Af hverju dó Europris?

Munið þið eftir Europris? Þessum allt muligt verslunum sem maður fékk bæklinga frá inn um lúguna reglulega. Europris hætti starfsemi á Íslandi á síðasta ári.

Ég vil byrja á því að taka fram að ég veit alls ekki af hverju Europris hætti og þekki ekki til fyrirtækisins á nokkurn hátt annan en að hafa fengið bæklingana þeirra inn um lúguna og hafa farið nokkrum sinnum þarna inn. Hinsvegar hef ég mínar theoríur og mig langar að nota þær til að undirstrika ákveðna hluti sem skipta máli í markaðsmálunum.

Ég er á því að vandamálið við Europris hafi verið að maður vissi aldrei hvað Europris var. Jú, lágvöruverslun, en lágvöruverslun með hvað? Ég man eftir að hafa komið nokkrum sinnum þarna inn og það voru aldrei sömu vörurnar til. Þú gast ekki treyst því að eitthvað sem þú sást þarna í síðasta mánuði væri til þegar þú kæmir í næsta mánuði.

Ef mig vantar brauð og mjólk, þá veit ég að ég get farið t.d. í Nettó eða Bónus. Ég get treyst því að ég fái það þar. Ef mig vantar úlpu þá veit ég að ég get farið t.d. í 66 Norður eða Cintamani. Ef mig vantar bækur, þá fer ég í Eymundsson eða á Amazon. En þannig var það ekki með Europris. Maður gat aldrei gengið að því sem vísu að maður fengi það sem maður var að leita að. Maður vissi aldrei hverskonar búð þetta var. Ég vissi aldrei í hvaða skúffu í skjalaskápnum í hausnum á mér ég átti að flokka hana. Var þetta matvöruverslun? Já, en nei – ég gat klárlega ekki keypt alla matvöru sem mig vantaði. Var þetta fataverslun? Já og nei, eitthvað smá en þó ekki. Var þetta útivistarverslun? Hmmm stundum og stundum ekki.

Ég hafði bara aldrei hugmynd um hverskonar verslun þetta var. Og ef maður veit ekki í hvaða hólf eða skúffu maður á að flokka eitthvað, þá geymir maður það hvergi og man þess vegna ekki eftir því þegar maður vantar eitthvað sem þessi aðili gæti haft að bjóða. Og hvað Europris varðar þá vissi ég aldrei hvort þeir hefðu það sem mig vantaði.

Mig grunar nú samt að margir sakni þeirra. Ég man að amma fékk þarna eitthvað garn sem hún fílaði í botn. Við keyptum einhvern tímann eitthvað partýtjald þarna og þarna kenndi ýmissra grasa. En þetta er eitt skýrasta dæmið sem ég hef séð um hversu mikilvægt er að fólk viti hver þú ert og hvað þú gerir og geti treyst því.

Hvað finnst þér? Verslaðir þú í Europris? Saknarðu hennar?


No comments:

Post a Comment