Endurtaka, endurtaka, endurtaka...


Í fyrri pósti hef ég talað um að maður þurfi að finna hvern einasta snertipunkt við brandið og skoða hvernig við getum notað hvern og einn til að byggja það. Við þurfum að tryggja að fólk fái sömu upplifun af okkur hvar sem það kemst í snertingu við okkur. En það er ekki nóg. Þú verður líka að endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka og endurtaka enn og aftur...

Það er frábært þegar manni leiðist!

Endurtekning er lykilatriði í markaðsetningu, og ég get lofað þér því að ef þú ert að vinna markaðsstarfið rétt, þá kemur þér til með að leiðast. Þú verður leið(ur) á brand útlitinu; litunum þínum, leturgerðinni, myndunum o.s.frv., þú verður leið(ur) á markaðsefninu; auglýsingunum, skilaboðunum o.s.frv. Þú færð leið á þessu öllu saman. Það er alveg klárt mál! En málið er að þú ert alltaf að vinna með þetta. Þú ert alltaf að horfa á þetta, hugsa um þetta, þú ert alltaf að hrærast í þessu. Það væri hinsvegar fínn árangur ef fólkið sem þú ert að reyna að ná til sæi svona 1% af öllu því sem þú ert að gera. Þú verður að muna að markaðsstarfið snýst ekki um þig. Það snýst um þau. Þér á eftir að leiðast þetta, en þú verður bara að láta þig hafa það og harka af þér!

Ef þú ferð að breyta hlutunum bara af því að þér leiðist; breyta skilaboðunum, breyta útlitinu hvort sem það er á auglýsingum, bæklingum, efni á samfélagsmiðlunum, blogginu eða hverju sem er,
þá ertu aftur á byrjunarreit. Við vitum öll hversu margir hlutir berjast um athygli okkar hvern einasta dag. Ef þú ert alltaf að breyta þá þekkir fólk þig ekki aftur og þú þarft að byrja að byggja upp vitund og fá þau til að þekkja þig algjörlega upp á nýtt. Ef þú hinsvegar heldur þig við það sama þá styrkirðu þig í minninu á þeim og endar með því að festast þar.

Slönguspilið

Þetta er svolítið eins og slönguspil. Með því að vera alltaf að og hafa samræmi í því sem þú gerir þá færistu upp borðið. Af og til gerist eitthvað stórt og flott, þú kannski færð góða fjölmiðlaumfjöllun eða herferð heppnast sérstaklega vel og þú færð að fara upp stigann og komast hraðar áfram. En ef þú ferð að breyta hlutunum, breyta skilaboðunum, útlitinu o.s.frv. þá nær snákurinn í þig og þú rennur niður aftur og þarft að byrja að klífa upp á nýtt!

Endurtekning > Þekking > Traust

Annar mikilvægur hlutur þegar kemur að endurtekningu, fyrir utan bara að tryggja að fólk viti af manni og þekki mann, er traust. Fólk kaupir af fólki og fyrirtækjum sem það þekkir, líkar við og treystir. Og endurtekning byggir traust. Spáðu bara í þessu þegar kemur að fólki. Við þekkjum öll einhverja sem okkur líður ekki alveg nógu vel með bara vegna þess að "ég veit aldrei hvar ég hef hann". Ef við erum ekki samkvæm sjálfum okkur og fólk veit ekki alveg við hverju það á að búast þá fer það að hugsa "hmmm... ég veit nú ekki alveg með þetta". Það kemur til með að eyðileggja það traust sem þú kannt að hafa byggt upp.

Það hefur einnig verið sannað að bara við það að sjá eða heyra sama hlutinn aftur og aftur og aftur þá aukast líkurnar á að þér fari að líka við hann og treysta honum. Hver man ekki eftir einhverju óþolandi popplagi í útvarpinu sem maður þoldi ekki þegar maður heyrði það fyrst en maður er farinn að dilla sér við þegar maður er búinn að heyra það í þúsundasta skiptið eða svo? ;)

Hér er saga sem sýnir þetta enn betur: Segjum svo að þú farir í ræktina í hverri viku, alltaf á sama tíma, og þar er einhver sem er alltaf þar á sama tíma og þú. Þú þekkir þessa manneskju ekki neitt, talar aldrei við hana, veist ekkert hvað hún heitir, en hún er alltaf þarna. Þú ert alltaf að sjá þetta andlit. Svo ferðu á t.d. námskeið þar sem þú þekkir ekki nokkurn mann, nema að þessi aðili úr ræktinni er þarna. Þegar leiðbeinandinn segir fólki að vinna í pörum, hver er fyrsta manneskjan sem þú dregst að? Að öllum líkindum er það manneskjan sem þú ert margoft búin(n) að sjá í ræktinni, því að það að hafa séð hana aftur og aftur og aftur hefur byggt upp traust og þér finnst þú þekkja hana - a.m.k. betur en hina. Þetta virkar algjörlega eins með fyrirtæki, vörur og þjónustu. Þú þarft að sjá þau aftur og aftur og aftur. Því meira sem þú sérð þau, því betur ferðu að þekkja þau og því meira treystirðu þeim. Það er enn ein ástæðan til þess að vera ekki að breyta hlutunum alltaf hreint. Þú verður að vera samkvæmur sjálfum þér og endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka, endurtaka og endurtaka svo enn meira.

Endurtekur þú þig nógu mikið?



No comments:

Post a Comment