Það er þitt að koma hlutunum frá þér



Ef ég fengi hundraðkall fyrir hvert skipti sem ég heyri fólk kvarta út af viðskiptavini og að hann bara skilji ekki þetta eða skilji ekki hitt, þá gæti ég sennilega borðað a.m.k. eina fría máltíð á viku (þó ekki væri nema á Bæjarins bestu).
Nýlega fann ég þessa tilvitnun: “Ef þú hefur sagt barni hlutinn þúsund sinnum og hann skilur hann ekki ennþá, þá er það ekki barnið sem getur ekki lært." (Walter Barbee)
Þessi tilvitnun gæti alveg eins verið “Ef þú hefur sagt viðskiptavininum hlutinn þúsund sinnum og hann skilur hann ekki ennþá, þá er það ekki viðskiptavinurinn sem getur ekki lært."
Það er ekki á ábyrgð viðskiptavinarins að skilja þig. Það er á þína ábyrgð að gera þig skiljanlegan fyrir viðskiptavininum. Skynjun er raunveruleiki hvers manns. Ég skynja heiminn á einn hátt, og það er minn raunveruleiki og þú skynjar hann á þinn - og það er þinn raunveruleiki. Það er ekki hægt að segja að einn raunveruleiki sé réttur og annar rangur. Það er bara mismunandi skynjun. Mín skynjun er minn raunveruleiki og það sem ég byggi mínar ákvarðanir á - þar á meðal ákvörðunina um hvort ég versla við þig eða ekki.
Hvað á ég þá til bragðs að taka ef að ég veit að eitthvað er á þennan veg eða hinn og viðskiptavinurinn bara einfaldlega skilur það ekki og kaupir þess vegna ekki af mér?
Þú verður að skoða hvernig þú ert að koma skilaboðunum til viðskiptavinarins. Bæði hvar, en það sem er yfirleitt ástæðan fyrir því að hlutirnir komast ekki til skila, er að við erum ekki búin að finna hvernig. Hvernig getum við best sett hlutina fram þannig að þeir hitti í mark hjá viðskiptavininum?
Ef þeir skilja þig, en er samt bara sama, þá skiptir það sem þú ert að segja þá ekki máli. Ávinningurinn sem þú ert að leggja áherslu á fyrir þína vöru eða þjónustu. Lausnin þín veitir ekki þann ávinning sem viðkomandi er að leita eftir. Og þá skiptir engu máli hversu vel þú kemur hlutunum til skila. Ef að ég vil fá máltíð fljótt, þá vil ég hana fljótt. Ef þú segir mér að hún sé skv. Músímúsímúsí kúrnum og taki þess vegna lengri tíma, þá er mér bara alveg sama og fer eitthvert annað þar sem ég get fengið hana fljótt. Vertu viss um að það sem skiptir þig máli skipti viðskiptavininn máli.
Svo er náttúrulega alltaf spurning hvort þetta er yfir höfuð rétti viðskiptavinurinn fyrir þig og hvort þú átt nokkuð að vera að berja hausnum við steininn. Er þetta draumaviðskiptavinurinn eða eru þetta meiri vandræði en hitt? Kíktu hér ;) Og hér! - það gæti líka bara verið málið :)



Leiddu mig



Fyrir þá sem hafa fylgt mér í einhvern tíma er markaðsferlið ekkert nýtt. Ef þú ert ný(r), kíktu þá hér snöggvast ;)    Og fyrir þá sem lásu póstinn í síðustu viku, þá talaði ég um að eiga markaðsstarfið frekar en að leigja það, með því að nota auglýsingar og ýmislegt fleira til að ná fólki inn í ferli þar sem þú þarft síðan ekki að borga fyrir hvert einasta skipti sem þú vilt að fólk sjái þig eða komist í samband við þig.

Ég ætla að fjalla aðeins meira um það hvernig við getum gert þetta, þ.e. að eiga markaðsstarfið okkar, með því sem á engilsaxneskunni er kallað Lead Management en lead er mögulegur viðskipavinur í markaðsferlinu.

Ok, svona hef ég almennt sett markaðsferlið fram:

Ef við nú setjum það fram línulega (frá vinstri til hægri eins og gengur og gerist ;) þá getum við sett Lead Management ferlið samhliða markaðsferlinu og markaðsaðgerðir sem við getum notað í hverjum hluta:


Förum betur í gegnum þetta:

Lead Generation er einfaldlega að ná til fólks. Láta vita af okkur og vekja áhuga þeirra. Þarna geta auglýsingar virkað ágætlega, en önnur sterk tól eru m.a. leitarvélabestun (SEO) og efnismarkaðssetning, þar sem að gott og áhugavert efni vekur athygli og eykur vitund um þig, fyrirtækið þitt, vörur og þjónustu. Þarna getum við þurft að “leigja”, þ.e. að kaupa auglýsingar til að ná þessari fyrstu snertingu við mögulega viðskiptavini.

