Hvernig ert þú og þitt fólk?


Jákvæð orka er smitandi. Hún er eiginlega eins og fíkniefni sem við sækjum öll í - nema án slæmu hliðanna. Jákvæð orka er gríðarlega öflugt markaðstól, og markaðstól sem lítil fyrirtæki eiga að mörgu leyti auðveldara með að nýta en hin stóru.

Ég er að eðlisfari frekar orkumikil, glaðvær og jákvæð manneskja (auðvitað ekki alltaf, en almennt ;)  … ég hef fengið til mín viðskiptavini sem hafa einfaldlega sagt mér að það sé helsta ástæðan fyrir því að þeir kusu að vinna með mér. (Að sjálfsögðu vona ég að það sé nú líka af því að ég er svo svakalega klár í markaðsmálunum og nái svo miklum árangri fyrir viðskiptavinina mína - en að sjálfsögðu nota ég öll vopn sem bjóðast :)

Hvernig er orkan þín í samskiptum við viðskiptavini? Sem betur fer erum við yfirleitt í rekstri vegna þess að við höfum ástríðu fyrir því sem við gerum, og það hjálpar okkur að vera jákvæð, orkumikil og glaðværi í vinnunni og þar með í samskiptum við viðskiptavini. En það er gott að minna sig á hversu mikilvægt það er - og ef við erum það ekki, þá er komið að naflaskoðun til að komast að því hvers vegna ekki og hvernig er hægt að laga það.

Það sem getur verið aðeins erfiðara er að tryggja að aðrir starfsmenn og fulltrúar okkar, sem komast í samband við viðskiptavini, séu það líka. Það er því bæði mikilvægt að velja rétta fólkið, koma vel fram við það til að tryggja að það sé ánægt í vinnunni, en einnig að gera þeim grein fyrir því hversu mikilvægt viðmót þeirra við viðskiptavininn er.

Eins og sölugúrúinn Brian Tracy segir: “Fólk kaupir af fólki sem því líkar við” - og flestum líkar jú við jákvætt, glaðvært og orkumikið fólk.

Við þekkjum það líka öll að koma t.d. inn í verslun og finnast maður hreinlega vera að ónáða afgreiðslumanneskjuna þegar komið er að kassanum. Fýlan drýpur af viðkomandi. Ein vinkona mín brást við slíku á skemmtilegan hátt - hún einfaldlega spurði “er svona leiðinlegt í vinnunni?” - viðkomandi afgreiðslumanneskja áttaði sig snarlega á málunum og viðmótið breyttist. En viðskiptavinurinn á ekki að þurfa að grípa til slíkra ráða - og fæst gerum við það - svo passaðu að enginn þurfi að spyrja þig eða starfsfólkið þitt þessarar spurningar.

Passaðu upp á að það sé ekki leiðinlegt í vinnunni, hvorki þinni né starfsfólksins þíns - og mundu að fólk kaupir af fólki sem því líkar við ;)

No comments:

Post a Comment