Sköpun og skipulag



Í þessum síðasta pósti um efnismarkaðssetningu (e. content marketing) ætla ég að tala aðeins um praktíska hluti. Stór hausverkur er oft hvernig við ætlum að gera efni sjálf og hverju öðru við getum deilt, t.d. á samfélagsmiðlunum, sem krefjast töluverðrar virkni og getur verið áskorun að halda lifandi.
Ef þú hefur fylgt mér í einhvern tíma, á blogginu, póstlistanum eða samfélagsmiðlunum, þá sérðu að efnismarkaðssetning er nokkuð sem ég nota mjög mjög mikið og á margvíslegan hátt.

Efni getur verið á margskonar formi, miðlað með margskonar leiðum og gegnt margskonar tilgangi í markaðssetningu. Þetta getur verið t.d. blogg, vídeó, allskonar efni á samfélagsmiðlunum, myndir, infographics, rafbækur og vefnámskeið svo við teljum upp nokkur af þessum helstu leiðum. Það er ákveðin list – en aðallega færni sem maður getur tamið sér – að vita hvernig maður getur sett efnið fram og hvar best er að deila því. Og hitt – sem er ekki nein list, bara hreinræktuð skipulagning – að vita hvernig maður á að koma hlutunum þannig fyrir að maður sé sífellt að dæla út efni og sífellt sýnilegur án þess að vera að allan sólarhringinn.

Ég er ein í markaðsmálunum í mínu fyrirtæki. Ég er reyndar á fleiri samfélagsmiðlum en ég mæli með því að vera  á, en það er einfaldlega vegna þess að ég er „í bransanum“ og þarf að þekkja helstu miðlana og hafa reynslu af þeim. Ég mæli með því að þú finnir hvað virkar fyrir þig, haldir þig við það og dreifir þér ekki of mikið.

Margir eiga ekki orð yfir því hversu virk ég er á samfélagsmiðlunum, í því að búa til, finna og senda frá mér efni. Og fólk gapir þegar ég segi þeim að ég eyði svona einum morgni á mánuði og 10 mínútum á dag í samfélagsmiðlana og svona í heildina kannski tveimur til þremur tímum á viku í bloggið og póstlistann – oft mun minna. Samt er póstlistinn það sem ég legg virkilega áherslu á. Þar fær fólk ekki bara bloggið mitt, heldur líka ýmislegt annað góðgæti – því þú verður jú að fá meira fyrir þinn snúð þegar þú skráir netfangið þitt heldur en bara fyrir eitt lítið like á Facebook ;)

Viltu vita hver galdurinn er?

Jú, maður þarf réttu tækin og tólin til að búa til efnið og koma því út án þess að það verði allt of mikil vinna – t.d. með því að pósta á samfélagsmiðlana fram í tímann, samtengja miðla ef við á o.s.frv. Hootsuite bjargar lífi mínu :) En galdurinn er fyrst og fremst kerfi – skipulag á því hvernig ég finn um hvað ég ætla að gera efni, hvernig ég geri efnið og hvernig ég finn efni frá öðrum sem ég get deilt með fylgjendum mínum. Risa
stór hluti markaðsstarfsins er nefnilega ekki endilega þetta skapandi (eins og einn kennarinn minn sagði einhvern tímann „arty farty“) heldur praktísk og fyrir sumum kannski leiðinleg skipulagning – en vá hvað það auðveldar manni lífið!

Og hver veit, núna þegar þú ert að lesa þennan póst gæti ég verið að sleikja sólina á Spáni! :)  - en með hjálp góðrar skipulagningar, markaðskerfis, efnisdagatals og tækninnar the show will go on!



No comments:

Post a Comment