Við höfum öll heyrt þá klisju að það sé auðveldara að halda í núverandi viðskiptavini en að finna nýja. Og það er alveg rétt. Við eigum það samt til að gleyma þessu og vanrækja þá viðskiptavini sem við höfum nú þegar á meðan við bjóðum nýjum viðskiptavinum brjálæðisleg tilboð og veitum þeim alla okkar athygli.
Lengi hef ég verið á leiðinni að tækla þessi mál betur hjá mér og finna leiðir til að halda betur sambandi við “gamla” viðskiptavini. Mig langar að segja þér aðeins frá svolitlu sem ég er að gera í því - kannski er þetta eitthvað sem þú getur nýtt hjá þér ;)
Ég kaupi mjög mikið orðið af vefnámskeiðum. Ég hef t.d. keypt námskeið um Facebook markaðssetningu, LinkedIn, Pinterest, tölvupóst, vídeó, netmarkaðssetningu almennt o.fl. o.fl. Mér finnst þetta frábær leið af svo mörgum ástæðum. T.d. að ég þarf ekki að vera ákveðnum stað á ákveðnum tíma til að læra, ég get alltaf farið yfir hlutina aftur ef ég þarf og maður fær góðar skref-fyrir-skref leiðbeiningar. Eitt af því sem er mjög algengt að boðið sé upp á er aðgangur að lokuðum Facebook hóp þar sem þátttakendur geta rætt saman, spurt hvern annan og svarað og bara almennt hjálpað. Kennarinn kemur líka reglulega inn og svara spurningum. Það þýðir að ekki bara hefur maður aðgang að öllu efninu alltaf hreint, heldur hefur maður alltaf einhvern sem maður getur spurt. Auðvitað gildir líka að maður verður að hjálpa til sjálfur - það þýðir ekki bara að taka taka og taka - maður verður jú líka að gefa.
Annað sem svona hópur gerir fyrir þann sem býður upp á vefnámskeiðið er að þetta gerir honum kleift að eiga í áframhaldandi samskiptum við viðskiptavini sína og byggja þannig upp frekari sambönd.
Ég er lengi búin að vera að spekúlera í þessu sem leið til að halda sambandi við viðskiptavini og nú ætla ég að skella mér í það í tengslum við Bootcampið mitt sem byrjar í næstu viku að vera með svona hóp á Facebook. Ég ákvað hinsvegar að bjóða ekki bara þeim sem eru í Bootcampinu núna að vera með, heldur sendi ég tölvupóst á eldri MáM-ara og bauð þeim að vera með. Mig langar að byggja upp öflugan hóp MáM-ara á netinu, sem getur stutt við hvern annan og deilt ráðum og hugmyndum - eitthvað miklu meira og stærra en ég get bara ein og sjálf. Viðtökurnar hafa verið frábærar og flestir búnir að melda sig að vera með. Ég er búin að vera að undirbúa hópinn og fer að byrja að bæta fólki inn og hlakka mikið til að sjá hvernig þetta þróast. Ég vona að það verði líflegar og gagnlegar umræður og góð upplýsingaskipti þarna og ég mun sjálf gera mitt allra besta til að svo verði, með því að fara inn reglulega og taka þátt.
Hvernig gætir þú notað eitthvað svona til að halda áfram að rækta sambandið við viðskiptavinina þína? Hér eru nokkrar hugmyndir:
- Býðurðu upp á fjármálaráðgjöf eða bókhald? Settu upp hóp með öllum viðskiptavinum þínum þar sem þeir geta skipst á ráðum. Farðu reglulega inn og svaraðu spurningum, deildu jafnvel með þeim gagnlegu efni, minntu þá á VSK gjalddaga, hin ýmsu skil í tengslum við bókhaldið og fjármálin o.s.frv.
- Ertu einkaþjálfari? Vertu með viðskiptavinahóp þar sem fólk getur deilt uppskriftum, hvaða æfingar hafa verið að virka sérstaklega vel og jafnvel hvatt fólk til að deila árangurssögum. Svaraðu spurningum reglulega, hentu inn góðum uppskriftum, ráðleggingum og æfingum - eða bara skemmtilegu hvatningarefni, YouTube vídeói af stuðlagi á föstudegi eða hvað annað sem þér dettur í hug.
- Rekurðu ferðaþjónustufyrirtæki og færð mikið af erlendum ferðamönnum til þín. Hafðu sérstakan hóp á Facebook fyrir “innvígða” - þá sem hafa komið til þín áður og hvettu þá til að deila myndum, sögum og ráðleggingum til hvers annars. Bættu fólki inn í hópinn um leið og þau bóka hjá þér, svo að upplýsingarnar og virknin þar geti gert þau enn spenntari fyrir því að koma. Vertu með gagnlegar upplýsingar þarna, notaðu myndaalbúmið og “files” til að setja inn hluti eins og hvað fleira er hægt að gera á svæðinu, kort, upplýsingar um gönguleiðir, opnunartíma sundlaugarinnar o.s.frv. o.s.frv. Vertu upplýsingamiðstöðin þeirra og staðurinn sem þau leita til að fá upplýsingar með því að deila upplýsingum og svara spurningum.
Það er hægt að gera þetta á ýmsan hátt. Þú getur notað Google Groups, LinkedIn groups, Google+ Community, eða Facebook groups. Þar sem flestir hérlendis eru á Facebook, þá er það sennilega sá kostur sem liggur beinast við.
Úff - þetta verður heilmikil vinna, hugsa ábyggilega sumir. Já og nei. Jú, það getur verið vinna að ná upp virkni í svona hóp, en það getur líka gefið rosalega mikið - mun meira en margt annað sem þú ert að eyða tíma og orku í. Mundu, það er ekki bara þú sem ert að gefa, heldur er fólk að gefa hverju öðru - og þú ert að gefa aðilum sem eru þegar farnir að þekkja þig. Þú ert þannig að styrkja sambandið enn frekar og auka líkurnar á endurteknum viðskiptum og því að þau vísi til þín nýjum viðskiptavinum.
Svo getur þetta líka bara verið svo assgoti gaman! :)
No comments:
Post a Comment