Snertipunktar við brandið


Það að byggja upp brand er kjarni markaðsstarfsins. Það er það sem aðgreinir þig frá hinum, og, ef vel tekst til, laðar fólk að þér. Eins og ég hef rætt í öðrum póstum, þá verður þú að ákveða hvernig brand þú vilt byggja upp, hvernig þú vilt að það sé og vinna markvisst að því að byggja það upp.

Segjum að þú sért alveg með á hreinu hvernig þú vilt að brandið þitt sé. Þú ert með brand kjarnann á hreinu (í hvaða skúffu þú vilt vera ;)   Þú veist hvað þú vilt að komi upp í hugann á fólki og veist hvaða tilfinningar þú vilt vekja. Hvernig tökum við þessar brand tengingar og það sem við viljum vera þekkt fyrir og byggjum þær í hugum og hjörtum fólks?

Það eru tvö lykilatriði í þessu: Annars vegar að nota hvern einasta mögulega (og ómögulega :) snertipunkt við brandið - og við ætlum að ræða það aðeins meira hér. Hinsvegar að endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka og endurtaka meira ... og endurtaka aftur ...

Finndu snertipunktana við brandið þitt

Það var þetta með þessa snertipunkta. Við þurfum að finna
hvern einasta stað og hvert einasta mögulega atriði þar sem fólk getur komist í snertingu við brandið þitt. Þetta eru snertipunktarnir þínir. Við þurfum svo að greina þessa snertipunkta og finna út hvernig við getum fengið eins mikið út úr þeim og mögulegt er svo þeir nýtist í botn til að stimpla brandið þitt inn hjá fólki.

Það eru nokkrir stórir og augljósir snertipunktar, þessir alveg klassísku. Þetta eru hlutir eins og verslunarrýmið þitt, ef þú ert með slíkt, skrifstofurnar þínar, vefsíðan, markaðsefnið og allt þetta sem þú myndir t.d. fá hönnuð eða grafískan hönnuð til að vinna í fyrir þig. Og þú átt klárlega að vera að nýta þá í botn. En það er sosum eitthvað sem flest fyrirtæki gera. Munurinn liggur (eins og svo oft) í smáatriðunum. Hugsaðu um alla hina snertipunktana sem fólk upplifir. Litlu hlutirnir sem kosta oft ekki mikið en fólki yfirsést líka oft að nýta almennilega. Hvernig geturðu notað þá til að byggja upp brandið? Þetta eru litlu hlutirnir sem geta virkilega glatt viðskiptavininn og fengið þá til að hugsa "Vá! Það er virkilega búið að hugsa fyrir öllu hérna". Þetta eru líka oft áhugaverðustu hlutirnir að hugsa um, en fela líka í sér áskorun. Hlutir eins og, hvernig talar brandið mitt? Hver er tónninn í texta og tali? Hvernig er svarað í símann? Er það formlegt? Létt og skemmtilegt? Hvernig eru starfstitlarnir hjá ykkur? Er það bara þetta týpíska, "framkvæmdastjóri", "forstjóri", "fjármálastjóri" eða eruð þið með "yfir-skógefari" (e. "Chief Shoe Giver") eins og hjá Toms eða "Voyager" og "Imaginator" (ferðalangur og "ímyndari") eins og hjá Fafu?

Annar snertipunktur sem virðist augljós er skrifstofan. Ég minntist á hana hér fyrir ofan en oft ef maður er með skrifstofur sem viðskiptavinurinn kemur aldrei inn inn á, þá gleymast þær. En þær hafa samt áhrif á brandið þitt því þær hafa áhrif á starfsfólkið þitt og samstarfsaðila - þetta er umhverfið sem þau vinna í. Þetta er hluti af innri markaðssetningu, að tryggja að starfsfólkið þitt andi að sér brandinu, eða "eat, sleep and breathe it" eins og sagt er. Þannig eru þau betur í stakk búin að byggja það upp með þér gagnvart heiminum þarna fyrir utan. Gættu þess að þó að viðskiptavinurinn komi kannski aldrei inn á skrifstofurnar hjá þér þá sé starfsfólkið þitt stöðugt að upplifa brandið svo þau geti hjálpað viðskiptavinum þínum að upplifa það.

Hvernig er símsvarakveðja þín? Ég heyrði af einni sem hringir viljandi í WOW Air eftir lokunartíma bara af því henni finnst símsvarakveðjan þeirra svo skemmtileg! Það er magnað og kostar þá ekkert meira heldur en að vera með einhverja standard og hundleiðinlega símsvarakveðju. Þetta er hinsvegar eitthvað sem fólk talar um, byggir upp brand persónuleikann þeirra og er þess vegna mun áhrifaríkara.

Hugsaðu um litlu hlutina eins og reikningana, kvittanirnar og tölvupóstsundirskriftina. Hvernig geturðu notað þessa litlu hluti til að byggja upp brandið þitt?

Farðu í gegnum hvern einasta litla snertipunkt við brandið þitt og spáðu í hvernig þú getur notað þá í botn.

Ertu að nota alla snertipunktana við brandið þitt til hins ítrasta?

No comments:

Post a Comment