Hver er þín vegferð?Það er alltaf tilhneiging til þess, þegar maður rekur lítið fyrirtæki, að vilja vera og gera allt fyrir alla. Sérstaklega fyrstu árin, þegar maður er að koma fótum undir reksturinn og þarf að koma fjárstreyminu af stað. Þá er mikilvægt að halda fókus.

Til þess að halda fókus þá verður maður fyrst að vita nákvæmlega hver maður vill vera, sem fyrirtæki. Maður þarf að vita hvað maður gerir - og hvað maður gerir ekki, sem er ekki síður mikilvægt. Maður verður að trúa og treysta því að það sé rétt, til að halda sér á beinu brautinni, og maður verður að brenna fyrir það sem maður gerir - annars gefst maður einfaldlega upp. Auðvitað er maður alltaf að breytast, læra, þróast og finna sig betur og betur, en það er annað heldur en að elta hugmynd vikunnar út um hvippinn og hvappinn.

Ég þekki þetta vel sjálf. Ég lagði af stað með það að vilja efla minni fyrirtæki í markaðssetningu. Hvernig ég geri það hefur breyst, og er sífellt að þróast. Ég byrjaði með því að hitta viðskiptavini mína og vinna maður á mann, áttaði mig svo á því að það væri bæði tímafrekt og dýrt, auk þess sem ég var alltaf að segja sömu grundvallarhlutina aftur og aftur og aftur. Svo ég þróaði þetta áfram. Ég fór að gera þjálfunarefni og setti það á netið, þannig að fólk gæti unnið sig í gegnum það sjálft og leitað svo bara til mín þegar þarf að skoða sérstaka hluti, hluti sem ekki er hægt að staðla. Þannig get ég skalað þetta upp, þjónustað fleiri á lægra verði, og fyrir mig er það líka meira gefandi því að þegar ég vinn með viðskiptavininum maður á mann þá erum við komin upp úr grunnvinnunni og í frekari pælingar.

Freistingarnar eru hinsvegar alls staðar. Að fara þessa leið þýddi mikla vöruþróunarvinnu, bæði við að móta efnið, taka það upp, búa það til, tækla tæknilegu málin o.s.frv. o.s.frv. Vinna sem gaf ekki af sér tekjur þegar hún var unnin og vinna sem er enn í gangi. Ég reyni að halda fókus eins vel og ég get, en hef samt tekið að mér verkefni sem voru ekki eins og ég hefði viljað hafa þau, verkefni þar sem ég var að vinna maður á mann á óhagkvæman hátt bara til að fá fjárstreymið á þeim tímapunkti - en samt alltaf verkefni sem tengjast markaðsstarfinu.

Ég hef nokkrum sinnum á þessum tíma fengið atvinnutilboð. Góð atvinnutilboð. Og veistu, ég gæti alveg stundum hugsað mér að ráða mig í fasta vinnu, fyrir rétta starfið, rétta fyrirtækið - og síðast en ekki síst, rétta yfirmanninn (sem leyfði mér að sjálfsögðu að halda áfram að MáMast með ;)  Öll þessi störf fólu í sér einhverja markaðsvinnu, en voru samt aðallega annarskonar, verkefnastjórnun eða annað í þeim dúr. Eins ánægð og ég er að fólk skuli hugsa til mín, og vilja ráða mig - það er alveg notalegt fyrir egóið ;) - þá þakkaði ég alltaf kærlega fyrir mig en afþakkaði boðið.

Málið er nefnilega að ég veit loksins hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Ég er og vil vera markaðsnörd. Það er fullt sem ég er ekki góð í og kann ekkert í, en þetta kann ég. Í þessu er ég góð. Vegna þess að ég brenn fyrir þetta, vegna þess að ég þreytist aldrei á að pæla í markaðsmálum, læra meira og meira og mér finnst ekkert eins skemmtilegt og að sjá þegar störf mín bera árangur. Því að með því að hjálpa öðrum að efla markaðsstarfið hjá þeim, þá gerir það viðkomandi kleift að vera og að gera það sem hann eða hún vill vera og gera. Það sem að viðkomandi brennur fyrir.

Það er minn fókus. Hugmynd vikunnar er kannski freistandi, en hún passar ekki inn í vegferðina mína. Hún passar ekki inn í markmiðin mín og hún passar ekki við ástríðuna mína. Þess vegna verð ég barasta að halda áfram að vera markaðsnörd.

Hver er þín leið? Hver eru þín markmið? Fyrir hvað brennur þú þegar kemur að fyrirtækinu þínu? Hver er þinn fókus?


No comments:

Post a Comment