverjum finnst þá er hægt að spyrja: Uppfyllir þessi hönnun markmið okkar sem fyrirtækis? Er þetta það sem markhópur X er að leita að?

Munurinn í heimsóknartölum á vefinn milli ára staðfestir þetta. Árið 2013 fengum við 140% fleiri heimsóknir en 2012. Við höfum stuðst við vinnuskjölin og markaðskerfið frá MáM sem hefur leyft okkur að taka hlutina skrefinu lengra. Það er ótrúlegt hvað markviss undirbúningur skilar miklu.



Hugsmiðjan fór í gegnum MáM þjálfunarferlið og nýtir efnismarkaðssetningu í sínu markaðsstarfi :)




Þýðir eitthvað að vera að markaðssetja á Facebook lengur?

Ertu að markaðssetja á Facebook?

Ef svo er, þá hefurðu væntanlega tekið eftir því þegar þú horfir á tölurnar fyrir Facebook síðuna þína að póstarnir þínir eru að ná til sífellt færra fólks - eða hvað? Það hafa margir verið að taka eftir þessu núna í nokkurn tíma - og nei, það er ekki bara það að fólk hafi verið minna á Facebook í kringum hátíðarnar og sjái þess vegna minna af því sem þú póstar.

Facebook hefur sagt það bara hreint út að nú sé ekki lengur hægt að treysta á að ná til fólks frítt í gegnum Facebook síður og mæla með því að nota keyptar auglýsingar. Þetta ætti sosum ekki að koma neinum á óvart. A: Þeir eru jú í bissness og tekjurnar þeirra koma af auglýsingum og B: Það flæðir ógnarmagn af póstum á Facebook og þeir verða einhvern veginn að velja það sem þeir birta hjá fólki þannig að fólk sé að fá það sem það vill sjá - því annars yrði það fljótt að fara bara (og þá væri Facebook ansi gagnslaust markaðstól). Fólk sér ekki allt sem þeir sem það tengist á Facebook pósta - Facebook velur úr.

Þú getur séð nokkrar fleiri greinar um þessar Facebook breytingar hér fyrir neðan ef þú vilt kafa ;)

Hvað skal þá til bragðs taka? Eigum við að hætta bara að nota Facebook eða er eitthvað sem við getum gert til að vinna með þetta? - já, það getum við. Hér eru 7 atriði sem eru nauðsynleg til að fá sem mest út úr Facebook í dag:

Númer 1
Póstaðu efni sem fólk hefur áhuga á og gerir eitthvað með. Ef ég líka við, skrifa ummæli við eða deili pósti frá einhverjum (hvort sem það er manneskja eða síða) þá sýnir Facebook mér meira frá viðkomandi. Það þýðir að við þurfum að vera með efni sem fólk virkilega hefur áhuga á til að auka árangurinn af því sem við gerum frítt á síðunni okkar. Og hvernig getum við tryggt það? jú...

Númer 2
Við verðum að vita við hverja við viljum vera að tala. Þetta þýðir að við þurfum að vera mjög skýr á því hverjir markhóparnir okkar eru og við verðum að þekkja þá og skilja eins vel og mögulegt er svo við getum höfðað til þeirra. Facebook er samfélagsmiðill - hver vill vera í félagsskap með einhverjum sem leggur sig ekki fram um að þekkja mann eða skilja og er þess vegna bara að blaðra um eitthvað sem maður hefur engan áhuga á? - neitt frekar en maður talar við gæjann í partýinu sem talar bara um sig og hefur engan áhuga á þér ;)   - þetta er ein af ástæðunum fyrir því að markhópagreining er svona stór hluti af MáM þjálfuninni.

Númer 3
Þú þarft að vera áhugaverð(ur). Alveg eins og Michelin matreiðslumeistarar gera ekki bara góðan mat, heldur kunna líka að bera hann fram þannig að hann veki athygli, þá þarftu að huga að því hvernig þú birtist fólki. Hafðu karakter, vertu afgerandi, og hafðu samræmi. Það er þetta með brandið sem ég hef svo oft minnst á og þú getur fundið ýmislegt meira um hér á blogginu og brandið er líka mikilvægasti hluti MáM þjálfunarinnar ;)

Númer 4
Þú þarft að taka efnistökin þín, gerð efnisins og dreifinguna föstum tökum. Það er að ýmsu að huga. Þarna kemur inn eitt og annað er varðar efnismarkaðssetningu (e. content marketing). Ef þú græjar þetta ekki, þá verður mjög erfitt að vera alltaf að senda frá sér efni sem höfðar til hópsins og verkefnið verður óyfirstíganlegt fjall. Ég hef líka talað töluvert um efnismarkaðssetningu hér á blogginu og gert sérstakt MáM prógramm um hana.

