Blogg um markaðsmál - skrifað á mannamáli! Þetta er gamla góða íslenska bloggið og hér eru fjölmargir klassískir póstar sem ég mæli með að þú lesir. Hinsvegar er nýrra blogg þar sem ég birti nýja pósta, bæði á íslensku og ensku, á thoranna.is/blog - tjékkaðu endilega á þvi líka. ;)
Ég elska hann Pablo :)
Ég gekk einu sinni inn í verslun að leita að kuldabuxum á dóttur mína. Þegar ég kom inn var ekki nokkur sála sjáanleg. Eftir smá stund kemur fram maður og þegar ég spyr hann hvort hann eigi kuldabuxur á svona stelpuskottu þá bendir hann lufsulega út í eitt hornið og segir: "ef þær eru til þá eru þær þarna". Því næst tók hann upp dagblað og hóf að lesa það! Ég hvorki fann kuldabuxur, né, ef ég hefði fundið þær, held ég að ég hefði keypt þær. Ég meina - átti ég að gera þeim það til geðs að borga þeim peninga fyrir 0% þjónustu?
Ég var í Ameríkunni núna í byrjun nóvember. Sem er sosum ekki í frásögur færandi, nema að ég kíkti í svona kannski eina eða tvær búðir (eða svo, hmmmm ;) - og ég fékk menningarsjokk! Jákvætt menningarsjokk! :)
Við konurnar könnumst flest allar við það að það leiðinlegasta sem maður getur verslað sér er gallabuxur. En við látum okkur hafa það, því að þó að það sé leiðinlegt að versla þær þá notum við þær í botn og þær eru náttúrulega bara æðislegar - sérstaklega ef maður dettur niður á gott par sem fer manni vel. Svo ég ákvað, þar sem þarna í Ameríkunni var þessi fína gallabuxnabúð með góð verð, að nú skyldi ég versla mér gallabuxur.
Með hjartslætti og kvíða fór ég inn. Ég horfði ráðvillt á hillur eftir hillur eftir hillur af gallabuxum og taldi í mig kjark. Kemur þá að mér ungur maður, voða sætur og hress, og býður fram aðstoð sína. Ég greip hann náttúrulega fastataki. Hann spurði mig eftir hverju ég væri að leita, mælti með sniðum, litum, sagði mér að ég þyrfti að passa að þó ég væri með sama sniðið þá gæti nú þurft mismunandi stærð eftir því hvaða litur væri á gallabuxunum því efnið væri aðeins öðruvísi og ég veit ekki hvað og hvað. Svo valdi hann nokkrar buxur fyrir mig að prófa, fór með mig inn í mátunarklefa og beið á meðan ég mátaði. Lét mig koma fram, skoðaði mig í bak og fyrir og sagði mér hvað gekk, hvenær ég þyrfti aðra stærð, (hann m.a.s. sagði nokkrum sinnum að ég þyrfti minna númer - og hvaða kona elskar ekki að heyra það!). Hann fór og náði í aðrar stærðir þegar þurfti og bara hreinlega snérist í kringum mig eins og skopparakringla. Þetta var hann Pablo og ég er ástfangin af honum. Ekki eins og manninum mínum (enda hefði Pablo líka meiri áhuga á manninum mínum en mér ;) en OMG, ég væri til í að klóna litla útgáfu af honum og geta haft hann með mér í vasanum alltaf þegar ég fer að versla gallabuxur. Honum tókst að gera gallabuxnamátun og -kaup ánægjuleg og það er afrek út af fyrir sig!
Þessi verslun er í Ameríku (Levi's í Wrentham Outlet fyrir utan Boston ;) og ég hef þegar lofað sjálfri mér því að þangað fer ég aftur. Ég keypti mér þrennar buxur - sem ég elska - og mun ábyggilega kaupa mér aðrar þrennar þegar ég fer næst. Ég segi öllum heiminum frá þessu ... ég er eitt stykki himinlifandi og brjálæðislega ánægður viðskiptavinur!
Allt of oft þegar maður kemur inn í verslun hérna á blessuðum klakanum, þá fær maður á tilfinninguna að maður sé að trufla starfsfólkið. Bölvað vesen er þetta á manni að vera eitthvað að þvælast þarna inn og skoða og kannski barasta kaupa eitthvað. Þetta er náttúrulega ekki algilt, ég hef alveg fengið svaka góða þjónustu í íslenskum verslunum, en þetta er því miður algengara en hitt. Hvernig í ósköpunum getum við kvartað yfir því að fólk versli ekki hjá okkur þegar þetta er viðmótið sem fólk fær? Nei takk - hingað og ekki lengra. Taki það til sín það íslenska verslunarstarfsfólk sem á það, rífið ykkur upp á rassgatinu og farið að vinna fyrir laununum ykkar. Já og vitiði, bónusinn er að það verður líka bara miklu skemmtilegra í vinnunni því það verða allir svo glaðir :)
Átt þú sögu af góðri þjónustu einhverstaðar sem þú vilt deila með okkur? Segðu okkur endilega frá! :)
Flokkar:
markaðsdrifni,
samkeppni,
sölumennska,
þjónusta
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment