Facebook þetta og Facebook hitt - hvað í ósköpunum á ég að gera?!

Þú ert búinn að taka ákvörðun um að nota þetta öfluga tól sem Facebook er í markaðsstarfinu þínu. Þú skráir þig inn, ferð að skoða málið og klórar þér svo í hausnum. Á ég að stofna persónulegan prófíl, á ég að stofna síðu eða á ég kannski að stofna hóp?

Fyrir svolitlu síðan skrifaði ég bloggfærslu um að ég vildi ekki vera vinur þinn á Facebook ef þú værir fyrirtæki. Og það stendur enn. Fyrirtæki eiga ekki að vera með persónulegan prófíl á Facebook og vera að safna “vinum”. Ef þú vilt vita af hverju, lestu þá bloggfærsluna hér.

OK, það stendur. En er þá ekkert pláss fyrir persónulega prófíla í markaðsstarfi? Jú, ef að þú ert að markaðssetja þig sjálfa(n). Ertu sérfræðingur á þínu sviði? Viltu byggja upp þitt eigið vörumerki og leyfa heiminum að vita hver þú ert, hvað þú veist, hvað þú getur og af hverju þú ert æði. Þá er nýr fídus á persónulega prófílnum sem býður fólki sem ekki er vinir þínir að gerast áskrifendur að þeim statusum sem þú póstar sem “public”. Þú getur notað þetta sem öflugt markaðstól til að láta vita af þér, byggja upp sérfræðiorðspor og leyfa fólki að fá tilfinningu fyrir því hver þú ert. Allt þetta hjálpar þér að fá fólki til að líka við þig og treysta þér - nauðsynleg skref í markaðsferlinu. Smelltu hér til að fá að vita meira um áskriftir.

Facebook síðan er yfirleitt málið í markaðssetningu - og aftur vísa ég í fyrri bloggfærsluna varðandi ástæðurnar. Og hér getið þið líka séð nýlegra vídeó um nýju fídusana í Insights.

Það er hinsvegar pláss líka fyrir hópa. Það fer allt eftir því hvað þú ert að reyna að gera og hver markhópurinn er. Þarftu að fræða markhópinn þinn um eitthvað? Viltu kynnast markhópnum þínum betur? Telur þú að markhópurinn þinn hafi þörf fyrir að ræða við aðra um eitthvað sem tengst getur þínu sviði? Gefðu þeim vettvang til að ræða um það. Byggðu upp sérfræðiorðsporið með því að veita ráð og gagnlegar upplýsingar, svara spurningum og ekki reyna að selja! 

Þetta snýst um að byggja upp sýnileika, fá fólki til að líka við þig og fá fólk til að treysta þér (þegar ég segi þig þá á ég við þig eða fyrirtækið þitt ;)  Þú vilt að fólk tengi þig við þetta málefni og líti á þig sem besta aðilann til að leita til varðandi það. Það kemur til með að hjálpa sölunni síðar í ferlinu. Facebook hópur er líka snilldarleið til að kynnast markhópnum þínum betur, komast að því hvaða þarfir hann hefur og hvaða vandamálum hann stendur frammi fyrir - og aðlaga svo þjónustuna þína og vöruna til að mæta því - það er jú það sem markaðssetning snýst um ;)

No comments:

Post a Comment