Eigum við að versla heima?

Reglulega skella fyrirtæki fram auglýsingum sem hvetja fólk til að versla heima. Þetta á við bæði almennt um að versla íslenskt, eða að versla í heimabyggð.

Ég er mjög fylgjandi því, að öllu jöfnu, að versla í heimabyggð og að versla íslenskt. Ég versla alltaf heima og íslenskt þegar ég get. Ég er t.d. sérstaklega stolt af íslenska grænmetinu okkar, kaffinu hennar Addýar í Kaffitár og vörunum úr Bláa Lóninu.

En lykilorðin hér fyrir ofan eru “að öllu jöfnu”. Þ.e. ef að vörurnar eða þjónustan eru sambærileg að verði, gæðum og þjónustu, þá vel ég að versla heima. Það hinsvegar fer óstjórnlega í taugarnar á mér þegar fyrirtæki sem almennt eru ekki að standa sig í því sem þau gera, bjóða lélega þjónustu, léleg gæði og hátt verð, kvarta og kveina yfir því að viðskiptavinir snúi sér annað - og þá oft annað en í heimabyggð.

Ég þekki því miður frá fyrstu hendi of mörg svona dæmi. Ég þekki dæmi um fyrirtæki sem svara ekki tölvupóstum - jafnvel þó að um tilboðsbeiðni sé að ræða - það er verið að gefa möguleika á viðskiptum og því er ekki svarað! Fyrirtæki sem eru mun dýrari en samkeppnisaðilarnir þrátt fyrir að gæðin séu mun minni. Fyrirtæki sem maður efast um að viti einu sinni hvað samkeppnisaðilarnir eru að rukka fyrir sambærilega vöru. Fyrirtæki þar sem maður hefur á tilfinningunni að maður sé að trufla starfsfólkið þegar maður hefur samband. Fyrirtæki sem virðist bara einfaldlega vera sama. Af hverju á ég að skipta við þau?

Fyrirtæki verða að gera sér grein fyrir því að þau eiga engan guðsgefinn rétt á viðskiptum þó að þau séu jafnvel í húsinu við hliðina á mér. Þau verða að vinna sér þau inn og eiga þau skilið. Metnaðarleysi er einfaldlega ófyrirgefanlegt. Í viðskiptum lifa hinir hæfustu af. Það er engum greiði gerður með því að halda fyrirtækjum á lífi með góðgerðastarfsemi. Þegar þú stendur þig jafnvel og samkeppnisaðilarnir sem annars staðar eru - þá geturðu farið að aðgreina þig með því að leggja áherslu á að versla heima!

No comments:

Post a Comment