Brennur þú innan í þér?



Fæst okkar ákveða einn daginn að þau langi að lifa innihaldslausu lífi. Fæst okkar langar að vinna vinnu sem við höfum engan sérstakan áhuga á. Fæst okkar ákveða að setja á fót fyrirtæki bara af því... Úff - þeir sem þekkja það vita að maður setur ekki á fót fyrirtæki bara að gamni sínu - það er hörkuvinna, lengi vel fyrir engin laun og þetta er svona eins og að vera komin aftur í háskólanám - maður er aldrei raunverulega í fríi því að maður gæti alltaf verið að gera eitthvað (og finnst maður alltaf eiga að vera að gera eitthvað). Maður setur ekki af stað rekstur nema að brenna fyrir það. Nema að þetta sé virkilega það sem maður vill gera í lífinu. Þetta er svona eins og að ætla að verða leikari. Ég uppgötvaði það eftir þriggja ára háskólanám og nokkur ár í bransanum að mig langaði bara alls ekkert að vera leikari - og trúðu mér, það er ekki bransi sem maður er í nema að það sé það eina í lífinu sem maður getur hugsað sér að gera!

Ég hitti á dögunum unga og hrikalega flotta fatahönnuði með mjög spennandi  verkefni í gangi. Við ræddum markaðsstrategíu og staðsetningu á markaði. Ættu þau að fara í það að framleiða fullt fullt og selja almenningi ódýrt, ættu þau að staðsetja sig kannski  í dýrari kantinum en samt ekki hátíska (svona merki sem eru seld hjá Sævari Karli, eða Sand, Marc Jacobs, Karen Millen eða álíka staðsetning) , eða ættu þau að fara í að vera hátískumerki. Margir höfðu ráðlagt þeim að fara millileiðina, en þau langaði það ekki. Þau langaði að fara í hátísku. Viðskiptafólkið sagði það of áhættusamt. Reyndar finnst mér það viðskiptalega lógískt, sérstaklega í þessum bransa, því að þó þú græðir aldrei á hátískunni þá er það hún sem vekur athygli og kemur þér á kortið, og selur svo vörurnar sem þú framleiðir og selur á viðráðanlegra verði á almennum markaði. En það er ekki bara lógískt í Excel skjalinu. Það er nauðsynlegt til þess að halda verkefninu gangandi.

Ef að þessir ungu hönnuðir myndu hlusta bara á viðskiptafólkið í kringum sig, sleppa hátískunni og fara beint á sölumarkaðinn þá gerist tvennt. Í fyrsta lagi verða þau bara enn eitt merkið á yfirfullum markaði og það verður mjög erfitt að ná í gegn og ná athygli. Hitt sem gerist er að eldurinn sem brennur innan í þeim, ástríðan fyrir því sem þau gera, deyr smátt og smátt.  Hversu spennandi heldur þú að föt hönnuð af fólki sem hefur ekki ástríðu fyrir því sem það er að gera séu? Hversu lengi heldurðu að fyrirtækið lifi eftir að eldurinn innra með hönnuðunum deyr út?

Það er nauðsynlegt að finna leið til að láta ástríðuna og viðskipti fara saman. Ekki bara fyrir þig eða fólkið þitt til að halda ykkur gangandi heldur er ástríða öflugur hluti af markaðssetningunni þinni. Það er eldurinn innra með sem gerir það sem þitt fyrirtæki gerir sérstakt. Fólk finnur það ef þið brennið fyrir það sem þið gerir og það finnur það ef ykkur er sama. Af hverju ætti að ég að versla við fyrirtæki ef fólkinu í því er alveg sama? Ef allir brenna fyrir það sem þeir gera, þá verður auðveldara að kveikja í viðskiptavinunum. Það verður auðveldara að byggja upp brandið þitt og auðveldara að fá fólk til að segja frá. Það verður auðveldara að vekja áhuga, fá fólki til að líka við ykkur og treysta ykkur...

Fyrir hvað brennur þú og þitt fólk? Hvernig kemur það fram í því sem þið gerið? Hvernig sér viðskiptavinurinn ástríðuna ykkar?





No comments:

Post a Comment