Fiðrildin á leið á toppinn...



Ætlaði að skrifa einhvern rosalega djúpan bloggpóst í dag og eitthvað en veistu, ég er eiginlega bara óvinnufær vegna fiðrildamergðarinnar í maganum á mér! Akkuru? Jú, af því að í dag kemur nýja bókin mín út!

Það er alveg magnað hvað maður getur orðið skíthræddur við að sýna umheiminum það sem maður hefur fram að færa. En veistu, ég er búin að ákveða að segja bara "skítt með það!". Þeim sem líkar bókin, líkar hún, og þeim sem ekki líkar hún, líkar hún ekki. Og það er barasta allt í lagi. Því að maður getur aldrei verið fyrir alla. Sumir eiga eftir að fíla hana í botn og fá mikið gagn út úr henni. Aðrir eiga eftir að hafa einhverjar aðrar skoðanir á henni.

Þá er rosalega gott að muna það sem Don Miguel Ruiz skrifaði í frábærri bók sem heitir "The Four Agreements", og ég mæli eindregið með því að lesa (já, og þakkir til Þórunnar vinkonu minnar fyrir að benda mér á hana :)  : "Don't take anything personally". Það er nefnilega þannig að það sem manneskjan hugsar, segir og gerir snýst í rauninni aldrei um aðra, það snýst um hana sjálfa. Fólk sér og dæmir hluti út fá sínum eigin raunveruleika, sinni upplifun og reynslu, engra annarra, og það er eitthvað sem þú getur ekki verið að spá í. Ef fólki líkar ekki það sem ég geri, þá er það barasta þeirra mál en ekki mitt.

Annar góður frasi sem mér finnst gott að minna mig á af og til er: "Þegar fíflunum fjölgar í kringum þig, líttu í eigin barm". Ég stend mig stundum að því að hugsa eitthvað miður gott um annað fólk - við gerum það ábyggilega öll einhvern tímann - en ég er farin að verða nokkuð góð í að stoppa mig af og hugsa "af hverju er ég að hugsa þetta?" og undantekningarlaust hefur ástæðan ekki með viðkomandi að gera, heldur mig. Mig og mitt óöryggi. Og þannig er því eflaust líka varið með aðra.

Góð vinkona mín sagði einu sinni við mig að það sem fólk, sem nyti almennt velgengni væri hræddast við, væri að standa eitt eftir á toppnum. Að þora að skara fram úr. Að skilja hina eftir sem ekki stefni svo hátt. Mig langar að trúa því að við fögnum þeim sem stefna á toppinn og komast þangað. Ég er ótrúlega stolt af mörgum af mínum vinum, fjölskyldu og viðskiptavinum sem hafa og eru að ná frábærum árangri í því sem þau eru að gera. Hér eru nokkur dæmi:

Eyrún vinkona mín í RóRó, sem er núna á Indiegogo með Lúllu dúkkuna sína og gengur rosa vel. Vantar bara herslumuninn að hún nái markmiðinu sínu (endilega leggið henni lið hér). Frábær manneskja með frábæra vöru sem á eftir að breyta lífi margra fjölskyldna í framtíðinni.

Rúna vinkona mín sem gaf út sína bók fyrr í haust, Branding Your X-Factor, og jetsettast um allan heim til að vinna með forsetum, og funda með stjórnendum stórra alþjóðlegra fyrirtækja. Hún er ein af þessum manneskjum sem lyftir öllum í kringum sig upp á hærra plan og er sko ekki feimin við að styðja sitt fólk á toppinn.

Rakel Sölvadóttir, frumkvöðull í Skema og brautryðjandi í forritunarkennslu fyrir börn og unglinga. Það sem hún er að gera hér heima og með reKode úti í Bandaríkjunum er magnað og forréttindi að fá að fylgjast með úr stúkusæti.

Ég gæti haldið áfram að telja upp magnaða einstaklinga að gera ótrúlega flotta hluti en þessi póstur er þegar orðinn ansi langur á persónulegu nótunum ;)

Fögnum þeim sem stefna hátt og ætla sér á toppinn. Það er fólkið sem getur gert heiminn að betri stað.

Ég viðurkenni það alveg að mig langar á toppinn. Mig langar að lifa góðu lífi af því að vinna með fólki sem hefur ástríðu fyrir því sem það er að gera og vill byggja upp spennandi og áhugaverð fyrirtæki sem skipta máli. Mig langar að skrifa bækur, halda námskeið, fyrirlestra og vinnustofur út um allan heim og þessi bók sem kemur út í dag er liður í þeirri vegferð. Ég vona að sem flestir fagni henni, nái sér í eintak og njóti góðs af. Hún er m.a.s. frí á rafrænu formi á Amazon fram á sunnudag - og þú getur fengið Kindle lesara app í öll helstu tæki ;)   Þú finnur allar upplýsingar hér: http://thoranna.is/marketinguntangledbook/

P.s. Þú ert líklega að spyrja þig núna "hvað í ósköpunum hefur þetta að gera með markaðsmál?" - ja, þetta var bara svona smá persónuleg tjáning hjá mér á degi þar sem ég á erfitt að einbeita mér vegna spennings, en veistu, þetta hefur nefnilega heilmikið með markaðsmál að gera. Þau fyrirtæki sem ná árangri á markaði, sem ná árangri í markaðsmálunum, það eru fyrirtækin sem eru óhrædd við að standa upp úr, stefna á toppinn og standa fyrir eitthvað. Hugrekki er nefnilega öflugt vopn í markaðsstarfinu, svo þegar maður fer að spá í þetta, þá er þessi póstur barasta akkúrat spot on fyrir markaðsmálin ;)

Megir þú ná á þann topp sem þig langar að ná á - og ef ég get hjálpað þér að komast þangað þá er það barasta ennþá betra!

knús
Þóranna

No comments:

Post a Comment