Númer 5
Lærðu að nota Facebook auglýsingar almennilega til að styðja við það sem þú ert að gera á Facebook og annars staðar. Það er ótrúlegustu hluti hægt að gera með Facebook auglýsingum. Þú getur miðað auglýsingar á þá sem hafa lækað ákveðnar síður, þú getur keyrt inn netfangalista og auglýst bara á þá sem eru með þau netföng á Facebook, þú getur fundið “lookalike audiences” - þ.e. auglýst bara á fólk sem líkist hópnum sem er þegar á síðunni þinni o.fl. o.fl. Með allt sem snýr beint að Facebook, eins og auglýsingar, þá fer ég beint til hennar Amy - þú getur fengið að vita allt um það á www.mam.is/facebook

Númer 6
Það er ódýrara að auglýsa á þá sem eru búnir að læka síðuna þína heldur en aðra, svo að það er ennþá gott að hafa fullt af fylgjendum á síðunni - en það er tilgangslaust ef það eru ekki réttu fylgjendurnir (sjá nr. 2!). Allskonar like leikir, like-deila-kvitta og þá geturðu unnið iPad eða eitthvað bladí bla eru ekki bara leiðigjarnir og pirrandi, heldur draga að sér allskonar fólk sem hefur í rauninni engan áhuga á því sem þú hefur að bjóða og eru ekkert að fara að leiða til viðskipta - gerðu það fyrir mig - ekki gera það ;)

Númer 7
Náðu fólkinu þínu lengra. Ekki nota bara Facebook til að vera með þeim á Facebook. Notaðu Facebook til að ná til þeirra og hefja sambandið. Fáðu þau svo til að vera memm á póstlistanum þínum þar sem þú getur verið reglulega í sambandi án þess að borga fyrir hvert skipti. Fólk les kannski ekki alla tölvupóstana sem þú sendir, en alltaf einhverja, og eru minnt á þig í hvert skipti sem þú ert í pósthólfinu þeirra. Athugaðu þó að atriði 1.-4. hér fyrir ofan gilda alveg jafnt fyrir póstlistann þinn og Facebook. Athugaðu líka að póstlistamarkaðssetning hefur ýmsar reglur sem þú verður að kynna þér áður en haldið er af stað og það er ákveðin list að gera hana vel - fólk getur jú alltaf afskráð sig - meira um þetta síðar. Ég er einmitt að fara að bjóða upp á frábært námskeið í póstlistamarkaðssetningu á næstunni og besta leiðin til að fylgjast með hvenær það kemur er … jú að skrá sig á póstlistann! ;)


Hvað segir þú? Hefurðu fundið fyrir þessum breytingum hjá Facebook og hvað ætlar þú að gera í málunum?


Ef þú vilt lesa meira um þetta:




Hvar er þetta fólk eiginlega?!



Átti frábæran laugardag að mentorast á Startup Weekend Reykjavík. Mæli eindregið með því að allir kynni sér hana og séu með þegar tækifæri gefst til. Hún er almennt haldin í Reykjavík á haustin, en þú getur fundið Startup Weekend  víðsvegar um landið á ýmsum tímum – og víðsvegar um heiminn.

Þarna hitti ég fullt af flottu fólki að vinna að fullt af flottum verkefnum og ég er mjög spennt að fylgjast með framhaldinu. Ein af þeim sem ég talað við þarna var nýbúin í námi og var að hefja fyrstu skref í ráðgjafastarfsemi í sínu fagi. Hún hafði samviskusamlega lesið pistlana mína og gerði sér vel grein fyrir því að hún þyrfti að skilgreina markhópinn sinn. Vandamálið var bara að hún hafði ekki hugmynd um hver draumaviðskiptavinurinn væri, eða hvernig henni líkaði best að vinna með viðskiptavinunum sínum, vegna þess að hún var algjörlega að byrja og hafði ekkert unnið við þetta áður með þessum hætti. Svo mér datt í hug að fleiri kynnu kannski að njóta góðs af því sem við ræddum á laugardaginn :)

