Markaðssetning er "branding"


Ein af ástæðunum fyrir því að ég varð ástfangin af markaðsfræðunum er að þegar ég var í MBA náminu þá áttaði ég mig á því að markaðsstarfið er hjartað í öllum fyrirtækjum. (Mundu að markaðsstarfið er ekki bara auglýsingar ;) Án markaðsstarfsins þá eru engin fyrirtæki. Þeir sem eru ekki inni á markaðslínunni þola oft ekki þegar við markaðsnördarnir tölum um að "bissness = marketing". En veistu, það er bara þannig :)

Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta, svo ég ákvað að fá til liðs við mig tvo af uppáhalds gúrúunum mínum úr stjórnunar- og markaðsfræðunum til að koma til skila hversu mikilvæg markaðsmálin eru: Peter Drucker og Al Ries. Þannig að "don't just take my word for it" - þeir geta sko heldur betur sagt þér hvernig þetta er! :)

Peter Drucker segir: "Meginhlutverk fyrirtækisins er að þjóna viðskiptavinunum með því að veita þær vörur og þjónustur sem það var sett á fót til að veita. Hagnaður er ekki aðalmarkmiðið, heldur nauðsynlegt skilyrði fyrir því að fyrirtækið geti haldið áfram að vera til. Aðrar skyldur, svo sem við starfsmenn og samfélagið eru til staðar til að styðja áframhaldandi getu fyrirtækisins til að sinna meginhlutverki sínu."

Þetta er alltaf kjarni markaðsstarfsins. Það þjóna viðskiptavininum. Því þetta þarf alltaf allt að snúast um viðskiptavininn. Þú verður að sjá hlutina með þeirra augum. Þú verður að gera þér grein fyrir því á hverju þeir þurfa að halda og hvað þeir vilja, og það er það sem þú þarft að veita þeim. Það er meginhlutverkið þitt. Ef þú reynir að troða upp á fólk hlutum sem það vill ekki og þarf ekki á að halda, þá ganga hlutirnir aldrei upp.

Peter Drucker sagði líka: "Þar sem að tilgangur fyrirtækisins er að búa til viðskiptavini, þá hefur fyrirtækið tvö, og einungis tvö, grundvallarhlutverk: markaðssetningu og nýsköpun. Markaðssetning og nýsköpun skapa árangur; allt hitt er kostnaður. Markaðsmálin er hið einstaka og aðgreinandi hlutverk fyrirtækisins."

Spáðu aðeins í þetta. Hefur hann rangt fyrir sér? Hvað annað gefur árangur? Þetta er nokkuð skondið, því það er mjög algengt að litið sé á markaðsstarfið sem kostnað í fyrirtækjum, í stað þess að
vera eitthvað sem gefur af sér, og það er klárlega sjaldnast litið á það sem fjárfestingu. En það gæti ekki verið meira rangt að líta þannig á málin. Býr fjármálastjórnun til tekjur í sjálfu sér? Nei - það er hægt að stýra fjármálunum en peningarnir þurfa að koma einhversstaðar frá. Býr framleiðslan til tekjur? Nei, í raun ekki. Það kostar að framleiða og án markaðsstarfsins þá væri enginn til að kaupa vöruna og þar með myndi hún aldrei skapa tekjur. Býr starfsmannadeildin til tekjur? Nei, ekki í sjálfu sér. Upplýsingatæknideildin? Nei. Og það má auðveldlega taka þetta lengra. Nýsköpun fellur í raun undir markaðsmál. Manstu þetta með að það að þjónusta viðskiptavininn væri meginhlutverk fyrirtækisins? Jú, almennileg nýsköpun sprettur af því að finna betri leiðir til að þjónusta viðskiptavininn - og hvað er það annað en markaðsmál?

Al Ries segir: "Markaðssetning er það sem fyrirtæki eru í rekstri til að gera. Markaðssetning er aðalmarkmið fyrirtækisins."

Og hann heldur áfram með aðra sterka yfirlýsingu: "Ef allt fyrirtækið er markaðsdeildin [og það er það], þá er allt fyrirtækið branding deildin."

Nú er þetta að verða djúsí! Skilurðu núna af hverju ég er alltaf að hamra á þessu branding dæmi?

Þannig að af þessu öllu ætti þetta að vera nokkuð ljóst:

Viðskipti og rekstur = Markaðsmál = Branding :)

Sammála eða ósammála?

No comments:

Post a Comment