Sl. sumar gerði ég tvær kannanir þar sem kom berlega í ljós að stærstu hindranirnar fyrir því að fólk tæki markaðsmálin sín föstum tökum eru tími og peningar. Ég veit að ég get tæklað þetta með peningana - markaðsstarfið þarf nefnilega ekki á svo miklum svoleiðis að halda og ég get kennt fólki hvernig það getur náð árangri í markaðsstarfinu með litla sem enga peninga. Ég get líka hjálpað fólki að setja hlutina þannig upp að markaðsstarfið taki ekki meiri tíma en nauðsynlegt er - en það tekur alltaf einhvern tíma - og til að koma hlutunum þannig að fyrir að það þurfi sem minnstan tíma, þá þarf tíma til að koma því þannig fyrir :) Og ekki má gleyma að tími er jú, réttilega, peningar) - svo ég ákvað að fara á stúfana og reyna að finna út úr því hvernig ég gæti búið til meiri tíma fyrir mig, og vonandi þig í leiðinni ;)
Ég fékk astoðarkonuna mína (það er einmitt einn liður í því að búa til meiri tíma fyrir sig ;) til að taka saman fyrir mig bestu ráðin sem hún gat fundið til að nýta tímann betur og koma meiru í verk. Svo fór ég í gegnum þau og valdi þau sem mér leist best á. Það er úr mörgu að velja og til að þessi póstur verði ekki of langur þá ætla ég að fara yfir þrjú þeirra hér. Ég mun svo klárlega koma með fleiri þegar fram líða stundir - sérstaklega þegar ég finn hluti sem virka fyrir mig og gætu því mögulega virkað fyrir þig ;)
1 - Ekki láta aðra stjórna!
Byrjum á þessu. Ég nefnilega þegar farin að nota þetta og það svínvirkar.
Þegar þú byrjar að vinna á morgnana, ekki opna tölvupóstinn eða Facebook eða neitt slíkt sem kemur þér í samband við umheiminn. Byrjaðu bara einfaldlega á einhverju þeirra mikilvægu verkefna sem fyrir liggja og krefjast þess að þú getir einbeitt þér að þeim í svolítinn tíma. Ef þú mögulega getur, slökktu líka á símanum og láttu bara talhólfið sjá um málið. Ekki skoða neitt af þessu fyrr en um hádegi. Segjum að þú byrjir að vinna kl. 9 - eða jafnvel 10 - þetta gefur þér ótruflaðan tíma til að vinna, fersk(ur) í morgunsárið í 2-3 og jafnvel 4 tíma ef þú byrjar kl. 8. Ég lærði þetta af Tim Ferriss með 4-hour work week og mér finnst frábært að minna mig á að með þessu þá ræð ég deginum mínum, í stað þess að leyfa öðrum að gera það með því að ég bregðist við þessu emaili, svari þessum Facebook skilaboðum o.s.frv.
Taktu svo smá tíma áður en þú ferð í mat og tjékkaðu á pósti (og Facebook, ef starfið þitt er þess eðlis að þú þurfir að svara fyrirspurnum eða öðru þar - annars - slepptu því!!!). Með því að gera það áður en þú ferð í mat þá ertu heldur ekkert að dúlla þér í því of lengi því garnirnar eru farnar að gaula ;) Láttu svo póstinn aftur algjörlega vera þar til síðast áður en þú hættir að vinna. Hvort það er korteri, hálftíma eða klukkutíma áður fer eftir því hvað þú færð venjulega mikið af pósti, en pælingin er sú sama og áður. Að fá ótruflaðan tíma til að vinna.
Takk Tim Ferriss :)
2- Hættu þessu endalausa fundastandi!
Það verður að segjast eins og er. Fundir eru tímaþjófar. Það eru yfirleitt fleiri á þeim en þurfa að vera. Þeir eru yfirleitt lengri en þeir eiga að vera og tíminn á fundum er gegnumgangandi illa nýttur í blaður. Hversu oft hefur þú ekki komið út af fundi án þess að það sé nein skýr útkoma og skýr næstu skref?
