Taktu til eftir sumarfríið og komdu skipulagi á hlutina


Jæja - sumarfríið búið, alvara lífsins tekur við að nýju - og þetta á væntanlega við fleiri en mig. Hvernig lítur markaðsstarfið framundan út hjá þér? Veistu hvað þú ætlar að gera? Finnst þér þú vera með þetta allt á hreinu og í góðum málum? Þetta er ekki verri tími en hver annar til að koma skipulagi á hlutina.

Byrjaðu á því að skrifa niður hvað það er sem þú ætlar að gera í markaðsmálunum reglulega, t.d. á hverjum degi, einu sinni, tvisvar eða þrisvar í viku, einu sinni eða tvisvar í mánuði... Þetta geta verið hlutir eins og að blogga, setja eitthvað inn á Fésbókarsíðuna (2-3 x í viku er það sem Facebook fólkið mælir sjálft með), senda út pósta á x marga sem kynnu að hafa áhuga á því sem þú ert að markaðssetja eða hvað annað sem við á fyrir þig.

Náðu svo í gott dagatal yfir næsta árið eða svo. Farðu yfir það vel og vandlega. Hvað er framundan næsta árið hjá þér? Eru einhverjir viðburðir sem þú getur nýtt til markaðssetningar? Ráðstefnur, sýningar, Hönnunarmars, Vetrardagar, Ljósanótt...? Eru einhverjir hátíðisdagar eða aðrir sérstakir dagar sem eiga vel við það sem þú ert að markaðssetja? Bóndadagur, Öskudagur, sumardagurinn fyrsti...? Hvað ætlarðu að gera?

Farðu svo í rafræna dagatalið þitt - ef þú ert ekki með rafrænt dagatal, náðu þér í svoleiðis (ég mæli með Google Calendar) og settu inn það sem þú ætlar að gera, bæði reglulegu aðgerðirnar, og viðburðina/hátíðisdagana og taktu frá tíma í dagatalinu til að gera það. Settu áminningar á verkefnin. Með Google Calendar geturðu látið senda þér sms þér að kostnaðarlausu. Taktu frá tímann í markaðsmálin - þau skipta máli og eiga skilið sinn tíma. Ef þeim er ekki sinnt þá færðu enga viðskiptavini og ef þú hefur ekki viðskiptavini þá er víst ekki mikill rekstur. Fyrir hluti sem þurfa undirbúning settu inn áminningu í tíma svo að þú gleymir þér ekki og þurfir að rjúka til og gera hlutina á síðustu stundu.

Komdu markaðsmálunum í gott kerfi sem rúllar. Hafðu stjórn á þeim en láttu þau ekki stjórna þér.

Og mundu það sem Jay Conrad Levinson, faðir skæruliðamarkaðssetningar sagði, á þá leið að “allt í lagi”-markaðsaðgerðir sem sinnt er reglulega og í góðu samræmi virka betur en snilldar markaðsaðgerðir sem gerðar eru af og til og hipsum haps.

No comments:

Post a Comment