Get ÉG ábyrgst árangurinn ÞINN?

Það kemur oftar en ekki fyrir þegar maður ræðir við fólk sem er í leit að aðstoð við markaðsmálin að það er búið að prófa eitt og annað. Það er ekki ósjaldan sem fólk segir mér að það hafi nú auglýst í útvarpinu, eða keypt auglýsinu í blaðinu, og skilur ekkert af hverju það virkaði ekki. Svo réð það almannatengslastofu og því næst einhvern til að græja leitarvélarbestun og það bara skilur ekki að það sá engan varanlegan árangur - ef nokkurn. Svo kemur það til mín og leitar ráða og oftar en ekki spyr það hvenær það geti búist við að sjá árangur af vinnunni. Því hann þarf helst að sjást á morgun.

Þetta minnir mig svolítið á það sem ég hef lesið mér til um barnauppeldi. Ég á tvö börn (fædd 2004 og 2008) og er þessi týpa sem las allar óléttubækurnar á meðgöngunni og uppeldisbækurnar á meðan barnið var enn ekki farið að ganga. Eitt af lyklunum við barnauppeldi er samræmi yfir lengri tíma. Að nota alltaf sömu aðferðirnar. Ef þú byrjar að nota 1, 2, 3 aðferðina, haltu þig þá við hana. Ef þú notar “timeout” þá þarftu að halda þig við að gera það og það tekur tíma þar til þetta fer allt að virka almennilega. Flest okkar könnumst við foreldra sem hlaupa úr einu í annað, nota þessa aðferðina einn daginn og hina hinn daginn og skilja ekkert af hverju börnin vaða upp um alla veggi.

Þetta er alveg eins í markaðsstarfinu. Ef við hlaupum alltaf í sitt hvora áttina reynandi þetta í dag og hitt á morgun þá er aldrei neitt að fara að virka. Ég er ekki að segja að maður eigi að berja hausnum við steinninn og halda áfram án þess að breyta nokkru þegar það er greinilegt að hlutirnir gera ekkert gagn, en við verðum að gefa þeim sjéns. Við verðum að gefa þeim tíma. Markaðssetning, alveg eins og barnauppeldi, er maraþon - ekki spretthlaup.

Fyrir ykkur sem lesið þetta og kannist ekki við þetta með barnauppeldið, þá er kannski gagnlegra að setja þetta fram í samhengi við vigtina og ræktina. Ef að ég svelti mig þess vikuna, fer á LKL hina vikuna, South Beach næstu vikuna og gerist svo grænmetisæta vikuna þar á eftir, þá er ekki líklegt að ég nái miklum árangri. Eða ef ég fer í ræktina í fjóra tíma í dag en svo ekkert í viku, og svo fimm tíma á dag í 3 daga og svo ekkert í mánuð. Við vitum að við þurfum að vinna jafnt og þétt að markmiðunum okkar og gefa hlutunum tíma. Þannig næst varanlegur árangur.

Þess vegna þarftu að leggja góðan grunn að markaðsstarfinu, velja þær aðgerðir sem eru líklegastar til að virka, vinna þær jafnt og þétt og vel og gefa þeim tíma.

Ég var spurð um daginn hvort ég gæti ábyrgst árangurinn af MáM þjálfuninni minni. Svarið er einfalt: Nei. Ekkert frekar en einkaþjálfarinn í ræktinni getur ábyrgst árangurinn þinn. Það ert þú sem þarft að vinna vinnuna. Ég get leitt þig rétta vegu og gefið þér tækin og tólin, en það er þitt að nýta þau. Alveg eins og það er þitt að mæta í ræktina og gera æfingarnar.

Og það er munurinn á þeim sem ná árangri og þeim sem gera það ekki. Hvernig þú notar það sem þú færð í hendurnar. Það er ástæðan fyrir því að sumir eru í brjáluðu formi og aðrir ekki og ástæðan fyrir því að sum fyrirtæki rokka feitt í markaðsstarfinu og önnur ekki.

Hey, ef þetta væri auðvelt, þá værum við öll búin að gera þetta ;)

Ef þú vilt taka markaðsmálin föstum tökum, skráðu þig þá á póstlistann og fylgstu með þegar allar upplýsingar koma um MáM bootcampið sem fer í gang á næstunni. Þar færðu tækin, tólin og aðhaldið, og ef þú tekur það sem ég gef þér og vinnur vinnuna þína vel og gefur því tíma - þá get ég lofað að þú sérð árangur!

P.s. 9 ára dóttir mín sagði mér brandara um daginn um mann sem ákvað að synda yfir Ermasundið. Þegar hann var kominn hálfa leið þá gafst hann upp og synti til baka! Ha ha ha ha ... einmitt ;)

No comments:

Post a Comment