Blessað feisið :)

Mörg okkar eru að nota samfélagsmiðla til að markaðssetja okkur og fyrirtækin okkar. Ég bað vaskan hóp frumkvöðla að henda á mig spurningum um Facebook sem þau vildu fá svör við og hér eru spurningarnar og svörin við þeim. Einhverjar spurninganna kölluðu á mun meira en bloggpóst, svo þær verða að bíða betri tíma og annars vettvangs, en þetta kemur vonandi að gagni :)

Hvað er munurinn á Facebook auglýsingum og svo þessum "boosted posts" sem maður getur keypt?

Facebook auglýsingar eru auglýsingarnar sem birtast ýmist hægra megin við fréttaveituna þína, eða í fréttaveitunni. Þær geta verið ýmiskonar, s.s. CPM eða CPC (sjá hér fyrir neðan) og haft ýmiskonar tilgang.



Ef ég vel að "Boost Post", þá er ég í raun einfaldlega að borga fyrir að pósturinn sem ég set á síðuna mína nái meiri sýnileika hjá fólki, ýmist hjá þeim sem fylgja síðunni og vinum þeirra, eða víðar.



Það er ekki þannig að allir sem hafa sett Like á síðuna þína sjái allt sem þú setur þar inn. Það er gríðarlega mikið af efni sem flæðir um Facebook og þeir eru með allskonar leiðir til þess að hjálpa þér að vinsa úr og sjá meira af því sem þú hefur áhuga á og minna af því sem þú hefur ekki áhuga á. Þú hefur væntanlega tekið eftir því að þeir sem sjá póstana þína eru almennt mun færri en eru búnir að smella like á síðuna. Fólk sem hefur oft skellt like á póstana þína, deilt þeim eða sett ummæli við þá er mun líklegra til að sjá póstana þína í framhaldinu en þeir sem aldrei gera neitt með þá. Þess vegna viltu fá sem mesta virkni frá fylgjendum þínum á Facebook, því þannig færðu meiri sýnileika án þess að þurfa að borga fyrir það. Boosted posts gera þér hinsvegar kleift að borga fyrir meiri sýnileika. Oh well, Facebook er jú í bissness.

Þegar maður kaupir Facebook auglýsingar, hvað er munurinn á CPM og CPC?

CPM þýðir Cost Per 1000 Impressions, eða hvað maður borgar fyrir að þúsund manns sjái auglýsinguna þína. Þetta er líka þekkt sem PPI eða Pay Per Impression.

CPC þýðir Cost Per Click, eða kostnaður við að einhver smelli á auglýsinguna þína, einnig þekkt sem PPC eða Pay Per Click.

Munurinn er semsagt hvort þú borgar bara fyrir að fólk sjái auglýsinguna, eða hvort þú borgar fyrir að fólk smelli á hana.

Hvort viltu? Það fer eftir því hver tilgangurinn með auglýsingunni er. Þú verður alltaf að hugsa um samspil þeirra markaðsaðgerða sem þú ert að nota og hvernig þú ætlar að færa fólk í gegnum markaðsferlið - sjá hér. Ef að tilgangurinn er t.d. að láta vita af þér, minna á þig, vekja áhuga eða fá fólki til að líka við þig, þá getur verið sterkara að borga bara fyrir að fólk sjái þig. Ef þú hinsvegar vilt ná fólki inn á Facebook síðuna þína (ath! þú getur fengið like án þess að fólk fari inn á síðuna) eða inn á vefsíðuna þína (þar sem það getur t.d. fengið meiri upplýsingar, keypt, skráð sig eða annað) þá viltu fá fólk til að smella í gegn og kaupir CPC. Þú þarft alltaf að meta þetta hverju sinni í samræmi við hvað þú vilt að auglýsingin geri fyrir þig.

Á maður að vera með vegginn á síðunni sinni opinn fyrir póstum frá öðrum, eða loka fyrir það?

Facebook er samfélagsmiðill. Hann er ekki í eðli sínu auglýsingamiðill, þó að hægt sé að auglýsa á honum. Fólk fer ekki inn á Facebook til að láta auglýsa á sig heldur til að eiga samskipti. Fyrirtæki sem gera sér grein fyrir þessu og nota Facebook til að byggja upp samband við viðskiptavini sína fá mun meira út úr honum. Með því að loka fyrir pósta frá öðrum á síðunni þinni ertu í rauninni að segja að þú viljir ekki hlusta á þá. Það er ekki líklegt til að byggja upp gott samband, er það?

Þú þarft hinsvegar að passa að fylgjast með og fara inn á Facebook a.m.k. einu sinni á dag til að bregðast við því sem er að gerast, hvort sem það er að svara spurningum eða annað. Og þú vilt passa að það sé ekkert á veggnum sem þú vilt ekki að sé þar. Því miður er til fullt af fólki sem kann sig ekki á netinu, það er bara svo. Auðvitað viltu ekki loka á öll skoðanaskipti, en stundum fer fólk yfir strikið og þá er allt í lagi hreinlega að eyða commenti og jafnvel blokka viðkomandi einstakling frá því að geta póstað á síðuna - en það á ekki að vera almenna reglan að loka á fólk.

Er hægt að hafa mismunandi tungumál á Facebook síðum eftir því hvar lesandinn er staðsettur? Eða eru einhverjar góðar aðferðir til ef maður vill ná bæði til Íslendinga á íslensku og annarra á ensku?

Stutta svarið er já. Það er hægt að hafa mismunandi tungumál á Facebook síðum eftir staðsetningu og tungumálastillingum notenda. Það er hinsvegar ekkert einfalt svar til varðandi hvort það er besta aðferðin. Það er mjög margt sem þarf að huga að varðandi þetta, sérstaklega þegar farið er að teygja sig lengra en bara í íslensku og ensku og menningarlega hliðin á málunum er líka alltaf eitthvað sem má ekki gleymast.

Hér geturðu fundið ágætis vídeó um notkun á Language Gate fídusnum á Facebook: http://www.wealthyblogger.com/language-gate-on-facebook/.

Athugaðu hinsvegar að síðan sjálf breytist ekki, þetta virkar bara fyrir póstana. Facebook er með nokkuð sem heitir Global Pages, þar sem síðan í heild er mismunandi eftir því hvaðan notandinn kemur, en það er tól sem er bara hægt að fá ef maður er það stór auglýsandi hjá þeim að maður sé með viðskiptastjóra - sem ég hugsa að eigi nú ekki við mörg fyrirtæki hér á klakanum. Sorry - veit að þetta er loðið svar, en það er einfaldlega ekki til standard svar sem á við öll fyrirtæki og alla markaði og þetta verður að skoðast fyrir hvert og eitt dæmi fyrir sig.

Eru einhver trix til að gera síðuna áhugaverðari fyrir lesendur?

Það er ekki hægt að stytta sér leið, ef það er það sem verið er að fiska eftir. Á Facebook, líkt og í allri markaðssetningu, gildir að þekkja markhópinn sinn vel, vita á hverju hann hefur áhuga og veita honum það. Deila efni sem þau hafa áhuga á og byggir brandið þitt upp um leið. Þetta er vinna, en þetta er vinna sem ber árangur ef unnin rétt, og getur byggt upp tryggan hóp viðskiptavina til lengri tíma.





No comments:

Post a Comment