Fötin skapa manninn eða viltu vera púkó?



Skiptir útlitið máli? Skiptir máli hvernig brandið þitt lítur út? Ég meina, er það ekki bara það sem fyrirtækið þitt gerir sem skiptir máli? Hmmmmm…

Einfalda svarið er: Já. Það er nefnilega bara svo einfalt að við dæmum bókina eftir kápunni. Fötin skapa manninn. Og alveg eins og fötin segja manni mjög mikið um fólk, þá segir brand útlitið mjög mikið um fyrirtækið þitt, vörurnar þínar og þjónustu.

Hvað geturðu t.d. sagt mér um þessa konu hérna?


En þessa?


Við verðum barasta að viðurkenna það að við þurfum ekki nema að sjá fólk til að fá mjög sterka hugmynd um það hvernig við teljum að viðkomandi sé - og það er alveg eins með fyrirtækið þitt. Og útlitið á því sem frá því kemur gæti verið að segja fullt af hlutum sem þú barasta vilt ekkert að það segi!

Hvað er brand útlitið þitt að segja umheiminum? Veistu hvað þú vilt að það segi. Ef þú veist það ekki, þá veistu heldur ekki hvort brand útlitið er að vinna fyrir þig, eða á móti þér, eða bara ekki að gera neitt fyrir þig - og það er ýmist mikil áhætta, eða sóun á tækifæri. Brandið þitt þarf að líta einhvern veginn út - er þá ekki betra að nýta það til að koma því til skila sem þú vilt koma til skila. Hvort sem það er að brandið sé formlegt, svolítið klikkað, náttúruverndarsinna, djammarar eða barasta hvað sem er. Svo grundvallaratriðið er að vita hvaða skilaboð þú vilt að brand útlitið sendi - og síðan þarftu að tryggja að það sendi þau.

Hefur þú einhvern tímann tekið saman allt markaðsefnið þitt og sett það upp einhverstaðar þar sem þú getur fengið heildaryfirsýn yfir það? Ef þú hefur ekki gert það, þá mæli ég eindregið með því að þú gerir það. Týndu saman bókstaflega allt. Taktu skjámynd af vefsíðunni, Facebook síðunni og öllu öðru efni frá þér á netinu og prentaðu það út í lit. Tíndu saman bréfsefni, nafnspjöld, bæklinga o.s.frv. Prentaðu út auglýsingar ef þú notar þær og taktu myndir af skrifstofunni, versluninni eða öðru því rými sem þú starfar í - og sérstaklega ef það er rými sem viðskiptavinurinn kemur inn í - þó að það sé líka alveg jafn mikilvægt að koma brand skilaboðunum inn hjá starfsfólkinu þínu. Hengdu þetta allt upp á vegg, eða leggðu þetta allt á stórt borð, eða hreinlega á gólfið.

Skoðaðu svo hvort það er að segja það sem þú vilt að það segi. Ef ekki - hverju þarf að breyta? Hvað ætlarðu að gera í því? Þetta er allt of mikilvægt til að taka þetta ekki föstum tökum og nota þetta til hámarks árangurs!


No comments:

Post a Comment