Ertu kominn af stað í ræktina?

Við könnumst öll við það að fá nóg af leti og áti eftir hátíðarnar. Nú skal sko tekið á því, farið í ræktina, bara borðað gras og grænmeti (eða rjómaostur og beikon ef maður skellir sér í LKL :) Kannastu ekki við þetta? Að rjúka af stað í ræktina, taka vel á því í smá tíma og svo smám saman fjarar þetta út? Eða ertu kannski í duglega hópnum sem heldur þetta út jafnt og þétt all árið um kring? Ef svo, þá óska ég þér til hamingju! Taktu nú það hugarfar og notaðu það í markaðsstarfinu!

Markaðsstarfið er nefnilega alveg eins. Mjög oft rýkur fólk til og ætlar nú heldur betur að taka á málunum - rífa upp söluna. Þetta er gjarnan á sömu tímum og ræktin eða skólabyrjunin, þ.e. í lok ágúst og í september, rétt fyrir jólin (jamm - ég veit!) og svo aftur eftir jólin. Þegar fer að vora róast allt og mætti halda að enginn ætli að selja neitt. En veistu, þetta er alveg eins með markaðsstarfið og ræktina…

Ef ég mæti í ræktina einn mánuð á ári og hamast eins og brjálæðingur, mæti 6 sinnum í viku í 3 tíma í einu - kemst ég þá í form? Í rauninni ekki. Það er líklegra að ég geri út af við mig. Ég kemst í áttina og svo dettur þetta allt niður og ég þarf að byrja á sama stað aftur næst. Það er alveg eins með markaðsstarfið. Það þýðir ekkert að rjúka af stað með flugeldasýningu með löngu millibili og gera svo ekkert þess á milli - þá kemst markaðsstarfið aldrei í form.

Kunningi minn kom líka með aðra skemmtilega líkingu hvað þetta varðar. Hann hefur mikið unnið með bændum í gegnum tíðina. Hvernig ætli það væri ef bóndinn færi bara og mjólkaði kýrnar duglega einu sinni í mánuði? Eða gæfi dýrunum bara einu sinni yfir vetrartímann? Hrúgaði bara vel í ílátin og léti svo duga? Hvernig myndi það ganga? - það myndi náttúrulega ekkert ganga. Það er bara svoleiðis að það verður að mjólka á hverjum degi, það verður að gefa á hverjum degi, sama hvað tautar og raular. Sama hvort manni finnst það skemmtilegt eða leiðinlegt. Sama hvort það er mánudagur eða sunnudagur, aðfangadagur eða páskadagur.

Þetta er alveg eins með markaðsstarfið. Það þarf alltaf að vera að. Auðvitað tek ég þér fagnandi ef þú skellir þér í MáM þjálfun hjá mér núna á nýju ári og það er frábært skref í rétta átt. En það gerir hinsvegar ekkert að massa þetta í janúar og hætta svo í febrúar. Og það gerir heldur ekkert að kaupa áskrift og gera svo ekkert við hana - það er svona eins og með styrktaraðila líkamsræktarstöðvanna ;)  Málið er bara að mig langar ekkert í neina styrktaraðila. Mig langar að hjálpa þér að byggja upp öflugt markaðsstarf sem skilar þér góðum viðskiptum og góðum rekstri. Það gerist ekki á einni nóttu. En ef þú ert til í að vera memm í ræktinni reglulega, þá verð ég voðalega glöð að sjá þig :)



No comments:

Post a Comment