Hvar er þetta fólk eiginlega?!



Átti frábæran laugardag að mentorast á Startup Weekend Reykjavík. Mæli eindregið með því að allir kynni sér hana og séu með þegar tækifæri gefst til. Hún er almennt haldin í Reykjavík á haustin, en þú getur fundið Startup Weekend  víðsvegar um landið á ýmsum tímum – og víðsvegar um heiminn.

Þarna hitti ég fullt af flottu fólki að vinna að fullt af flottum verkefnum og ég er mjög spennt að fylgjast með framhaldinu. Ein af þeim sem ég talað við þarna var nýbúin í námi og var að hefja fyrstu skref í ráðgjafastarfsemi í sínu fagi. Hún hafði samviskusamlega lesið pistlana mína og gerði sér vel grein fyrir því að hún þyrfti að skilgreina markhópinn sinn. Vandamálið var bara að hún hafði ekki hugmynd um hver draumaviðskiptavinurinn væri, eða hvernig henni líkaði best að vinna með viðskiptavinunum sínum, vegna þess að hún var algjörlega að byrja og hafði ekkert unnið við þetta áður með þessum hætti. Svo mér datt í hug að fleiri kynnu kannski að njóta góðs af því sem við ræddum á laugardaginn :)

Ég var að mörgu leyti í sömu stöðu þegar ég byrjaði. Ég vissi að ég vildi vinna með aðilum sem ekki hefðu sérfræðiþekkingu í markaðsfræðunum en þyrftu að bæta markaðsstarfið og ég hafði mínar hugmyndir um hvernig best væri að gera það. Svo ég byrjaði að vinna maður á mann með viðskiptavinum. Og það gekk bara vel. Ég reyndar ákvað svo að breyta hvernig ég vann, en ég hef fjallað um það í öðrum pistli og á eflaust eftir að tala um það aftur. Hitt sem gerðist var að ég fór að átta mig á hverskonar viðskiptavinum ég vildi vinna með. Það voru sem betur fer engir þeirra slæmir, alls ekki, en ég naut þess meira að vinna með sumum en öðrum og það var augljóst að sumir fengu meira út úr því að vinna með mér en aðrir.

Mín ráð til þessarar flottu stelpu sem ég hitti á Startup Weekend voru einföld. Byrjaðu bara! Hentu þér út í djúpu laugina. Jú, markaðssetningin verður ekki mjög markviss til að byrja með, því þú talar ansi vítt við alla sem mögulega vilja heyra, en þannig byrjarðu að fá fólk til þín. Talaðu frá hjartanu og því sem þér finnst, hvort sem það er á Facebook, í bloggi, á póstlistanum eða annars staðar og þá muntu laða að þér rétta fólkið fyrir þig.

Bjóddu vinum og vandamönnum fría ráðgjöf. Biddu þá að vera ekkert að segja frá því að þau séu ekki að borga, en vera endilega dugleg að segja frá ef þeim líkar vel og eru tilbúin að mæla með þér. Og vertu meðvituð. Vertu meðvituð um hvað þú fílar, hvað þú fílar ekki. Af hverju er það? Hvað á þetta fólk sameiginlegt sem þú fílar að vinna með? Hvað á þetta fólk sameiginlegt sem þú fílar ekki eins vel að vinna með.

Það gerir ekkert gagn að sitja og velta hlutunum fyrir sér of lengi. Jú, ég mun alltaf vera talsmaður þess að plana, en svo verðurðu líka bara að gera. Svo staldrarðu aftur við, lærir af reynslunni, og planar næstu skref byggt á þeirri reynslu. Það er engin önnur leið til að vita þetta allt saman. Það kemur ekki til með að koma til þín í draumi og það er enginn annar þarna úti sem getur sagt þér það.

Farðu út og talaðu við fólk. Fáðu þau til að prófa vöruna þína eða þjónustu, gefa þér endurgjöf og spekúleraðu í hvað virkar fyrir þig og hvað ekki. Þú átt stöðugt eftir að vera að slípa. Það eru núna að verða 2 ½ ár síðan ég byrjaði að vinna sjálfstætt og mér finnst ég vera hinum megin á hnettinum miðað við hvar ég byrjaði – og ég er enn að læra, tjúna til, slípa, græja og gera. Og veistu hvað, mikið er ég fegin – annars yrði þetta barasta leiðinilegt!

Gangi þér vel að finna fólkið þitt! :)



No comments:

Post a Comment