Ertu með hausinn rétt skrúfaðan á? - hugarfarið skiptir öllu

Nýlega skrifaði ég grein í Markaðinn þar sem ég skammaði kvenþjóðina svolítið fyrir að vera stundum sjálfar sér verstar. Ef þú last hann ekki, þá geturðu gert það hér.

En veistu, þó ég hafi kosið að skrifa þennan pistil til kynsystra minna, þá er margt í honum sem á við alla. Ég sé það nefnilega alltaf betur og betur eftir því sem ég vinn með fleirum í að efla markaðsstarfið þeirra, að hugarfarið skiptir öllu. Það er hægt að kenna flest. Það er hægt að kenna þér að greina markhópana þína og samkeppnina. Það er hægt að kenna þér hvernig branding virkar, hvað það gerir fyrir þig og hvernig þú átt að gera það. Það er líka hægt að kenna þér á hinar ýmsu markaðsaðgerðir, að nota twitter, að skipuleggja vefsíðuna þína, að búa til Facebook auglýsingar o.s.frv. o.s.frv. Það er hægt að kenna þér að skipuleggja þig svo að markaðsstarfið taki ekki meiri tíma en þarf og sé áhrifaríkara fyrir vikið. Það sem ég get ekki kennt þér er grundvallar hugarfarið. Og hugarfarið skiptir öllu.

Hver þekkir ekki sögur af íþróttamönnum sem voru rosalega efnilegir en hausinn var ekki í lagi og þess vegna varð aldrei neitt úr þeim? Hver veit ekki um einhvern sem hefur alltaf brillerað í skóla en einhvern veginn aldrei plumað sig í lífinu? Mörg okkar könnumst við einhvern með frábæra vöru eða þjónustu sem aldrei nær flugi. Hvað er að klikka? Jú, yfirleitt hugarfarið.

Hversu vænlegt til árangurs er þetta: “Ég bara skil ekki þetta Facebook dótarí”, “Ég gæti aldrei selt neinum neitt”, “Ég kann ekki, get ekki, skil ekki, vil ekki …”? ;)      Ef þetta er hugarfarið, þá er alveg eins gott bara að fara að gera eitthvað annað. Ég get lofað þér að þú markaðssetur ekki neitt ef þú hugsar svona - alveg sama hvað ég kenni þér mikið og hvað varan þín eða þjónusta er frábær! :)

Ég og fjöldi annarra þarna úti getum kennt þér og hjálpað þér með markaðsstarfið þitt. En þú þarft að koma að borðinu með rétta hugarfarið. Þú verður að vera jákvæð(ur) og læra það að þú getur allt sem þú vilt. Ég veit alveg að ef ég og þú vildum verða heilaskurðlæknar þá gætum við það alveg (mig reyndar langar það bara ekki neitt, og þess vegna hef ég aldrei orðið það :)

Maður verður líka að læra að biðja um hjálp en líka að nýta þá hjálp til að efla sjálfan sig - ekki bara láta gera hlutina fyrir sig. Skrúfaðu hausinn rétt á. Láttu jákvæðnina ráða för. Segðu “ég þori, get og vil” og láttu vaða! Og ef þig vantar aðstoð þá er alltaf gott fólk til staðar ;)

Þangað til næst ;)
xoNo comments:

Post a Comment