Komdu þér að efninu! ;)



Markaðsstarf er að breytast. Það hefur breyst gríðarlega mikið á síðustu 10-20 árum.  Með tilkomu internetsins, samfélagsmiðla, snjallsíma o.fl. snýst markaðsstarf sífellt minna um einhliða útsendingar á kynningar efni og meira um að draga fólk til sín.

Markaðsstarf snýst minna um að grípa fólk en meira um að vera til staðar og vera á réttum stað þegar fólk leitar eftir einhverju sem tengist því sem þú hefur að bjóða.

Markaðsstarf snýst minna um að ýta hlutum upp á fólk og meira um að laða fólk að sér.

Á ensku er gjarnan talað um að við séum að færast frá outbound marketing yfir í inbound marketing.

Hluti af því að laða að sér fólk er að búa til efni og miðla því til fólks - líkt og ég er að gera með þessum bloggpósti og líkt og ég hef gert með vídeóunum mínum, því sem ég deili á samfélagsmiðlunum o.s.frv. Efninu er ætlað að draga fólk að og byggja upp samband við það - því eins og ég hef svo oft talað um áður, þá snýst markaðssetning um að byggja upp samband - samband sem leiðir m.a. til viðskipta fyrir þig.

Þetta má kalla efnismarkaðssetningu, eða á ensku content marketing.
Það að búa til efni sem á einhvern hátt höfðar til markhópsins þíns og miðla því til hans á áhrifaríkan hátt er hluti af efnismarkaðssetningu. Að nota efnið markvisst til að byggja upp samband og færa fólk í gegnum markaðsferlið er efnismarkaðssetning. Og þar sem efnismarkaðssetning er nokkuð sem krefst tíma og vinnu, en ekki endilega svo mikilla beinharðra peninga, þá getur hún verið mjög öflugt markaðstól fyrir minni fyrirtæki.

Innihaldsríkt efni sem hefur virði fyrir fólk er nefnilega mjög verðmætt í markaðssetningu. Spáðu í því þegar þú leitar að hlutum, t.d. á netinu. Að hverju erum við oft að leita? Jú, upplýsingum, ráðum, svörum, - já eða skemmtun eða jafnvel bara einhverju til að hvetja okkur áfram. Við myndum jákvæðar tilfinningar til þeirra sem veita okkur þetta. Ef þú getur verið aðilinn sem veitir fólki það og nýtir það á markvissan hátt til að byggja upp sambandið við þau, og orðsporið þitt á þínu sviði, þá getur það verið mjög mikils virði fyrir þig.

Þar að auki eru gott efni sem nýtir lykilorðin þín öflug leið til að hækka vefinn þinn á leitarvélunum ;)

Hvað falist getur í efnismarkaðssetningu er ýmislegt. Það er t.d. að blogga, deila efni á samfélagsmiðlum á borð við Facebook, Twitter o.s.frv. - eða gera vídeó og setja á YouTube. Mig grunar að þú sért að gera eitthvað af þessu. Mjög margir eru t.d. á Facebook - og þá þarftu að nota efnismarkaðssetningu.

Þess vegna ætla ég að fjalla aðeins meira um hana á komandi vikum ;)


p.s. þjálfun í efnismarkaðssetningu er hluti af framhaldsþjálfun MáM ;)


No comments:

Post a Comment