Gefðu, gefðu, gefðu – og gefðu meira!



Viðbrögðin við póstinum mínum í síðustu viku um efnismarkaðssetningu voru mjög góð. Flestir virðast hrifnari að því að laða fólk að sér heldur en að ýta hlutum upp á þau. Mér finnst það persónulega líka mjög góð þróun því það er kjarninn öllu markaðsstarfi, að finna hvað fólk þarfnast og vill og veita þeim það á þann hátt að sé arðbært fyrir þig.

Efnismarkaðssetning er líka nokkuð sem flestir eru að stunda, hvort sem þeir átta sig á þvi eða ekki – flest okkar gera meira að segja nokkuð mikið af henni. Ert þú með Facebook síðu? Ertu kannski á öðrum samfélagsmiðlum líka? Bloggarðu? Ertu með póstlista o.s.frv.? Þetta er allt hluti af efnismarkaðssetningu og það er ekki ólíklegt að þú viljir fá meira út úr þessum miðlum og vinna markvissar með þá.

Fræðsla er líka mjög sterkt markaðstól. Hún stuðlar ekki eingöngu að því að byggja upp jákvæðar tilfinningar fólks til okkar, heldur er hún ómissandi tól til að stimpla það inn hjá fólki að við séum sérfræðingarnir á okkar sviði. Þá gildir að draga til sín fólk með því að veita þeim eitthvað áhugavert sem þeim finnst þess virði að eyða tíma sínum í.

Efnismarkaðssetning er ekki eins og síðustu auglýsingar fyrir fréttir sem eru staðsettar þar til að grípa þig og eiginlega troða þeim upp á þig. Fólk ræður því sjálft hvort það vill skoða efnið frá þér, lesa það, horfa á það o.s.frv. Hvort sem það er að smella like á Facebook síðuna, póstinn þinn, endurtvíta, skrá sig til að fá bloggið í áskrift eða á póstlistanum, fólk ræður því sjálft hvort það vill vera memm. Þú þarft þess vegna að finna jafnvægið milli þess að gefa þeim það sem þau vilja og að þetta sé efni sem leiðir til viðskipta fyrir þig.
Oft þegar talað er um efnismarkaðssetningu fyrir þá sem ekki eru mikið inni í markaðsmálum þá eru viðbrögðin þau að segja „á ég bara að gefa og gefa og gefa?!“

Já.

Því með því að gefa byggirðu upp samband.  Fólki fer að líka við þig og tengja við þig. Með því að gefa og sýna fólki hvað þú kannt og veist fer fólk að líta á þig sem sérfræðinginn og „go-to“ aðilann í þínum geira. Og með því að gefa færðu fólk til að vilja gefa þér á móti. Hvernig gefur það á móti? Jú, með því að breiða út boðskapinn og segja öðrum frá þér – og með því að kaupa af þér ;)

Gefðu af þér og fólki mun líka við þig, það mun byggja upp traust fólks til þín, fólki finnst það vita hvað þú gerir og stendur fyrir og það minnkar þörfina fyrir að prufa það sem þú hefur að bjóða, og minnkar þá áhættu sem fólk skynjar óhjákvæmilega í öllum kaupum.

Gefðu af þér og fólk mun gefa til baka með því að velja þig þegar kemur að því að kaupa það sem þú hefur að bjóða.


No comments:

Post a Comment