Að kenna viðskiptavininum - hvernig efnismarkaðssetning getur auðveldað þér viðskiptin ;)Í síðustu viku sýndi ég upptöku af fyrirlestri sem ég var með hjá Nýsköpunarhádegi Klak Innovit um efnismarkaðssetningu. Eitt af því sem ég minntist á þar var hvernig efnismarkaðssetning getur gert sambandið við viðskiptavininn mun betra, með því að fræða hann...
Flest okkar kannast við erfiða viðskiptavini, hvort sem það er að selja þeim til að byrja með, eða að vinna með þeim. Það eru ýmsar ástæður fyrir því (sumir eru bara svona ;) en í mjög mörgum tilfellum er hægt að minnka erfiðleikastigið með efnismarkaðssetningu. Með því að fjalla um hluti í kringum það sem þú gerir og uppfræða viðskiptavininn geturðu verið búinn að fjarlægja mikið af vegatálmunum og jafnvel opna dyrnar að því að selja þeim hluti sem annars væri erfitt að selja þeim.
Það er sennilega best að sýna þetta með dæmum:
Með því að fjalla um hvernig góður undirbúningur getur leitt til betri vefsmíði og þess að verkinu lýkur fyrr og innan fjárhagsáætlunar getur vefstofa hvatt viðskiptavini sína til að þess að koma betur undirbúnir að borðinu. Hún getur m.a.s. verið búin að fræða viðskiptavininn um það í hverju sá undirbúningur felst.
Sama vefstofan getur líka verið búin að fjalla um mikilvægi leitarvélabestunar og efnismarkaðssetningar, og þannig undirbúið jarðveginn svo að auðveldara verður að sannfæra viðskiptavininn um að hann þurfi að nota þessi tól og jafnvel selja viðskiptavininum þjónustu í kringum það.
Snyrtistofa getur fjallað um hvernig hinar ýmsu meðferðir fara fram og kosti þeirra. Ef að ég er t.d. búin að lesa um hvað ég græði á því að koma reglulega í andlitsbað, í stað þess að koma bara af og til, þá er ég líklegri til að koma reglulega en ella.
Einkaþjálfari getur fjallað um kosti þess að æfa á þennan hátt frekar en hinn þannig að þegar viðskiptavinurinn kemur í þjálfun þá skilur hann af hverju verið er að velja þær æfingar sem valdar eru. Þá er viðskiptavinurinn ánægður og þjálfarinn þarf ekki að eyða tíma í að útskýra af hverju hlutirnir eru gerðir svona en ekki hinsegin.
Hönnuður eða listamaður getur sagt frá pælingunum að baki verkunum, af hverju þessi og hin efni eru valin, hvernig þau eru unnin og þannig vakið áhuga og sýnt fram á gæði og virði þess sem verið er að selja. Að ekki sé minnst á að leyfa fólki að kynnast sér, sem myndar mun sterkari og skemmmtilegri tengingu fyrir viðskiptavininn.
Sjálf finn ég að ef að einhver hefur samband við mig eftir að hafa verið á póstlistanum mínum í einhvern tíma, þá er allt allt annað að tala við og vinna með viðkomandi heldur en t.d. þegar einhverjum hefur verið vísað á mig sem veit í rauninni ekkert um markaðsmál og hefur ekki fylgt mér áður. Þá veit sá hinn sami ekkert hvernig ég vinn og í markaðsmálunum er það oft svo að þegar fólk hefur ekki þekkingu á þeim, þá heldur það að hægt sé að smella fingrum og láta hluti gerast án nokkurrar fyrirhafnar - sem þú veist, af því þú lest pistlana mína, að er ekki alveg málið. Hinsvegar er hægt að gera hluti án mikils fjármagn og ná meiri árangri með því að vita hvað maður gerir, ó já, en þú uppskerð eins og þú sáir. Markaðsmálin eru nebblega ansi misskilin, skal ég segja þér :)
Hvað myndir þú vilja að viðskiptavinir þínir vissu um það sem að þér snýr? Hvað myndi hjálpa þér að eiga við erfiða viðskiptavini? Hvað myndi hjálpa þér að selja vöruna þína eða þjónustu? Hvernig geturðu notað það í efnismarkaðssetningu?
Segðu frá áskorunum þínum í ummælunum og kannski get ég eitthvað hjálpað ;)

Með því að þekkja markhópinn þinn almennilega geturðu betur skilið hvað þú þarft að segja og gera til að fá hann í viðskipti. Þess vegna er markhópagreining svona mikilvægur hluti af MáM þjálfuninni.
Vissirðu að MáM býður upp á þjálfunarprógramm í efnismarkaðssetningu? Tjékkaðu á því á mam.is/efnismarkadssetning

No comments:

Post a Comment