Við höfum öll ábyggilega einhvern tímann uppgötvað það að vita eitthvað, svona með heilanum, en að vakna svo einn daginn upp og fatta það. Skilja það almennilega. Eins og sagt er á ensku, "take it to heart". Svoleiðis nokkuð var ég að upplifa síðustu daga. Þrátt fyrir að vera alltaf að hamra á því við viðskiptavini mína og við þig, kæri lesandi, að hafa hugrekki til að vera öðruvísi og skera þig úr, og hvetja þig til að skipta máli og hafa þýðingu fyrir fólk, þá áttaði ég mig á því að ég er búin að vera í felum. Ég er búin að fela hluta af sjálfri mér eins og það sé hið versta leyndarmál...
Við erum oft svo upptekin af því að veita viðskiptavininum það sem hann vill að við sýnum ekki okkar innra sjálf. Við hættum að vera manneskjur og byrjum að vera bara fyrirtæki. Andlitslaust, formlegt og fagmannlegt fyrirtæki. Okkur er sagt að við verðum að mæta þörfum viðskiptavinarins, og að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér, og að við þurfum að hlusta á viðskiptavininn og gefa honum það sem hann vill. Sem er allt satt og rétt en... um leið og það er á kostnað þess að við séum sönn sjálfum okkur, séum þær manneskjur og það fyrirtæki sem við raunverulega erum, og erum farin að reyna að vera eitthvað annað, þá er það of dýru verði keypt. Og fagmennska þýðir ekki að hætta að vera manneskja.
Það er nefnilega voðalega erfitt að laða fólk að sér þegar maður er að reyna að vera eitthvað annað en maður er. Hinsvegar, um leið og maður er trúr sjálfum sér, þá laðar maður að sér rétta fólkið fyrir sig - manstu, rétta fólkið, þennan þrönga hóp sem ég talaði um í síðustu viku :)
Einn af mínum frábæru viðskiptavinum er Herdís Pála, markþjálfi og fyrirlesari. Hún vinnur með einstaklingum í því að verða það besta sem viðkomandi getur orðið. Þegar hún kom til mín og við unnum í því hvernig hún vildi að brandið hennar yrði, þá talaði hún mikið um bók sem heitir Páfugl í Mörgæsalandi. Bókin er “tileinkuð öllum þeim sem þrá að fljúga frjálst eins og fuglinn og sýna rétta eðli sitt...” og hafði mikil áhrif á þá ákvörðun Herdísar að fara út í það sem hún gerir í dag. Herdís er flott og sterk kona sem vinnur hörðum höndum við að hvetja aðra áfram og byggja upp fólk, en samt hikaði hún við að nota páfuglinn sem táknið sitt, hún hikaði við að breiða út fjaðrirnar sínar og vera sú sem hún er - það besta sem hún er. Hún hikaði við að nota sterka liti, hún hikaði við að láta vaða, hún hikaði við að vera páfugl. Svo ég ýtti, og ég ýtti, og ég ýtti við henni … og í dag nýt ég þess að sjá hana breiða út fjaðrirnar og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama. (Þið getið fengið að vita meira um Herdísi á herdispala.is).
Af hverju er ég að tala um Herdísi Pálu - jú, af því að svo geri ég það sama - og svo mörg okkar. Það er erfitt að "practice what you preach" eins og maður segir. Það er erfitt að breiða út vængina.
Eftir að ég kláraði MBA námið mitt þar sem ég lagði áherslu á stategíska markaðsstjórnun, þá faldi ég lengstu lög hvað ég hafði lært og gert áður. Af hverju? Af því að ég hafði áhyggjur af því að það yrði ekki tekið mark á mér í viðskiptaheiminum. Málið er nefnilega að ég er með háskólapróf í leiklist og söng (Musical Theater) og vann svo samhliða þeim störfum sem “executive assistant” (aðstoðarmaður forstjóra, stjórnarmanna og svoleiðis jakkalakka :) … ég átti mjög erfitt með að standa fyrir mínu og segja, eins og er, að námið mitt og reynsla nýtist mér gríðarlega vel í því sem ég geri í dag og er sterkasti og verðmætasti aðgreiningarþátturinn minn. Ég er með menntunina í markaðsmálunum, ég er markaðsnörd þannig að ég er ennþá sífellt að læra - það er jú þannig að próflaus maður með ástríðu fyrir einhverju veit yfirleitt mun meira um það en maðurinn með 5 háskólagráðurnar sem hefur misst neistann fyrir því . (M.a.s. Google viðurkenndu nýlega að gráðurnar segja ekki allt og hafa breytt ráðningarstefnu sinni þannig að hún tekur mun minna tillit til námsafreka en áður - ekki að ég sé neitt að setja út á menntun, síður en svo!). Það sem ég hef síðan fram yfir aðra markaðsnörda eru hlutir sem ég fékk í leiklistinni og söngnum, hlutir eins og skapandi hugsun, að hugsa út fyrir kassann, hæfileiki til að koma fram og gefa af mér - enda fíla ég mig sjaldan betur en þegar ég fæ að halda erindi og fyrirlestra - auk þess sem ég er sífellt að átta mig á hvernig ýmis atriði, m.a.s. tæknileg leiklistaratriði, nýtast beint í markaðsmálunum.
Í dag er ég búin að vera "í markaðsbransanum" í rúman áratug, svo ég tel mig hafa sýnt fram á að ég veit eitthvað hvað ég syng í þeim málum. Í dag er ég tilbúin til að koma fram og segja: “Ég heiti Þóranna, ég var leikkona, er enn söngkona, OG ER markaðsnörd!” - í dag ætla ég að breiða út fjaðrirnar og vera páfugl - og þeir sem ekki fíla það eru hvort eð er ekki rétta fólkið fyrir mig :)
Hver ert þú? Hvað hefur þú verið að fela? Hvað er það sem gerir þig sérstaka(n)? Ætlarðu ekki að fara að breiða út páfuglafjaðrirnar þínar?! ;)
No comments:
Post a Comment