Ég var að mörgu leyti í sömu stöðu þegar ég byrjaði. Ég vissi að ég vildi vinna með aðilum sem ekki hefðu sérfræðiþekkingu í markaðsfræðunum en þyrftu að bæta markaðsstarfið og ég hafði mínar hugmyndir um hvernig best væri að gera það. Svo ég byrjaði að vinna maður á mann með viðskiptavinum. Og það gekk bara vel. Ég reyndar ákvað svo að breyta hvernig ég vann, en ég hef fjallað um það í öðrum pistli og á eflaust eftir að tala um það aftur. Hitt sem gerðist var að ég fór að átta mig á hverskonar viðskiptavinum ég vildi vinna með. Það voru sem betur fer engir þeirra slæmir, alls ekki, en ég naut þess meira að vinna með sumum en öðrum og það var augljóst að sumir fengu meira út úr því að vinna með mér en aðrir.

Mín ráð til þessarar flottu stelpu sem ég hitti á Startup Weekend voru einföld. Byrjaðu bara! Hentu þér út í djúpu laugina. Jú, markaðssetningin verður ekki mjög markviss til að byrja með, því þú talar ansi vítt við alla sem mögulega vilja heyra, en þannig byrjarðu að fá fólk til þín. Talaðu frá hjartanu og því sem þér finnst, hvort sem það er á Facebook, í bloggi, á póstlistanum eða annars staðar og þá muntu laða að þér rétta fólkið fyrir þig.

Bjóddu vinum og vandamönnum fría ráðgjöf. Biddu þá að vera ekkert að segja frá því að þau séu ekki að borga, en vera endilega dugleg að segja frá ef þeim líkar vel og eru tilbúin að mæla með þér. Og vertu meðvituð. Vertu meðvituð um hvað þú fílar, hvað þú fílar ekki. Af hverju er það? Hvað á þetta fólk sameiginlegt sem þú fílar að vinna með? Hvað á þetta fólk sameiginlegt sem þú fílar ekki eins vel að vinna með.

Það gerir ekkert gagn að sitja og velta hlutunum fyrir sér of lengi. Jú, ég mun alltaf vera talsmaður þess að plana, en svo verðurðu líka bara að gera. Svo staldrarðu aftur við, lærir af reynslunni, og planar næstu skref byggt á þeirri reynslu. Það er engin önnur leið til að vita þetta allt saman. Það kemur ekki til með að koma til þín í draumi og það er enginn annar þarna úti sem getur sagt þér það.

Farðu út og talaðu við fólk. Fáðu þau til að prófa vöruna þína eða þjónustu, gefa þér endurgjöf og spekúleraðu í hvað virkar fyrir þig og hvað ekki. Þú átt stöðugt eftir að vera að slípa. Það eru núna að verða 2 ½ ár síðan ég byrjaði að vinna sjálfstætt og mér finnst ég vera hinum megin á hnettinum miðað við hvar ég byrjaði – og ég er enn að læra, tjúna til, slípa, græja og gera. Og veistu hvað, mikið er ég fegin – annars yrði þetta barasta leiðinilegt!

Gangi þér vel að finna fólkið þitt! :)



Ekki gerast sek(ur) um vanrækslu!

Ég er búin að vera að markaðsnördast frá því upp úr aldamótum og búin að vinna með fjölmörgum fyrirtækjum af ýmsum stærðum og gerðum. Aftur og aftur og aftur sé ég grundvallarhluti sem fólk og fyrirtæki klikka á í markaðsstarfinu. Málið í markaðsmálunum er ekki að fylgjast endalaust bara með nýjustu brögðunum og brellunum, málið er að hafa grundvallarhlutina á hreinu.

Svo ég tók mig til og gerði lítið vídeónámskeið um 6 vanrækt grundvallaratriði í markaðsstarfinu sem geta margfaldað árangurinn ef tekin föstum tökum. Fáðu að vita meira í þessu litla vídeói og smelltu svo á hlekkinn fyrir neðan til að skrá þig - alveg frítt :)






Uppfært: Hægt að fá aðgang að námskeiðinu í gegnum thoranna.is/fritt

Ekki vera hrædd(ur) við að þrengja...

Þetta er klassískt í markaðsfræðunum og ég hef talað um þetta margoft áður. Finndu markhópinn þinn, þann sem er vænlegastur fyrir þig, og markaðssettu á hann. Ekki reyna að vera allt fyrir alla. Finndu drauma viðskiptavininn og finndu svo fleiri svoleiðis.

