Hverjir eru þetta? Skilgreindu markhópana með meira en bara tölum og hörðum skilgreiningum!



Í fyrri póstum höfum við skoðað af hverju þú getur ekki selt öllum og hvernig þú getur fundið drauma viðskiptavininn þinn, og þar með besta markhópinn eða bestu markhópana fyrir þig að einbeita þér að. En hvernig skilgreinum við svo þessa markhópa?

Klassíska leiðin er að skilgreina þá lýðfræðilega og landfræðilega, eftir hlutum eins og aldri, kyni, tekjum, menntunarstigi o.s.frv. Í sumum tilfellum á þetta algjörlega við, en í öðrum skiptir þetta bara alls engu máli! Hvort sem lýðfræði eða landafræði á við hjá þér eða ekki, þá muntu alltaf þurfa að fara dýpra og læra meira um þá sem þú ert að markaðssetja til.


Þú verður að þekkja þetta fólk eins og bestu vini þina. Skilja þau, vita hvað skiptir þau máli, fyrir hvað þau lifa, hverja þarfir þeirra eru, hvaða vandamál þau glíma við. Með því að þekkja þau og skilja eins vel og þú mögulega getur ertu betur í stakk búinn að átta þig á því á hverju þau hafa áhuga, hvernig þú getur skipt þau máli og hvernig þú getur byggt upp samband við þau.

Markaðsmál snúast öll um að byggja upp samband, að mörgu leyti á sama hátt og þú byggir upp persónuleg sambönd. Ef þú ætlar að mynda samband við einhvern, þá er alltaf betra að vita sem mest um þá og skilja þá sem best, ekki satt? Með því að skilja bakgrunn fólks og gildi þeirra - hvað það er sem skiptir þau máli - þá geturðu átt áhrifaríkari samskipti við þau. Spáðu í hvernig þetta virkar í persónlega lífinu - markaðssetning er í rauninni eins, bara á stærri skala.

Þú þarft að tala til markhópsins þíns á einhvern þann hátt sem hefur þýðingu fyrir hann. Þetta er enn mikilvægara í dag með samfélagsmiðla, blogg og allar þessar leiðir sem við höfum til að vera í gagnvirku sambandi við fólk og nú þegar fólk ræður meira hvort það hlustar á mann. Dagar hefðbundinna auglýsinga eru að líða undir lok. Við getum ekki bara gargað á fólk hvort sem þeim líkar betur eða verr. Áhorfendur eru ekki lengur fangaðir fyrir framan sjónvarpið heima. Fólk getur skipt um stöð, tekið upp og spólað yfir auglýsingarnar og það eru m.a.s. til forrit sem taka auglýsingarnar af þeim vefsíðum sem þú ert að lesa efni á!

Nútímatól eins og samfélagsmiðlar veita okkur frábært tækifæri til að tengjast fólki sterkari böndum en með hefðbundnum auglýsingum. Það þýðir hinsvegar líka að það er pressa á okkur að skilja hvað markhópurinn vill og hvað skiptir þau máli, því að annars koma þau bara til með að "aflæka" Facebook síðuna, hætta að fylgja þér á Twitter og afskrá sig af póstlistanum.

Persónulega er ég hrikalega ánægð með þessa þróun. Því nú eru það ekki bara fyrirtækin með mesta peningana eða ágengasta fólkið sem ná árangri, heldur þau sem virkilega er annt um viðskiptavini sína og leggja sig fram um að byggja upp samband við þá.

Þú getur því væntanlega séð hversu mikilvægt það er að skilja markhópinn sinn og þekkja eins vel og mögulegt er. Leggðu þig fram um það næstu vikuna að spekúlera vel í markhópnum þínum. Hvað veistu um þau? Hvernig geturðu fengið að vita meira um þau? Og hvernig kemur sá skilningur og sú þekking til með að hjálpa þér að tala til þeirra á áhrifaríkari hátt og byggja við þau sterkara samband?

Leyfðu mér að fylgjast með hvernig gengur með því að skilja eftir ummæli hér fyrir neðan eða á Facebook :)




No comments:

Post a Comment