Kanntu að segja nei?Við erum flest í hjarta okkar gott fólk. Flest okkar vilja allt fyrir alla gera og það er náttúrulega voðalega gott. En þegar kemur að fyrirtækinu þínu þá er það eiginlega barasta dauðasynd! Ha? Jú, sjáðu til.

Í hverju ertu góð(ur)? Af hverju? Það er venjulega þannig að maður er góður í því sem maður nýtur þess að gera og maður nýtur þess að gera það sem maður er góður í. Þetta helst í hendur – eggið og hænan.
Svo stofnar maður fyrirtæki til að gera það sem maður er góður í. En það er ekkert auðvelt. Það er að mörgu að huga og það tekur tíma að byggja hlutina upp. Maður er mjög mjög mjög meðvitaður um að maður þarf á tekjum að halda. Án þeirra gengur þetta jú ekki. Svo maður fer að taka hliðarspor. Grafíski hönnuðurinn sem vill vera í að gera brand útlit samþykkir að gera útsölubækling fyrir lágvöruverðsverslun. Fatahönnuðurinn sem vill hanna eigin galakjóla tekur að sér að breyta jakkafötum. Og markaðsráðgjafinn sem elskar að vinna með stefnu og brand samþykkir að veita ráðgjöf við uppsetningu á Facebook síðu og AdWords auglýsingum.

Og hvað gerist?

  1. Maður verður hundfúll að vera að gera eitthvað sem maður vill ekki vera að gera.
  2. Maður gerir hlutina ekki eins vel af því að maður nýtur þeirra ekki, sem bitnar á gæðum vinnunnar og ánægju viðskiptavinarins – að ekki sé minnst á hvað það er erfitt að eiga jákvæð og góð samskipti við einhvern sem er að biðja mann að gera eitthvað sem maður vill ekki gera.
  3. Maður verður þekktur fyrir að gera allskonar hluti sem maður vill ekkert vera þekktur fyrir og það dregur að sér fleiri svoleiðis verkefni en ekki þau sem maður vill vera þekktur fyrir.
  4. Maður hefur engan tíma til að gera það sem maður vill gera, það situr bara á hakanum, og loksins uppgötvar maður að maður hefur ekki komið nálægt því í lengri tíma.
  5. Maður verður þekktur fyrir að gera allskonar, en ekki bara eitthvað ákveðið, og þá er maður bara allskonar maðurinn en ekki „sérstaklega góður í þessu“ maðurinn – og hver heldurðu að fái draumaverkefnin þegar þau koma upp? Jep, „sérstaklega góður í þessu“ maðurinn.

Ég er búin að vita þetta lengi lengi í hausnum. Þetta er allt í fræðunum. En ég er alltaf að læra þetta betur og betur á eigin skinni. Þess vegna fókusera ég á markaðsstefnuna, brandið og að velja tólin til að byggja það upp.

Ég kann ágætlega á Facebook, en ég vísa þeim sem vilja læra á það á hana Amy vinkonu mína, sem er Facebook sérfræðingurinn.

Ég kann ágætlega á LinkedIn, en ég vísa þeim sem vilja massa LinkedIn á Lewis vin minn.

Ég kann ansi vel á Pinterest – var m.a.s. með mitt eigið námskeið á netinu í að nota það, en Melanie vinkona mín er sérfræðingurinn, svo ég vísa fólki sem vill læra á Pinterest til hennar.

Já og YouTube og vídeó í markaðssetningu. Kann eitt og annað, en ekki nærri eins mikið og hann James félagi minn.

Ég er hætt að taka að mér verkefni á þessum sviðum því þau taka frá mér tíma og orku til að gera það sem ég er best í og elska að gera, og taka allan fókusinn úr brandinu mínu og veikja það.

Á ensku er talað um „Jack of all trades, master of none“ – og þegar fólk vill láta gera eitthvað almennilega þá vill það meistarann. Þú getur ekki verið meistarinn í öllu. Veldu þitt svið, haltu þig við það og ég lofa að ef þú heldur það út þá muntu uppskera eins og þú sáir ;)
No comments:

Post a Comment