Ég er búin að vera að kenna mikið sl. mánuðinn úti um hvippinn og hvappinn. Skrifa einmitt þennan bloggpóst sitjandi í kennslustofu Visku, símenntunarmiðstöðvar Eyjamanna eftir að siglingunni heim með Herjólfi hefur verið frestað vegna veðurs.
Útsýnið úr kennslustofu Visku yfir höfnina í Eyjum, þaðan sem ég skrifa þetta á meðan ég bíð eftir að Herjólfur komist með mig í land fyrir roki :) |
Vertu öðruvísi en hinir
Þegar ég fer inn á síðu sem sýnir mér fullt af mögulegum gististöðum, og þeir virðast allir vera eins, hvað vel ég þá? Jú, ég set einhver ákveðin skilyrði (ég t.d. vil hafa mitt eigið baðherbergi og ég þarf internettengingu) og þegar ég hef vinsað úr þau sem ekki uppfylla það, þá standa einhverjir möguleikar eftir. Og hvað þá? Í flestum tilfellum einfaldlega verð. Nema að einhver þeirra skeri sig úr. Sé áhugaverðari en hinir. Þetta er m.a. það sem gerðist þegar ég var að leita að gistingu á Höfn.
Ég var búin að útiloka einhverja möguleika m.a. byggt á ofangreindu og hentugri staðsetningu og af þeim sem eftir stóð var einn staður sem var margfalt girnilegri en hinir – og greinilega var ég ekki ein á þeirri skoðun því þar var uppbókað. Hvað var það sem heillaði svona við þennan stað? Jú, hann var ekki bara öðruvísi, heldur virðist hann, af myndunum að dæma, hafa karakter. Hann höfðaði til manns af því hann er sérstakur.
Í umsögn um ákveðinn gistiaðila sagði einhver einhverstaðar „nothing to write home about“. Þá er ég heldur ekkert að velja þann stað fram yfir annan. Vertu eitthvað sem fólk vill skrifa heim um, eitthvað sem fólk langar í. Eitthvað sem fólk vill tala um og segja frá – hvort sem þú ert með gistiheimili, veitingastað, hönnun eða hvað sem þú ert með. Ekki vera eins og allir hinir.
Myndir segja meira en mörg orð
Hefurðu prófað nýlega að fara inn á bókunarsíður fyrir gistimöguleika? Hvort sem það er á sveit.is (Ferðaþjónusta bænda), bookings.com, hotels.com eða TripAdvisor, þá sérðu endalausar myndir af húsum að utan og tómum herbergjum. Og þetta rennur allt saman í eitt. Jú, auðvitað viltu sýna húsið að utan og hvernig herbergin líta út, sem hluta af því að gefa fólki hugmynd um hvað það er að kaupa, en þú verður líka að finna leið til að standa út úr röðum og röðum af möguleikum, og þú vilt að fólk langi til að gista hjá þér.
Finndu leið til að draga fólk inn með einhverju áhugaverðu og öðruvísi myndefni og sýndu svo húsið og herbergin með - og hafðu þær myndir fallegar. Alveg það sama gildir um svo margt annað, veitingastaði, snyrtistofur, hinar ýmsu vörur o.s.frv. o.s.frv. Þarna geta myndir gert gæfumuninn. Ekki bara myndefnið, heldur hvernig þær eru teknar og ekki síður hvernig þær eru unnar. Hvað sem þú ert að markaðssetja, það er þess virði að fá fagmann í að taka myndirnar og vinna þær því þær skipta gríðarlega miklu máli!
Ekki vera týndur!
Í leit minni að gistingu á Höfn bað ég vinkonu mína sem býr í nágrenninu um meðmæli. Hún mælti með ákveðnu gistiheimili svo ég fór á stúfana að athuga með það. Ég fann ekkert um það á vefsíðunni visitvatnajokull.is, sem er upplýsingavefsíða um svæðið, fyrir ferðamenn. Ég fann ekkert á sveit.is né booking.com en fann að fjallað hafði verið um þetta á Lonely Planet. Ég fann enga vefsíðu fyrir gistiheimilið, og það var ekki skráð á ja.is! Loks fann ég netfang (sem var á almennu léni sbr. simnet, internet, hotmail, gmail o.þ.h. – það er aldrei mjög trausvekjandi þegar um fyrirtæki er að ræða) og símanúmer. Ég hringdi í símanúmerið og það svaraði ekki. Ég hefði aldrei hringt einu sinni nema af því að mælt hafði verið með því, en þetta endanlega fór út í veður og vind þegar það var ekki einu sinni svarað í símann.
Vertu þar sem fólk er að leita að þér. Finndu út hvar það er fyrir þinn bransa og tryggðu að fólk finni þar hluti sem fá það til að vilja skipta við þig. - já og svaraðu síma og tölvupósti :)
Fræðin segja, og ég vissi sosum, að í markaðssetningu er mikilvægt að vera öðruvísi, hafa góðar myndir og finnast þegar fólk leitar að manni en það áhugavert þegar maður sér það svona skýrt í raunveruleikanum. Hvernig eru myndirnar þínar? Finn ég þig ef ég leita að þér? Athugaðu málið ;)
Er varan þín eða þjónusta nógu frábrugðin hinum á markaðnum þínum? Ef ekki, þá er ráð að fara í gegnum MáM þjálfunina til að finna út hvernig þú ætlar að skera þig úr á þínum markaði ;)
No comments:
Post a Comment