Þeir sem hafa fylgst með mér í einhvern tíma gætu sakað mig um að vera á móti auglýsingum, svo mig langar aðeins að fjalla um þær í dag.
Ég er alls ekkert á móti auglýsingum, per se. Ég hinsvegar vil, í öllum tilfellum, nota þær markaðsaðgerðir sem henta best viðkomandi aðila, markaði og brandi, og sem skila sem allra mestri arðsemi (mmmm skemmtilega bissnesslegt orð! :) - og sem hægt er að sýna fram á að skili þeirri arðsemi og árangri.
Því miður erum við allt allt of oft að nota auglýsingar bara út í loftið og ekki að hugsa nógu vel út í hvað við viljum að þær geri og mæla hvort þær gera það. Staðreyndin er sú að fólk þarf að sjá mann (fyrirtækið, vöruna, þjónustuna) ansi oft áður en það er tilbúið að kaupa, og fyrir flest minni fyrirtæki er það einfaldlega of dýr kostur að gera það allt í gegnum auglýsingar. Ég hef talað töluvert mikið um hversu oft fólk þarf að sjá mann m.a. í þessu vídeó um markaðsferlið og þessu um endurtekningu og þessu um hversu oft! :) Ef maður ætlar að keyra markaðsstarfið mikið til á auglýsingum, þá þarf maður að auglýsa oft og mikið og það getur orðið ansi dýrt.
Annað sem óvant fólk hefur tilhneigingu til að gera í auglýsingum er að reyna að segja milljón hluti í einu. Staðreyndin er sú að það er nógu erfitt að fá fólk til að taka eftir og meðtaka ein skilaboð í auglýsingu - og um leið og þú reynir að gera meira þá sullast allt saman hjá fólki og auglýsingin missir algjörlega marks.
Hinsvegar geta auglýsingar verið frábær kostur ef notaðar rétt. Hvað þarf til að nota þær rétt? Hér eru 5 atriði sem skipta máli þegar þú notar auglýsingar:
- Hvar er markhópurinn þinn og hvar er best að ná til hans? Það er almennt mun sterkara að auglýsa í sérhæfðari miðlum og ná til færri en rétta fólksins heldur en að spreða t.d. í heilsíðu í blöðunum eða auglýsingar í kringum fréttir í útvarpi eða sjónvarpi.
- Hvaða skilaboð virka best á markhópinn þinn? Hvað er það sem hann er að leita eftir? Hvað er það sem þú getur gert fyrir hann? Hvað er það sem skiptir hann máli? Þetta veistu ekki nema með öflugri markhópagreiningu.
- Notaðu frekar minni auglýsingar og oftar. Ein og ein stór auglýsing gerir ósköp lítið en minni auglýsingar, sem eru alltaf í gangi byggja upp sýnileikann og minna á þig, byggja meira upp.
- Hvað viltu að auglýsingin geri? Hver er tilgangurinn með henni? EITT atriði - ekki meira! Hvað viltu að sá sem sér hana og tekur eftir henni geri næst? Jú, stundum auglýsum við bara til að láta vita af okkur, minna á okkur og vera sýnileg, en það er eiginlega bara allt of dýrt fyrir minni fyrirtæki að nota auglýsingar í þeim tilgangi. Ekkert mál t.d. fyrir banka og risa verslunarkeðjur sem eru með fjármagn í þessar leiðir, en fyrir flest fyrirtæki er þetta barasta of dýr leið. Það er betra að nota auglýsinguna til að fá fólk til að taka næsta skref í áttina að viðskiptum. Hvaða skref er það?
- Hvernig ætlarðu að mæla hvort að auglýsingin er að gera það sem þú vilt að hún geri? Ef þú ætlar að mæla sýnileika og vitund þá ertu kominn í kannanir og annað þess háttar og það þarf sæmilegt úrtak til að það sé marktæk mæling - semsagt frekar dýrt og mikið vesen. Auglýsingar á netinu eru jú mun mælanlegri, sérstaklega ef auglýsingin er gerð til að fólk smelli á hana því þá geturðu mælt smellina. En hvað svo? Hvað svo eftir smellinn?
Staðreyndin er sú að ef þú treystir bara á auglýsingar í markaðsstarfinu þínu þá ertu að leigja markaðsstarfið. Ef einu skiptin sem fólk sér þig er þegar þú auglýsir, þá hættir það að sjá þig um leið og þú hættir að borga og þar með auglýsa. Búið. Bless. Ekkert meir. Búið að henda þér út.
Þess vegna hvet ég alltaf viðskiptavini mína til að eiga markaðsstarfið sitt. Jú, getur virkað vel að nota auglýsingar til að byrja ferlið, en svo viltu fá áhugasama inn til þín þannig að þú getir haldið sambandinu áfram án þess að þurfa alltaf að borga leigu. Hvernig, jú, t.d. með því að fá þau með þér á samfélagsmiðlunum þar sem þú getur haldið sambandinu áfram - eða enn betra - á póstlistann. Þar ertu kominn með viðkomandi inn í eitthvað sem er þitt og þú þarft ekki að borga í hvert skipti sem þú vilt eiga samskipti við viðkomandi. Þannig geturðu átt markaðsstarfið í stað þess að leigja það með auglýsingum.
Næst ætla ég að gefa þér dæmi um hvernig þú getur gert þetta ;)
Hint - já, það er efnismarkaðssetning í því - ég veit ég er alltaf að tala um hana, en það er góóóóð ástæða fyrir því ;)
No comments:
Post a Comment