Hinir mörgu hattar fyrirtækjaeigandans!



Við sem eigum eða stýrum minni fyrirtækjum þekkjum þetta öll. Að vera með marga hatta á hverjum degi. Það er í mörg horn að líta og margt sem þarf að huga að, því að þó að fyrirtækið sé ekki stórt, þá er breiddin í verkefnunum oft jafn mikil og í stærri fyrirtækjum, en við erum ekki með sérstakan starfsmenn í hverri deild - hvað þá heila deild af fólki!

Ef við bætist að vera frumkvöðull að byggja upp þitt eigið fyrirtæki, þá er auðvelt að detta í þá gryfju að finnast maður þurfa að gera allt sjálfur og vita allt, því að ef maður getur jú bjargað hlutunum sjálfur þá þarf maður ekki að borga öðrum fyrir að gera þá og sparar þar með peninga. Ekki satt?

Gengur dæmið upp?


En hvað gerist þá? Gengur dæmið upp? 

Svarið er einfaldlega nei. Það getur mallað áfram. Fyrirtækið getur mögulega lifað af, en það verður aldrei meira en það. Það mun aldrei blómstra. Það mun aldrei veita þér þá ánægju sem þú leitar eftir og í stað þess að eiga og reka fyrirtæki ertu einfaldlega starfsmaður með harðasta yfirmann allra - þig! Og kulnun er mjög raunveruleg áhætta. 

Staðreyndin er sú að það er jú gott að hafa góða yfirsýn yfir allar hliðar fyrirtækisins sem maður er að stýra og skilning á því hvað hvert og eitt svið felur í sér þannig að maður geti séð heildarmyndina og hafi vit á því sem er í gangi. En maður getur ekki verið sérfræðingur í öllu og maður hefur bara 24 tíma í sólarhringnum. "One man show" er einfaldlega dæmt til að rétt lifa af - ef ekki bara dauðadæmt.

Ég hef lært þetta sjálf á eigin skinni. Jú, sumt af því sem ég hef gert í mínu fyrirtæki hefur verið nauðsynlegt fyrir mig til að átta mig á hvernig best er að gera það. Ég er jú ekki með fyrirtæki sem er að gera eins og gert hefur verið áður. Markaðsþjálfun á netinu hefur ekki verið til á Íslandi áður, og markaðsþjálfun á þann hátt sem ég er að gera hana virðist ekki vera þarna úti heldur (ekki misskilja mig, það er fullt af flottu fólki úti í hinum stóra heimi að kenna ýmislegt varðandi markaðsmálin í gegnum netið, en ég hef ekki fundið neinn enskumælandi sem er að kenna þetta á sama hátt og ég og flestir eru að kenna á ákveðin markaðstól og -tæki). Vöruþróunin og að finna út úr hinum ýmsu hlutum hefur því kallað á að ég sé innsti koppur í búri í flestum verkefnum framanaf. 

Hinsvegar get ég ekki sagt þér hvað hlutirnir fóru að gerast miklu hraðar og verða mun öflugri þegar ég lærði að fá hjálp. Í dag er ég með aðstoðarmanneskju í að sjá um ýmis dagleg verkefni fyrir mig, manneskju sem aðstoðar mig við bloggið, aðila sem aðstoðar mig með vefinn minn og annan sem er að vinna með mér í lykilorðagreiningu og leitarvélabestun. Ég er að vinna í því að koma mér á erlendan markað, sem ég hefði aldrei náð að gera annars og ég sé fram á að fá hina ýmsu aðila í hin ýmsu verkefni í framtíðinni. Ég kann margt af þessu og gæti bjargað mér - ég hef yfirsýnina og heildarmyndina - en mínum tíma er einfaldlega betur varið í að þjónusta viðskiptavinina mína með því að þróa þjónustuna og veita hana og í að markaðssetja mig.

Strategía og taktík


Það er einmitt hugsunin á bak við MáM þjálfunina að sjá stóru myndina og hafa grundvallarskilninginn sem maður þarf á markaðsmálum, geta mótað stefnuna og vita hvað maður á að gera. Ég mæli síðan ekkert endilega með því að þú græjir allt og gerir - verðir sérfræðingur í póstlistaforritum, vefgerð, öllum mögulegum og ómögulegum samfélagsmiðlum og hvað þetta allt er. Satt best að segja mæli ég eindregið með því að fá síðan sérfræðinga til að sjá um það um leið og þú hefur tök á því (sem er yfirleitt fyrr en maður heldur) - en með góðri yfirsýn og skilningi á því hvað þessi sérfræðingar sem maður kaupir þjónustu frá eru að gera þá er maður bæði upplýstari kaupandi að þjónustunni og getur haldið betur utan um heildardæmið. En heildarstefnan (e. strategy) þarf að vera þín. Aðgerðirnar (e. tactics) er svo hægt að fá hjálp með. Já, og svona fyrst við minntumst á það, þá er nýtt MáM Bootcamp að hefjast í byrjun september. Þú getur séð upplýsingar á mam.is. Skráningar hefjast fljótlega, svo það er um að gera að vera á póstlistanum til að fá að vita þegar opnað verður fyrir þær ;)

Þyrluútsýnið og skilningurinn


Það er ómetanlegt að hafa þyrluútsýnið yfir fyrirtækið (e. helicopter view ;)   og af og til er gott að hrista aðeins af sér rykið og skerpa á því. Þess vegna er ég ótrúlega spennt yfir því að vera hluti af Small Business Branding Day sem haldinn verður í Bláa Lóninu 6. september næstkomandi. Þar fæ ég nefnilega tækifæri til að fá frábæra sérfræðinga til að skoða með mér ýmsar hliðar rekstursins míns og skerpa á þyrluútsýninu. Svo veit ég líka bara að það verður hrikalega gaman, því þetta er svo frábært fólk. Komdu og vertu með - þú færð allar upplýsingar á brandit.is - já og ef þú tryggir þér sæti fyrir 20. ágúst, þá færðu líka upptökur af öllum fyrirlestrunum í kaupbæti, svo þú getur rifjað upp og dustað af rykið reglulega í framtíðinni!

Sjáumst þar!

xo

Þóranna

 Small Business Branding Day


No comments:

Post a Comment