Branding I: Hvað er brandið þitt?


Alveg sama hvað þú gerir eða gerir ekki í markaðsmálunum, hvort sem þér líkar það betur eða verr, hvort sem þú áttar þig á því eða ekki, og hvort sem þú tekur meðvitaðar ákvarðanir um að skapa það og stýra því eða ekki - þú ert alltaf með brand.

Ef þú ert ekki með á hreinu hvað brand er, þá er gott að smella hér og tjékka á því, en í grundvallaratriðum er brand það sem kemur upp í huga fólks og þær tilfinningar sem vakna þegar það sér eða heyrir af einhverju, hvort sem það er fyrirtæki, vara, þjónusta eða persóna. Brand er alltaf til staðar, vegna þess að bara að nefna eitthvað einu orði mun alltaf kveikja einhverjar hugsanir og tilfinniningar, alveg sama hversu lítið eða mikið fólk veit um það.

Spáðu í það. M.a.s. bara að heyra eitthvað nafn kveikir strax eitthvað. Nafn sem jafnvel er bara þrír stafir. Hver hefur ekki einhvern tímann sagt, eða heyrt einhvern segja, "Hann bara lítur ekki út eins og Jói" eða, "Jófríður - það hljómar eins og gömul kona!". Jafnvel abstrakt orð kveikja hugsanir og tilfinningar. Þó það séu bara hljóð sem hafa enga vitræna þýðingu eins og hljóðlíkingarorð. Þau vekja samt hugsanir og tilfinningar. Þess vegna er alveg sama hversu mikið eða lítið fólk veit, sér eða heyrir af fyrirtækinu þínu, vöru, þjónustu eða bara þér sjálfri/sjálfum, það kvikna alltaf einhverjar hugsanir og tilfinningar.

Ætlarðu að treysta bara á guð og lukkuna?


Spurningin er þá: Ætlar þú bara að krossleggja fingurnar og vona að brandið sem vaknar hjá fólki sé brand sem að hjálpi þér og verði til þess að þau kaupi af þér? Eða viltu taka stjórnina og gera allt sem í þínu valdi stendur til að tryggja að brandið fái þau til að vilja kaupa af þér - og bara þér - og byggi þannig upp viðskiptatryggð sem verður til þess að viðskiptavinirnir fari ekki annað?

Hvað er brandið ÞITT?


Veistu hvert brandið þitt er?
Brand manns er nefnilega það sem aðrir segja að það sé - ekki það sem maður sjálfur segir. Áður en við getum farið að hafa áhrif á það hvað fólk hugsar og tilfinningar þeirra til okkar, þá verðum við að vita hvernig staðan er í dag. Ef við vitum ekki hvar við stöndum núna, hvernig getum við þá áttað okkur á hvernig við eigum að komast þangað sem við viljum fara? Og hvernig kemstu að því hvað brandið þitt er?

Markaðsrannsóknir. Farðu út og talaðu við fólk. Spurðu fólk hvað kemur upp í hugann og hvaða tilfinningar vakna þegar þú ert nefnd(ur), fyrirtækið þitt, varan þín eða þjónusta. Ég mæli reyndar með því að fá einhvern annan en akkúrat þig til að gera það, því að ef þú ert manneskjan á bak við brandið, þá er fólk ekki líklegt til að vera alveg hreinskilið við þig. Fólk vill jú ekki særa neinn og væri líklegt til að halda aftur af sér ef það hefur eitthvað neikvætt að segja. Og trúðu mér, þú vilt heyra þetta neikvæða. Ef þú veist ekki hvað þarf að laga, hvernig ætlarðu að laga það? Fáðu þess vegna hjálp frá öðrum. Það er allt í lagi þó þú hafir ekki efni á því að ráða fagfólk í verkið. Ég er viss um að þú getur fundið einhvern sem þú treystir til að hjálpa þér með því að fara þarna út og ræða við fólk um brandið þitt.

Hvernig viltu hafa brandið þitt?


Næst þarftu að ákveða hvert þú vilt fara þaðan. Hvað viltu að brandið þitt sé? Hvað viltu að fólk hugsi og hvernig viltu að því líði? Hver er munurinn á brandinu þínu í dag og því sem þú vilt að brandið þitt sé? Hvar skilur á milli? Hverju viltu breyta? Hvað er gott og þú vilt halda í og byggja frekar á?

Það er ekki fyrr en við vitum hvar við erum og hvert við viljum fara sem við getum farið að hugsa um hver besta leiðin til að komast þangað er. Og það er efni í heilan bloggpóst út af fyrir sig og meira til! Til að byrja með, finndu út hvert brandið þitt er og hugsaðu um hvernig þú vilt að það sé.

Endilega segðu mér hvernig þú vilt að brandið þitt sé í ummælunum hér fyrir neðan! 




No comments:

Post a Comment