Ekki byggja á sandiEfnismarkaðssetning getur verið gríðarlega sterkt tól fyrir minni fyrirtæki. Það tekur jú tíma og vinnu, en ekki svo mikla beinharða peninga – jafnvel enga  – en hún krefst þess hinsvegar að þú sért búinn að vinna grunnvinnuna þína vel.

Ef þú veist ekki til hverra þú ætlar að höfða og ef þú þekkir ekki áhorfendur eða lesendur, hvernig ætlarðu þá að gera efni sem að þeir hafa áhuga á? Hvernig veistu hvar best er að deila efninu með þeim? Hvernig veistu hverskonar efni þau eru líklegust til að vilja sjá; texta, vídeó, myndir o.s.frv.

Þú vilt heldur ekki bara tala um það sem þú gerir, þú vilt hafa svigrúm til að fjalla um ýmislegt í kringum það sem höfðar til markhópsins – annars ertu bara eins og leiðinlegi gæinn í partýinu sem talar bara um sig og sín áhugamál. Þess vegna er algjörlega nauðsynlegt að vita hver markhópurinn eða markhóparnir eru og að þekkja þá og skilja mjög vel.

Já og ef þú ert með marga markhópa, hvaða efni höfðar til hvers, hvernig er best að koma því til skila þannig að það nýtist sem best, en líka að efni til eins markhóps hafi ekki neikvæð áhrif á annan markhóp ef hann sér það. Þetta þarf allt að vera á hreinu til að ná árangri með efnið þitt.

Að sama skapi verðurðu að vita hver þú vilt vera, hvaða hugsanir þú vilt vekja, hvaða tilfinningar þú vilt að vakni hjá fólki þegar það kemst í samband við þig í gegnum efnið þitt. Efnið þitt byggir brandið þitt á mjög sterkan hátt – en ef þú veist ekki hvernig brand þú vilt byggja upp þá getur efnið aldrei markvisst stuðlað að því að byggja það upp, og jafnvel gert meira illt en gott með því að gera ímyndina óljósa og fólk átti sig ekki á því hver þú ert og hvað þú gerir. Það er aldrei vænlegt til árangurs.

Ef það er ekki samræmi í efninu frá þér, ef það er ekki að koma sömu skilaboðunum og sama brandinu til skila, þá verður það aldrei eins áhrifaríkt – og við megum ekki vera að því að gera hluti sem vinna ekki fyrir okkur jafn hörðum höndum og við gerum sjálf!

Við þurfum líka að huga að því hvar efnið sem við sendum frá okkur passar inn í markaðsferlið. Hvernig ætlum við að nota það til að ýta fólki í gegnum ferlið, í áttina að sölu og áfram að meiri sölu, bæði hjá þeim og í gegnum tilvísanir.
No comments:

Post a Comment