Lead Capture er að ná þeim inn í markaðsferlið þitt. Ná þeim inn þannig að þau skrái sig á póstlistann (túrbó markaðstól), fylgi á samfélagsmiðlunum og hvað annað sem þér dettur í hug þannig að þú sért búin að ná þeim á þitt svæði, þar sem þú þarft ekki lengur að leigja frá öðrum til að ná til þeirra. Það má deila um hvort samfélagsmiðlarnir eru slíkt svæði, en það lækkar a.m.k. leiguna verulega ef maður nær fólki inn á samfélagsmiðlana því það er almennt ódýrara að auglýsa á fylgjendur sína en þá sem maður ætlar að ná til nýrra á samfélagsmiðlunum.

Lead Nurturing snýst allt um að rækta og byggja upp sambandið. Notaðu markaðsaðgerðirnar sem þú átt, eins og póstlistann, til að gera þetta og þarna kemur efnismarkaðssetningin sterk inn, bæði til að fá fólk til að líka við þig og til að byggja upp traust. Þetta tekur tíma. Fólk er ekkert tilbúið að kaupa af þér strax.

Spáðu aðeins í þetta. Þú getur verið mjög góður í fyrstu tveimur hlutunum, að ná til fólks og fá það inn til þín, en ef það er ekki þess virði að vera memm þegar inn er komið þá er fólk fljótt að fara aftur. Þess vegna skiptir það öllu máli hvað þú gerir í því að rækta sambandið - efnismarkaðssetning er lykilatriði þarna. Annars er þetta svona svolítið eins og liðið sem hangir á skemmtistaðagötunum á sólarströndum og nær þér inn inn á staðinn með gylliboðum - svo þegar þú kemur inn er staðurinn tómur!

Lead Conversion snýst um að gera þessa aðila að viðskiptavinum. Hingað til höfum við bara verið að rækta sambandið, leyfa þeim að kynnast okkur, kynnast þeim betur og þarna þarf tól til að breyta þeim í viðskiptavini með því að fá þá til að kaupa. Þarna þarftu að gefa þeim tækifæri til að prufa vöruna þína eða þjónustu og minnka áhættuna sem fólk upplifir - fólk upplifir alltaf áhættu þegar það kaupir. Það þarf líka að ýta við fólki með einhverjum hætti til að taka skrefið núna, ekki á morgun eða næsta ári.

Ongoing Lead Management snýst um að halda sambandinu áfram, í gegnum þessa miðla sem þú átt, og stuðla þar með að því að fólk skipti við þig aftur og að það vísi til þín frekari viðskiptum. Þarna gildir margt það sama og um lead nurturing en einnig meira til, s.s. eins og að vera með efni og upplýsingar fyrir þá sem hafa keypt af þér nú þegar, og vera með markaðsaðgerðir sem hvetja til tilvísana.

Farðu yfir það sem þú ert að gera í markaðsstarfinu þínu. Ertu að ná að leiða fólk í gegnum þetta ferli?


Að leigja eða eiga markaðsstarfið



Þeir sem hafa fylgst með mér í einhvern tíma gætu sakað mig um að vera á móti auglýsingum, svo mig langar aðeins að fjalla um þær í dag.

Ég er alls ekkert á móti auglýsingum, per se. Ég hinsvegar vil, í öllum tilfellum, nota þær markaðsaðgerðir sem henta best viðkomandi aðila, markaði og brandi, og sem skila sem allra mestri arðsemi (mmmm skemmtilega bissnesslegt orð! :) - og sem hægt er að sýna fram á að skili þeirri arðsemi og árangri.

Því miður erum við allt allt of oft að nota auglýsingar bara út í loftið og ekki að hugsa nógu vel út í hvað við viljum að þær geri og mæla hvort þær gera það. Staðreyndin er sú að fólk þarf að sjá mann (fyrirtækið, vöruna, þjónustuna) ansi oft áður en það er tilbúið að kaupa, og fyrir flest minni fyrirtæki er það einfaldlega of dýr kostur að gera það allt í gegnum auglýsingar. Ég hef talað töluvert mikið um hversu oft fólk þarf að sjá mann m.a. í þessu vídeó um markaðsferlið og þessu um endurtekningu og þessu um hversu oft! :)  Ef maður ætlar að keyra markaðsstarfið mikið til á auglýsingum, þá þarf maður að auglýsa oft og mikið og það getur orðið ansi dýrt.

