Það var þetta með að finnast á Google - 5 atriði

Ef ég ætti 100 kall fyrir hvert skipti sem ég er spurð hvernig maður á að finnast efst á Google, þá ætti ég a.m.k. fyrir fríum hádegisverði einu sinni í viku :)

Leitarvélabestun - eða það að gera vefsíðuna þína og annað um þig á netinu þannig úr garði að það finnst sem best á Google og öðrum leitarvélum (já, það er víst til Bing og Yahoo o.fl. líka ;) - var alltaf frekar mikið tækninördamál. Þetta snérist allt um lykilorðagreiningu, meta data, robot txt, hlekkjasöfnun og allskonar svona skemmtilegheit. Margt af þessu er enn alveg gott og gilt en margt ekki og vægi þess er stöðugt að minnka. Það er orðið erfiðara að komast hátt á leitarvélunum með allskonar trixum, brögðum og brellum því að Google og hinir eru farnir að sjá við þeim og breyta hlutunum hjá sér þannig að það er ekki hægt að plata þá upp úr skónum. Og þeir eru sífellt að breyta og bæta! En veistu, það er sko barasta ekkert slæmt. Það er eiginlega bara rosa gott. Því veistu hvað það gerir? Það neyðir bara alla til að verða betri í markaðssetningu.

Hmmm… hvernig þá? Jú, hvað er farið að skipta meira máli? Raunveruleg gæði og áhrif. Með því að vera með gott efni á vefsíðunni, með því að vera virkur á netinu, á samfélagsmiðlum, vefsíðunni, blogginu o.s.frv. þá dregurðu fólk að þér og eykur vægi þitt á leitarvélunum. Því fleiri manneskjur sem fíla þig á netinu, því meira fíla leitarvélarnar þig á netinu. Svo nú þarf ekki alla þessa tækninörda - nú þarf gott markaðsfólk!

OK og hvað á þá einhver eins og ég, sem kann ekkert á þetta tæknilega dót, að gera til að finnast á netinu? Hér eru 5 atriði:

1. Lykilorðagreining er enn góð og gild - þú vilt vita hvaða orð og orðasambönd fólk notar til að leita að hlutum eins og því sem þú býður á netinu - sjá meira hér 
2. Notaðu lykilorðin alls staðar þar sem þú ert á netinu - en eðlilega þó. Google sér í gegnum það ef þú ert að reyna að hrúga þeim inn. Ekki nota þau bara á vefsíðunni, heldur líka í blogginu, á samfélagsmiðlunum og þegar þú sendir frá þér fréttatilkynningar (því þær munum mjög líklega birtast á netmiðlum ef þær eru birtar á annað borð).
3. Finndu, búðu til og deildu efni sem markhópurinn þinn hefur áhuga á og verður til þess að fólk langar að fylgjast með þér, gefa þér like, retweet, share, veita ummæli og hvað þetta heitir allt saman. Því meira sem fólk sýnir að það kunni að meta hlutina á þann hátt því meira tekur Google eftir þér. 
4. Til að geta búið til efni sem fólk hefur áhuga á þá þarftu að þekkja markhópinn þinn vel og vandlega svo þú vitir hvað þau vilja! 
5. Til að geta verið áhugaverður á netinu þá þarftu að hafa brandið þitt á hreinu!

Leggðu þig fram um að veita fólki hluti sem er virði í og byggir upp ímynd þína og orðspor því það mun koma þér mjög langt - jafnvel á toppinn á Google ;)


No comments:

Post a Comment