Hver getur sagt mér hvort ég er að gera rétt?


Getur þú sagt mér það? Getur hinn sagt mér það? Getur þessi sagt mér það? Þetta er spurning sem við spyrjum oft, í alls konar samhengi, ekki satt? En hver getur sagt manni hvort maður er að gera rétt? Enginn. Sorry...
 
OK. Þetta er ekki alveg svoleiðis. Það getur enginn bara sagt þér það fyrirvaralaust. Það verður að mæla. Mæla, mæla, mæla, mæla, mæla. Þú verður að vita hvað þú ert að gera, hvað þú vilt að það geri og mæla hvort það er að gera það. Það er ekkert “shortcut”. Það er engin einföld leið til að vita hvort maður er að gera rétt í markaðsmálunum önnur en að mæla árangurinn.

Já, ég veit. Það er ekkert auðvelt. En það er hægt. Þú hefur takmarkaðan tíma, orku og fjármuni - þú hefur ekki efni á að eyða þeim í eitthvað sem virkar ekki! 
 
Byrjaðu á því að lista upp það sem þú ert að gera í markaðsmálunum. Listaðu svo upp fyrir hverja og eina aðgerð hvað það er sem þú vilt að hún geri (skoðaðu póstinn um AIDA sem ég skrifaði fyrir nokkru). Leggðu svo hausinn í bleyti. Hvernig get ég mælt hvort þetta er að ná markmiðunum?

Fyrir lítil fyrirtæki með takmarkað fjármagn þá getur þetta verið snúið. Sumt gerir maður einfaldlega vegna þess að maður veðjar á að það virki. Stundum er fyrirhöfnin við að mæla mikil, og líkurnar á því að það sem þú ert að gera virki nokkuð miklar. Að láta fólk hafa nafnspjöld t.d. - þú getur reynt að mæla árangurinn af því, en það er bara góð viðskiptavenja að vera með nafnspjald, og kostar ekki svo mikið, svo að þú getur slakað á með mælingar í þeirri deildinni. Líkurnar á að árangurinn sé þess virði eru nokkuð góðar. En því meira sem hlutirnir kosta (hvort sem það er í beinhörðum peningum, eða í tíma og orku) því mikilvægara er að vera viss um að þeir virki.

Og hvað gerirðu svo?

Ef hlutirnir eru ekki að virka, og þú ert búin(n) að reyna að laga þá til en þeir virka enn ekki - hættu!

Ef þeir virka - gerðu meira, meira og meira!

Þannig er nú það!

No comments:

Post a Comment