Viltu leiða mig?

Fólki líður illa í óvissu. Því líður illa ef það veit ekki hvað það er komið út í, veit ekki hvað gerist næst, veit ekki hvert á að fara. Í markaðssetningu er algjörlega bannað að láta fólki líða illa!

Ég var að segja ykkur síðast að ég fór til kírópraktors. Mig langar að segja ykkur meira frá því hversu vel þeir gera hlutina þarna. Í fyrstu heimsókninni var mér boðið inn í lítið, bjart herbergi, með glervegg út að biðstofunni. Þar var ég beðin um að fylla út spurningalista um heilsufar og því tengt. Þegar ég var búin að því tók konan í móttökunni við listanum og kynnti mér að nú myndi hún spila fyrir mig stutt myndband. Myndbandið var mjög gott og kynnti kírópraktít, út á hvað hún gengur o.s.frv. Stuttu síðar kom svo kírópraktorinn og hitti mig.

Þegar ég kom svo aftur tveimur dögum síðar tók sama konan á móti mér og heilsaði mér með nafni! Vá, hvað það var notalegt :)   Að vera ekki bara eitthvað númer, heldur manneskja sem munað er eftir. Því næst sagði hún mér skilmerkilega hvernig ferlið væri. Hún léti mig hafa gögnin mín og segði mér í hvaða klefa ég ætti að fara, ég færi í skápinn, næði í slopp og færi svo inn, færi í eins og í fyrsta tímanum og svo þegar ég væri búin bað hún mig að setja sloppinn í skúffuna undir skápnum og koma með gögnin mín aftur til sín. Allt mjög skýrt og skilmerkilegt og góðar upplýsingar.

Að vita nákvæmlega hvernig hlutirnir ganga fyrir sig og hvers er vænst af manni gefur manni ró. Það er engin óvissa. Manni líður miklu betur.

Börnin mín hafa bæði verið á Hjallastefnuleikskóla. Ég heyrði einhvern tímann foreldra gagnrýna að á Hjallastefnuleikskólum væri allt svo stíft. Það væri allt merkt, m.a. væru örvar á gólfinu á göngunum sem segðu til um hvar maður ætti að ganga. Börnin fengju svo númeraðan ferhyrning á gólfinu í leikstofunni til að sitja á. Þetta sama foreldri vissi ekki að þetta er alveg útpælt hjá Margréti Pálu og hennar fólki. Þarna eru lítil börn í stórum heimi. Þegar þau koma fyrst inn, þá er allt stórt og nýtt og allt í óvissu. Að það sé alveg skýrt hvernig hlutirnir eru veitir börnunum öryggi og þau vita að þau eiga sinn stað í þessari stóru veröld og komi ekki til með að týnast bara. Það er ekkert öðruvísi með okkur fulltorðna fólkið á nýjum slóðum - við viljum öryggi. Við viljum vita hvað gerist næst og til hvers er ætlast af okkur. Ég hef sjálf flaskað á þessu með mína viðskiptavini - og gerði eitthvað í því. Ég vinn enn hörðum höndum að því að bæta sífellt upplýsingaflæðið til viðskiptavina minna og verkferlið í vinnunni okkar, svo að þeir viti nákvæmlega við hverju þeir megi búast, hvernig ferlið er og til hvers er ætlast af þeim. Ég veit að ég get enn gert mikið betur og ég ætla mér að gera það.

Settu þig í spor viðskiptavina þinna. Vita þeir alltaf hvernig hlutirnir ganga fyrir sig? Eru einhverjir punktar þar sem þeir gætu verið í óvissu og óöruggir. Viltu taka sjénsinn á að á þeim punkti verði það til þess að þeir hætti við að skipta við þig? Eða kannski klári í þetta sinn en komi svo ekki aftur?

Prófaðu að leika viðskiptavininn þinn og sjáðu hvort þú getur ekki fundið leiðir til að gera reynsluna eins einfalda og mögulegt er með skýru upplýsingaflæði og verkferlum.

Svo máttu alveg segja mér hvað þú uppgötvaðir ;)

Frábært fólk sem lét braka í mér!


Það er því miður ekki of oft sem maður kemst í tæri við fyrirtæki sem maður vill segja frá af jákvæðum ástæðum - en ég fann eitt í morgun. Eins og svo margir aðrir, ekki síst við stelpurnar sem búnar erum að koma í heiminn einhverjum börnum, þá er ég krónískt með í bakinu. Ég er búin að prófa ýmislegt, með misgóðum árangri, og ákvað að nú ætlaði ég að prófa að fara til kírópraktors.

Ég byrjaði að skrifa einn bloggpóst um þessa reynslu - en þegar ég var komin af stað, þá sá ég að það er svo margt sem hægt er að læra af henni að ég ætla að taka bara hvert atriði fyrir sig, almennilega - og hér er fyrsti parturinn.

Mannlegi þátturinn

Þegar ég mætti tók strax á móti mér brosmild og almennileg kona og kynnti sig með nafni. Ég var ný og hefði auðveldlega getað væflast þarna heillengi eins og illa gerður hlutur. Kannist þið ekki við að mæta einhversstaðar, láta vita af ykkur í afgreiðslunni og sitja svo og bíða þangað til þið eruð farin að spá hvort að fólk hafi gleymt ykkur? Það var sko ekkert svoleiðis hér :)

Þegar ég hitti kírópraktorinn heilsaði hann mér með handabandi og breiðu brosi og fór að fara í gegnum spurningalistann sem ég fyllti út - en spjallaði við mig um leið. Hann var léttur og skemmtilegur og mér leið strax vel í návist hans. Húmor getur verið lykilatriði í samskiptum við viðskiptavini og er allt of sjaldan notaður.

Þegar ég kom fram var konan að ljúka við að afgreiða eldri konu og spjallaði um skíðaferðir við hana, sem ég blandaði mér svo inn í og úr varð svolítið spjall. Við gengum svo frá tímabókuninni og hún kvaddi mig hlýlega. Þegar ég var að fara heyrði ég að hún ávarpaði manninn sem hafði beðið á meðan ég gekk frá mínum málum með nafni, og bauð honum tímasetningu.

Mér leið strax vel þarna. Fannst ég strax vera partur af prógramminu. Hvernig mér var tekið, með hlýju og brosum var til fyrirmyndar.

Hvernig tekur þú á móti þínum viðskiptavinum? Hvernig tekur starfsfólkið þitt á móti viðskiptavinum? Gerið þið eitthvað til að tryggja að viðskiptavinurinn finni að vel sé tekið á móti honum og vel séð um hann? Að heilsa fólki með nafni getur haft meiri jákvæð áhrif en maður áttar sig á.

Spáðu aðeins í þessu … meira síðar ;)