Gerðu allt sem þú mögulega getur til að komast hjá því að sitja fundi. Ef þú þarft að sitja fundi, farðu þá fram á að fá skýra dagskrá fyrirfram og þar á að koma skýrt fram hvað þarf að koma út úr fundinum. Gerðu allt sem þú getur til að fundarmenn haldi sig við þá dagskrá - ef það felur í sér að taka að sér fundarstjórn, gerðu það! Ef á að taka mörg mál fyrir, biddu um að fá að vera fyrst(ur) með það sem snýr að þér því þú þurfir að fara að sinna öðrum erindum - og farðu svo!
Ég er að verða betri í þessu, en gæti orðið mun betri. Er samt orðin grimm í því að verja tímann minn og bóka fundi bara á ákveðnum dögum og tímum, þar sem ég skelli þeim saman, því að einn fundur hér og einn fundur þar tætir allt í sundur og það verður ekkert úr deginum. Búandi í sveitinni er ég líka hörð á að taka ekki fundi í Reykjavík nema á ákvöenum dögum og þá hrúga ég nokkrum saman og nýti daginn vel í kaupstaðarferðinni. Það þýðir að fólk sem vill hitta mig augliti til auglitis og er ekki tilbúið í sveitaferð þarf stundum að bíða í dágóðan tíma - en hey, þá líka detta út þeir sem þurfa í rauninni ekkert að hitta mig og þeir verða eftir sem vit er í ;) Ég er auðveldari með Google Hangout fundi (og Skype ef ég neyðist til ;) en reyni líka eftir bestu getu að raða þeim saman þannig að ég tæti ekki daginn í sundur og vil hafa skýra dagskrá.
Takk aftur, Tim Ferris - og hann lumar á mörgum fleiri góðum ráðum :)
Hann Gunnar Jónatans hjá IBT er assgoti góður bæði í þessu með tölvupóstinn og fundarstjórnina og hann er einmitt með námskeið sem hjálpar þér að temja tölvupóstinn á næstunni, í samstarfi við Dokkuna. Smelltu hér til að fá frekari upplýsingar.
3 - Sestu aftur á skólabekk
Aha - þetta hljómar eins og tóm vitleysa, ekki satt? Hver hefur tíma til að setjast aftur á skólabekk? Og til að læra hvað? Jú, það er margt sem gott er að læra og sem getur kennt þér að nýta tímann þinn betur. Ég hef áður fjallað um hvað það sparar mikinn tíma að vera með markaðsmálin á hreinu. En það er ekki það sem ég er að tala um núna.
Hraðari lestur. Það er það sem ég er að tala um. Við þurfum öll að lesa alveg ógrynni af hlutum. Við lesum tölvupósta, við þurfum oft að lesa eitthvað vegna vinnunar, og ef við ætlum að verða betri í hlutum (sem við verðum þá oft fljótari í líka) þá þurfum við að lesa meira og hraðar. Ég les mjög mikið, hvort sem það eru bækur tengdar markaðsfræðunum eða mér til skemmtunar, en ég les líka ógrynni af tölvupóstum og bloggum. Og mikið væri nú gott að vera fljótari að því.
Ég er búin að vera á leið á hraðlestrarnámskeið í háa herrans tíð. Ég á satt best að segja voða erfitt með að gera hluti sem krefjast þess að ég sé á ákveðnum stað á ákveðnum tíma og þess vegna hefur ekkert orðið af því. En nú skal þessu breytt. Ég keypti mér um daginn námskeið á útsölu hjá Udemy sem heitir Become a SuperLearner: Learn Speed Reading and Advanced Memory Techniques. Nú ætla ég að fara að drullast til að fara í gegnum það (það kostar $199, en ef þú skellir þér á póstlista hjá Udemy þá láta þeir þig vita af næstu útsölu og þú gætir fengið það mun mun hagstæðara - held að ég hafi borgað $10 eða $20). Pat Flynn á Smartpassiveincome.com bloggaði líka um hraðlestur mjög nýlega og bendir þar á góð frí YouTube vídeó sem hjálpuðu honum að hraða verulega á lestrinum, bæta skilninginn og minnið!
Ég ætla að byrja á þessum þremur atriðum yfir næstu vikurnar (hraðlesturinn gæti tekið smá tíma að mastera;) og svo ætla ég að fara aftur í gögnin mín og finna næstu þrjú atriði - og deila þeim með þér :)
Hvað af þessu líst þér best á? Hvað ætlar þú að taka og gera núna strax í dag? Segðu mér og láttu mig svo vita hvernig gengur - mig langar að fylgjast með ;)
No comments:
Post a Comment