Hvernig fylgist þú með samkeppninni þinni?Í fyrri pósti held ég að mér hafi tekist að sannfæra fólk um nauðsyn þess að fylgjast með samkeppninni - eða hvað? ;)  En það er ekki nóg að rannsaka þá bara með smásjá einu sinni og svo ekkert meira. Hlutirnir breytast og þróast hratt í nútímaheimi og þú þarft alltaf að vera með puttann á púlsinum.

Það er mjög misjafnt hvað þú ert að skoða hjá samkeppninni eftir því í hvaða bransa þú ert, en það eru alltaf ákveðin kjarnaatriði á borð við:
  • Hvað eru þeir að gera í markaðssetningu?
  • Hvert virðast þeir stefna?
  • Hvaða markhópum eru þeir að einbeita sér að?
  • Hversu stórir eru þeir (starfsmannafjöldi, velta, markaðshlutdeild)?
Það er fullt fleira og ýmislegt sem á sérstaklega við hjá þér og þessir hlutir munu breytast. Ef eitthvað er öruggt í þessu lífi þá er það að hlutirnir breytast ;)

Hér eru nokkrar leiðir til að fylgjast með samkeppninni til að passa að þeir taki ekki fram úr þér ;)


Heimsæktu þá!


Ef að þú ert í þannig bransa að fyrirtæki séu með ákveðinn stað sem fólk kemur á, þá legg ég til að þú heimsækir samkeppnina reglulega. Einn viðskiptavina minna á veitingastað og í hverri viku fer hún og borðar á einhverjum af veitingastöðum samkeppnisaðilanna. Þetta er frábær leið til að sjá hvað þeir eru að bralla, sjá breytingar á matseðlinum, fá tilfinningu fyrir umhverfinu og almennt að upplifa samkeppnina. Eru samkeppnisaðilar þínir með verslun, bakararí eða hvað sem er þannig að þú getir heimsótt þá?

Ég veit að þetta getur verið snúið ef þetta er lítill markaður með fáum aðilum þar sem þú getur eiginlega ekki látið sjá þig hjá samkeppnisaðilanum. Og þar sem maður kannski er ekkert alltaf - það væri t.d. skrýtið ef þú kæmir og mátaðir brúðarkjóla einu sinni í mánuði! En þú getur fengið aðra í lið með þér, s.s. starfsfólkið þitt, vini og fjölskyldu og launað þeim hjálpina með einhverjum hætti - þú getur ábyggilega látið þér detta eitthvað sniðugt í hug!

Vertu áskrifandi, fylgdu, líkaðu við o.s.frv.

  • Vertu á póstlistanum
  • Skráðu þig til að fá sent fréttabréf ef þeir gefa slíkt út
  • Spreðaðu í like á Facebook
  • Fylgdu þeim á öðrum samfélagsmiðlum, s.s. Twitter, Pinterest, Instagram o.s.frv.
  • Vertu áskrifandi að fréttum og bloggi frá þeim

Skoðaðu þá á netinu


Kíktu á vefsíðuna þeirra reglulega - þú getur lært ýmislegt um þá þar. Það er alltaf erfitt fyrir mann að ákveða sjálfur hversu miklar upplýsingar maður á að setja á vefinn, því að þá getur samkeppnin séð þær líka, en ég myndi ekki hafa of miklar áhyggjur af því. Þú ætlar að fylgjast vel með samkeppnisaðilunum þínum, og þú ætlar að vera svo frábær í því sem þú gerir að þó að samkeppnin fái upplýsingar um þig á vefsíðunni þá skiptir það ekki máli! Vertu viss um að viðskiptavinirnir geti fengið allar þær upplýsingar sem þeir þurfa - það er aðalmálið!

Svo er náttúrulega Google vinur okkar. Gúgglaðu þá! Gerðu það reglulega. A.m.k. einu sinni í mánuði og þú kannski þarft að gera það oftar - það fer eftir markaðnum þínum. Hversu fjörugur er markaðurinn þinn? Hversu mikið er í gangi?

Þú getur líka notað Google Alert og fengið að vita þegar samkeppnisaðilarnir þínir poppa upp á netinu einhvers staðar.


Þetta eru bara nokkrar einfaldar leiðir til að fylgjast með samkeppninni. Hverja líst þér best á? Lumarðu á fleirum? Deildu með okkur í ummælunum! :)

No comments:

Post a Comment