Annað sem óvant fólk hefur tilhneigingu til að gera í auglýsingum er að reyna að segja milljón hluti í einu. Staðreyndin er sú að það er nógu erfitt að fá fólk til að taka eftir og meðtaka ein skilaboð í auglýsingu - og um leið og þú reynir að gera meira þá sullast allt saman hjá fólki og auglýsingin missir algjörlega marks.

Hinsvegar geta auglýsingar verið frábær kostur ef notaðar rétt. Hvað þarf til að nota þær rétt? Hér eru 5 atriði sem skipta máli þegar þú notar auglýsingar:

  1. Hvar er markhópurinn þinn og hvar er best að ná til hans? Það er almennt mun sterkara að auglýsa í sérhæfðari miðlum og ná til færri en rétta fólksins heldur en að spreða t.d. í heilsíðu í blöðunum eða auglýsingar í kringum fréttir í útvarpi eða sjónvarpi.
  2. Hvaða skilaboð virka best á markhópinn þinn? Hvað er það sem hann er að leita eftir? Hvað er það sem þú getur gert fyrir hann? Hvað er það sem skiptir hann máli? Þetta veistu ekki nema með öflugri markhópagreiningu.
  3. Notaðu frekar minni auglýsingar og oftar. Ein og ein stór auglýsing gerir ósköp lítið en minni auglýsingar, sem eru alltaf í gangi byggja upp sýnileikann og minna á þig, byggja meira upp.
  4. Hvað viltu að auglýsingin geri? Hver er tilgangurinn með henni? EITT atriði - ekki meira! Hvað viltu að sá sem sér hana og tekur eftir henni geri næst? Jú, stundum auglýsum við bara til að láta vita af okkur, minna á okkur og vera sýnileg, en það er eiginlega bara allt of dýrt fyrir minni fyrirtæki að nota auglýsingar í þeim tilgangi. Ekkert mál t.d. fyrir banka og risa verslunarkeðjur sem eru með fjármagn í þessar leiðir, en fyrir flest fyrirtæki er þetta barasta of dýr leið. Það er betra að nota auglýsinguna til að fá fólk til að taka næsta skref í áttina að viðskiptum. Hvaða skref er það?
  5. Hvernig ætlarðu að mæla hvort að auglýsingin er að gera það sem þú vilt að hún geri? Ef þú ætlar að mæla sýnileika og vitund þá ertu kominn í kannanir og annað þess háttar og það þarf sæmilegt úrtak til að það sé marktæk mæling - semsagt frekar dýrt og mikið vesen. Auglýsingar á netinu eru jú mun mælanlegri, sérstaklega ef auglýsingin er gerð til að fólk smelli á hana því þá geturðu mælt smellina. En hvað svo? Hvað svo eftir smellinn?

Staðreyndin er sú að ef þú treystir bara á auglýsingar í markaðsstarfinu þínu þá ertu að leigja markaðsstarfið. Ef einu skiptin sem fólk sér þig er þegar þú auglýsir, þá hættir það að sjá þig um leið og þú hættir að borga og þar með auglýsa. Búið. Bless. Ekkert meir. Búið að henda þér út.

Þess vegna hvet ég alltaf viðskiptavini mína til að eiga markaðsstarfið sitt. Jú, getur virkað vel að nota auglýsingar til að byrja ferlið, en svo viltu fá áhugasama inn til þín þannig að þú getir haldið sambandinu áfram án þess að þurfa alltaf að borga leigu. Hvernig, jú, t.d. með því að fá þau með þér á samfélagsmiðlunum þar sem þú getur haldið sambandinu áfram - eða enn betra - á póstlistann. Þar ertu kominn með viðkomandi inn í eitthvað sem er þitt og þú þarft ekki að borga í hvert skipti sem þú vilt eiga samskipti við viðkomandi. Þannig geturðu átt markaðsstarfið í stað þess að leigja það með auglýsingum.

Næst ætla ég að gefa þér dæmi um hvernig þú getur gert þetta ;)

Hint - já, það er efnismarkaðssetning í því - ég veit ég er alltaf að tala um hana, en það er góóóóð ástæða fyrir því ;)