En það er ekkert auðvelt. Og það hræðir mann líka. Maður er alltaf meðvitaður um að maður gæti verið að missa af einhverjum sem gæti mögulega, kannski, fræðilega séð, keypt. Við gerum þetta öll. Ég geri þetta sjálf. Ég þarf alltaf að vera að minna mig á að velja og þrengja - reyna ekki að vera allt fyrir alla.

Hingað til hef ég skilgreint markhópinn minn sem lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru ekki sérfræðingar í markaðsmálum en þurfa að, og vilja, bæta þau. Flott mál. En vá hvað þetta er ennþá vítt! Svo ég er alltaf að skoða málin, spá og spekúlera, ræða við fólk og stilla til. 

Ég hef íhugað að þrengja þetta þannig að þetta séu ofangreindir aðilar en í ákveðnum greinum. Það myndi líta einhvern veginn svona út - t.d. hótelmarkaðssetning frá A til Z, eða markaðssetja endurskoðendur frá A til Z eða markaðssetja fatahönnuði frá A til Z - ég væri í öllum bleiku hringjunum:



Maður gæti alveg orðið ansi góður í þeim markaðsaðgerðum sem ættu við þennan tiltekna bransa sem maður veldi. Þetta gæti alveg virkað. Eeeeeeen nei, það einhvern veginn virkar ekki fyrir mig. Ég er ekki sérfræðingur í ákveðnum greinum, per se,  og ég vil ekki vera það. 

Ég veit hinsvegar að ég er sterkust og ánægðust þegar ég er að vinna í markaðsstefnunni, brandinu og að velja þær markaðsaðgerðir sem henta. Þegar kemur að þessum markaðsaðgerðum - því að setja upp póstlistann, nota Facebook o.s.frv. þá missi ég svolítið áhugann. Ég kann ýmislegt í því, ég gæti það alveg, en maður getur ekki verið allt fyrir alla og það eru mjög færir aðilar til sem eru sérfræðingar í því, en ekki svo góðir í því sem ég er góð í. Þannig að ég er komin á það að þetta er hinn valmöguleikinn:



Þetta er það sem ég vel. Að vinna í kjarna stefnunni, brandinu og velja þær markaðsaðgerðir sem best koma því til skila til markaðarins.

En hvað þýðir það þegar kemur að því að skilgreina markhópinn minn? Hmmm... draumaviðskiptavinurinn...
  • hún/hann þarf að hafa metnað til að vilja geta betur, betur og enn betur
  • hann/hún þarf að vilja byggja upp framúrskarandi fyrirtæki - ekki bara eitthvað sem gengur
  • hún/hann þarf að vilja breyta heiminum með fyrirtækinu sínu - ekki endilega öllum, en a.m.k. sínu litla horni af honum
  • hann/hún þarf að vilja byggja upp fyrirtæki sem er einstakt, öðruvísi og áhugavert
  • hún/hann þarf að vera tílbúin(n) að leggja á sig þá vinnu sem til þarf
  • hann/hún þarf að vera óhrædd(ur) - ja, tilbúinn að taka á hræðslunni
Því að maður verður alveg hræddur þegar maður er að reyna að breyta þó ekki sé nema litlu horni af heiminum. Maður verður hræddur þegar maður stefnir hærra og lengra en hinir. En það eru þeir sem takast á við þessa hræðslu sem fá að njóta þess að gera eitthvað sem skiptir máli.

Svo ég auglýsi hér með eftir ofangreindu fólki því það er fólkið mitt :)

Hvað vilt þú gera og fyrir hvern viltu gera það?

p.s. Ég og Rúna Magnúsdóttir, markþjálfi og snillingur með meiru, erum að undirbúa svolítið alveg hrikalega spennandi fyrir akkúrat svona fólk eins og ég lýsi að ofan. Það verður í haust. Ef þig langar að fylgjast með og vita meira, passaðu að vera skráð(ur) á póstlistann (hérna vinstra megin :)




Þú þarft að þekkja og skilja markhópinn

Það er ekki nóg að vita af hvaða kyni og á hvaða aldri markhópurinn þinn er. 
Þú þarft að þekkja hann og skilja.


Virkar ekki myndin eða hlekkurinn í henni? 

Stundum þarftu að reka viðskiptavini

Öll viðskipti eru ekki góð viðskipti og það er mikilvægt að vera ekki að láta viðskiptavini sem ekki eru réttir fyrir þig taka frá þér tíma og orku. Fáðu að vita meira með því að horfa á þetta stutta vídeó.