Ég elska þegar fólk fílar mig ekki!



Ég hitti vinkonu mína og kollega fyrr í vikunni. Hún spurði mig hvaða viðbrögð ég hefði fengið við síðasta bloggpóstinum og tölvupóstinum sem ég sendi þeim sem fylgja mér. Ástæðan fyrir því að hún spurði var að kona nokkur hafði komið að máli við hana og var ekki alls kostar ánægð með mig. Hún vissi ekki alveg hvernig hún átti að taka því að í efnislínu tölvupóstsins sem ég hafði sent henni stóð “Ekki vera rass, … “ og nafn viðtakanda. Það var greinilegt á orðum vinkonu minnar að þetta hafði heldur betur farið fyrir brjóstið á konunni.

Vinkona mín reyndar spurði hana hvort hún hefði síðan lesið póstinn - vitandi að þá hefði hún væntanlega fattað grínið - en frúin hafði ekki gert það. O jæja …

Viðbrögð mín voru eintóm gleði. Mér fannst þetta frábært! OK - nú máttu alls ekki misskilja mig. Það var ekki markmiðið mitt að láta vesalings konunni líða eitthvað illa og mér þykir það miður. Hinsvegar er ég mjög glöð þegar einhver fílar alls ekki það sem ég geri. Af hverju? Af því að ef einhver fílar það engan veginn eru góðar líkur á því að einhver annar fíli það í botn! Og það er það sem maður vill.

Ugla sat á kvisti


Ég hef sagt það oft áður og segi það enn og aftur. Markaðssetning snýst öll um að mynda samband. Því sterkara samband sem þú* getur myndað, því líklegra er fólk til að kaupa af þér, því líklegra er það til að kaupa af þér aftur og því líklegra er það til að segja öðrum frá þér og skapa þér þannig meiri viðskipti. Þú vilt að sumir elski þig og aðrir hati þig - verum raunsæ, það eru aldrei allir að fara að elska þig! Þeir sem elska þig vilja ekki skipta við neinn annan og ef fólk fílar þig ekki þá ertu í það minnsta líkleg(ur) til að vekja umtal ;)

Ef öllum finnst þú* hinsvegar bara ágæt(ur), þá skiptirðu fólk ekki nógu miklu máli til að það velji þig framyfir einhvern annan. Ef þú ert ágæt(ur) og hinn er ágæt(ur) og þessi þarna er ágæt(ur) þá getur fólk alveg eins notað “ugla sat á kvisti” til að velja hvern það verslar við. Eða enn verra, valið eingöngu byggt á verðum - og þá fyrst fer reksturinn að verða erfiður þegar það er það eina sem maður keppir á!

*Athugaðu að þegar ég segi “þú” þá á ég við fyrirtækið þitt, vöru, þjónustu - jú eða þig sjálfa(n) ef þú ert það sem þú ert að markaðssetja.

Vertu bleik!


Þegar ég byrjaði í sjálfstæðum rekstri var ég mikið spurð hvað í ósköpunum ég væri að spá að nota þennan sterka bleika lit í markaðsefninu mínu. “Heldurðu að þetta komi ekki til með að stuða fólk?” var ég spurð, og “heldurðu að karlmenn vilji skipta við þig þegar þú notar þennan lit?”

Sjáðu til, það er mjög mjög mjööööööööög meðvituð ákvörðun að nota þennan bleika lit. Hann er fullkominn til að koma brandinu mínu til skila. Hann er eins og ég, kraftmikill, sterkur, biðst ekki afsökunar á neinu, lifandi og “in your face”. Hann er líka ólíkur litunum hjá öllum hinum sem eru á álíka markaði og ég.

Ef að þessi litur er nóg til að stöðva fólk í því að vilja vinna með mér, þá eru allar líkur á því að það fólk sé hvorteðer ekki rétta fólkið fyrir mig að vinna með. Ef liturinn stuðar einhvern, þá myndi ég væntanlega stuða þann hinn sama :)            Og ef að strákarnir vilja ekki vera memm bara af því að ég er bleik - ooo jæja, þá eru það hvorteðer ekki strákar sem ég vil vinna með ;)

Vertu þú!


Það hefur aldrei neinn náð langt á því að vera fyrir alla og þú munt ekki ná langt heldur ef þú reynir það. Vertu það sem þú vilt vera, það sem þú vilt að fyrirtækið þitt, vörur og þjónusta standi fyrir og þá muntu ekki bara ná í gegn um hávaðann og samkeppnina á markaðnum heldur muntu fyrir vikið mynda mun sterkari sambönd við fólk sem fílar þig í botn!

Kíktu hérna á Pinterest töfluna mína sem er helguð fólki, fyrirtækjum, vörum og þjónustu sem hafa afgerandi karakter sem fólk getur þá annað hvort elskað eða hatað - aðilar sem hafa hugrekki og uppskera tryggja fylgjendur í kjölfarið!: http://www.pinterest.com/thoranna/brave-brands/ - ef þú manst eftir fleirum sem eiga heima þarna, endilega láttu mig vita ;)

Brand stefnumótun er hjarta MáM þjálfunarinnar - byggðu upp brand sem fólk elskar!



No comments:

Post a Comment