Ekki vera rass - markaðsrannsóknir eru nauðsynlegar!

Ég vaknaði upp við vondan draum um daginn. Ég var að vinna með stórum hóp af fólki í markhópagreiningu og allt í einu áttaði ég mig á því að þau voru bara að skálda út í bláinn með hvernig markhópurinn þeirra væri, í stað þess að hafa einhverjar raunverulegar upplýsingar. Og það minnti mig á eitthvað sem ég veit alveg en maður á til að gleyma. Það kann ekkert okkar hugsanalestur! (Ef það er rangt, og þú kannt hugsanalestur, vertu þá endilega í bandi því mig langar miiiiiiiiiiiikið að tala við þig! :)

Ekki bara gerði ég ráð fyrir að þau vissu að þau yrðu að gera markaðsrannsóknir til að fá að vita meira um markhópinn - og gerði þar með ráð fyrir að þau læsu mínar hugsanir - heldur gerðu þau ráð fyrir að þau vissu allt um markhópinn - og gerðu þar með ráð fyrir að þau læsu hugsanir og vissu allt mögulegt um fólk sem þau höfðu jafnvel aldrei hitt!

Og hverju skiptir þetta? Jú, þetta skiptir nefnilega öllu máli. Markaðsstarfið snýst allt um að ná til fólks og mynda við það samband. Ef að þú heldur eitthvað um fólk sem ekki er rétt og talar við það byggt á því, þá er blaðrið í þér tilgangslaust - ekki satt?

Þetta er svona eins og að vera strákur og labba upp að stelpunni á barnum og byrja að reyna við hana á fullu - sem þú hefðir getað sparað þér með smá könnun sem leitt hefði í ljós að hún væri barasta ekkert fyrir stráka heldur kysi heldur fegurra kynið ;)

Það er alltaf gott að muna það sem þeir segja á engilsaxneskunni:En þá heyrist gjarnan: “En ég er bara með lítið fyrirtæki og ég hef ekkert efni á að kaupa markaðsrannsóknir”. Veistu, það er heldur enginn að tala um að gera það. Nú verður kannski einhver fræðimaðurinn alveg tjúll, en það er betra að gera tiltölulega einfalda könnun upp á eigin spýtur sem getur gefið manni einhverjar vísbendingar, heldur en að gera ekki neitt.

Hér eru nokkrir einfaldir hlutir sem þú getur gert til að læra meira um markhópinn þinn, án þess að þurfa að veðsetja fyrirtækið!:

  • Skoðaðu gögn hjá þér: Sölutölur, viðskiptavinaskrár, dagbækur, gestabækur, bókanir og aðrar upplýsingar sem þú kannt að luma á.
  • Ræddu við framlínufólkið þitt (ef það er ekki þú), þá sem afgreiða viðskiptavininn og þjónusta hann alla daga. Hverjir eru viðskiptavinirnir þínir? Hverjir þeirra eru bestir? Hvernig eru þeir?
  • Gerðu könnun á netinu með tólum á borð við Google Forms.

  • Gerðu vettvangsrannsókn, settu saman rýnihóp eða taktu viðtöl við fólk - eða enn betra, fáðu einhvern sem þú þekkir til að aðstoða þig við það ;)

Hvað sem þú gerir, ekki gera rass úr mér eða þér - fáðu að vita hvernig hlutirnir raunverulega eru ;)

Í MáM þjálfuninni er ekki bara farið í rokna góða markhópagreiningu, heldur einnig hvernig þú getur gert markaðsrannsóknir til að fá að vita meira um markhópana þína og þú getur alltaf spurt spurninga og fengið svör og ráð í lokaða hópnum okkar á Facebook :)  


No comments:

Post a Comment