Því miður, ég get ekki hjálpað þér...Í nóvember og desember fæ ég oft símtöl eða tölvupósta frá fólki í kvíðakasti, biðjandi mig um aðstoð við að selja vöruna þeirra eða þjónustu fyrir jólin. Svona ca. kerter í jól :)  Svo ég ætla núna að skrifa bloggpóst til að fræða þig, og sem ég get hreinlega sent hlekk í næst þegar ég fæ svoleiðis beiðni :)

Svarið er einfalt: “Því miður, ég get ekki hjálpað þér”. Það er ekki til nein töfralausn í markaðssetningu sem virkar á örfáum dögum eða vikum. Ef þú hefur ekki sinnt markaðsstarfinu þínu almennilega hingað til, byggt það upp og lagt inn í bankann, þá þýðir ekki að ætla að rjúka til núna og ætlast til að markaðsstarfið skili árangri á nokkrum vikum fyrir jól. Að ekki sé nú talað um að ætla markaðsstarfinu að ná athygli á þessum árstíma þegar allir eru að garga á alla um að kaupa þetta og kaupa hitt - maður einfaldlega drukknar í hávaðanum.

Það er núna sem þeir uppskera sem sáðu fyrir löngu síðan og rækta stöðugt markaðsgarðinn sinn. Þeir sem hafa byggt upp sambandið við markhópinn sinn. Þeir sem hafa leitt fólk í gegnum markaðsferlið nú þegar, eru búnir að byggja upp vitund, eru búnir að byggja upp áhuga, hafa fengið fólk til að líka við sig. Hafa byggt upp traust og hafa gert fólki kleift að prufa vöruna sína eða þjónustuna á einhvern hátt svo að fólki finnist það vita hvað það er að fara að kaupa. (Ef þú hefur ekki enn séð vídeóið mitt um markaðsferlið, smelltu hér til að kíkja á það ;)

Ég gekk inn í Hagkaup um daginn og við mér blasti standur með Vísindabók Villa. Um leið og ég sá hana þá vissi ég að ég myndi kaupa a.m.k. eitt, ef ekki fleiri eintök, til að gefa í jólagjafir. Hvað bókina varðar, þá rauk ég í gegnum markaðsferlið á innan við mínútu. Ég sá hana og vissi því af henni, hún vakti strax áhuga, mér líkaði við hana og treysti því að hún væri þess virði að kaupa. Ég kíkti á hana, sem kom mér yfir prufuferlið, et voilà, ég var tilbúin að kaupa. Eða hvað….?

Sannleikurinn var sá að ég hef verið að fylgjast með Villa í mörg ár. Börnin mín hafa setið stjörf yfir öllum bíómyndunum hans með Sveppa, og þegar þeir hafa birst saman í sjónvarpinu um helgar í gegnum tíðina. Ég hef hlustað á spurningaþáttinn hans í útvarpinu á sunnudögum og fór með dóttur mína á Karíus og Baktus með Naglbítunum fyrir mörgum árum síðan. Ég hef vitað af Villa í mörg mörg ár, haft áhuga á því sem hann hefur verið að bralla og líkað við hann. Ég hef séð aðra hluti sem hann hefur gert, og treysti honum þess vegna til að gera góða hluti og það var auðvelt að prufa bókina - ég bara blaðaði í sýningareintakinu. Villi hefur lagt inn hjá mér í mjög langan tíma og þess vegna er hann að uppskera núna með sölu á bókinni sinni.

Ef þú ert ekki þegar farinn að rækta markaðsstarfið þitt, þá er of seint í rassinn gripið að ætla að gera það núna til að fá sölu fyrir jólin. Þú getur hinsvegar tekið þá ákvörðun að ætla að taka þetta föstum tökum og tryggja að þú sért ekki í sömu sporum næstu jól. Það er t.d. tilvalið að skella sér núna á MáM þjálfunina í markaðsmálum til að tryggja að næstu jól verði sérstaklega gleðileg! Ef þú tryggir þér áskrift fyrir jól færðu einn mánuð í bónus, auk þess sem þetta er síðasti sjéns til að fá þjálfunina með sérsniðinni skýrslu frá mér með tillögum að markaðsaðgerðum og sem kemur markaðskerfinu þínu af stað (þjálfunin breytist aðeins eftir áramótin ;)

Smelltu hér til að fá að vita meira um MáM þjálfunina!

xo

No comments:

Post a Comment