Ertu að tala við mig?


Ég er mikill aðdáandi The Apprentice þáttanna - nei, ekki þessara með Donald Trump, heldur þessara með Sir Alan Sugar sem sýndir eru á BBC1 á miðvikudögum kl. 20:00 - mæli með því að þú kíkir á þá ef þú hefur aðgang að BBC1. Miklu betri en þessir amerísku.

Í gær gerði annað liðið klassísk mistök í markaðssetningu. Þau voru ekki búin að ákveða hver markhópurinn fyrir vöruna væri. OK, þau gerðu ýmis önnur mistök (leikritið var eitt!!!), en þessi voru stór og stungu mig í hjartað. Þau bjuggu til kex og kexið átti að vera fyrir alla, konur og kalla, krakka með hár og kalla með skalla! (Sjá ca. 3:58, 6:18 og 8:00 í vídeóinu)

Við vitum öll hvað það er mikill hávaði á markaðnum, og hvað það er erfitt að ná til fólks og fá það til að kaupa það sem þú býður. Það er ekki líklegt til árangurs að ætla að tala við alla. Það er eins og að standa á markaðstorginu og garga út í loftið. Það er mun áhrifaríkara að ákveða að þú ætlir að tala við þessa nokkru sem standa og skoða geisladiskabásinn, af því að þú ert að selja DVD diska með tónleikaupptökum. Tónlist höfðar augljóslega til þeirra og þeir eru því líklegri en aðrir til að kaupa DVD diskana þína. Þú getur því valið orð þín vel svo að þú höfðir virkilega vel til þeirra, náð augnsambandi og myndað samband.

Íslendingar gera allt of oft þau mistök að ætla að tala við alla. “Þetta er svo lítill markaður, bara 330 þúsund hræður, við verðum að ná öllum”. Það bara virkar ekki svoleiðis. Þú talar ekki eins við unglinginn á heimilinu og ömmu þína á Hrafnistu, er það? Þú talar ekki eins við karlmann í jakkafatavinnu með uppkomin börn eða konu á þrítugsaldri með tvö börn í leikskóla. Þú getur ekki talað við alla og náð til allra. Það er mun betra að þrengja hópinn og ná virklega vel til þeirra.

Það yndislega er að ef þú ákveður hverja þú ætlar að tala við, þá nærðu mun betur til þeirra og oft nærðu til fleiri en bara þeirra á endanum, m.a. vegna þess að þeir sem þú talar við tala svo við aðra o.s.frv.

Og ef þú ert með vöru sem virkilega á við tvo eða fleiri ólíka markhópa - jú, þá verður þú bara einfaldlega að tala til þeirra í sitthvoru lagi. Og þá þarf að hafa í hug að hópur A gæti heyrt það sem þú segir við hóp B, þannig að það verður að passa að þau skilaboð skemmi ekki fyrir hverju öðru - og það er jú dýrara, meira að halda utan um o.s.frv. o.s.frv.

Hey, ég sagði aldrei að þetta væri auðvelt ;)

No comments:

Post a Comment