Markaðsferlið


Það er mikilvægt að skilja ferlið sem viðskiptavinurinn þarf að fara í gegnum áður en hann er tilbúinn að kaupa af þér. Ef þú skilur það ferli, þá ertu betur í stakk búinn til að nýta markaðsaðgerðirnar þínar og skilaboðin markvisst til að færa hann í gegnum það og að kaupum.

Fyrsta skrefið er einfaldlega að fólk viti að þú ert til - vitund. Það þýðir ekki bara að fólk hafi séð þig einu sinni eða tvisvar, það þarf að hafa virklega tekið eftir þér til að hægt sé að segja að vitund sé til staðar. Það er ansi erfitt að fá einhver til að kaupa af manni sem veit ekki einu sinni að maður er til, ekki satt? ;)

Þó svo að fólk viti að þú ert til, þá er ekki þar með sagt að það hafi áhuga. Og ef fólk hefur ekki áhuga á fyrirtækinu þínu, vörunni eða þjónustunni, þá nær þetta ekki lengra. Þú verður að vekja áhuga þeirra til að fá þau til að vera tilbúin að hlusta og taka til greina það sem þú ert að segja. Það er ekki fyrr
en áhuginn er til staðar að þau tjékka á þér, með því t.d. að koma á vefsíðuna þína eða kíkja á þig á samfélagsmiðlunum, eða með því að kíkja við í versluninni þinni næst þegar þau eiga leið hjá.

Hvað svo ef þeim líkar ekki það sem þau sjá og upplifa þegar þau tjékka á þér? Þá er þetta líka bara búið. Við kaupum ekki frá fólki eða fyrirtækjum sem okkur líkar ekki við. Það er bara svo einfalt. En alveg eins og með fólk, þá mun aldrei öllum líka við þig - og það er allt í lagi. Hey, það er fullt af fólki þarna úti sem þolir mig ekki. En það skiptir engu máli, því að það kemur til með að vera fólk þarna úti sem fílar mig. Það að vera annað hvort eða er frábært, þú vilt að fólk annað hvort elski þig eða hati þig - því að þeir sem elska þig eru þeir sem eru líklegir til að kaupa. Þeir sem hugsa bara "æi, þetta er ágætt" gætu kannski keypt af þér einhvern tímann, en þeir eru alveg eins líklegir til að kaupa af einhverjum öðrum. Þú vilt ekki að fólk noti "ugla sat á kvisti" til að velja hvort það verslar við þig eða einhvern annan og hvað þá að það fari að horfa bara í verðin - það er stórhættulegt fyrir viðskiptin.

Hefurðu einhvern tímann farið inn í verslun og ætlað að kaupa eitthvað, en skipt um skoðun þegar þú ert kominn inn? Þú ætlar ennþá að kaupa það sem þú komst til að kaupa, en þú ætlar bara ekki að kaupa það þarna. Hefurðu jafnvel keyrt bæinn þveran og endilangan til að fara og kaupa hlutinn einhvers staðar annars staðar og jafnvel borgað aðeins meira, bara vegna þess að þér líkaði sú verslun betur? Við skiptum við fólk og fyrirtæki sem okkur líkar við, svo það skiptir máli að markhópnum þínum líki við þig!

Annar mikilvægur þáttur er traust. Við þurfum að treysta fólkinu og fyrirtækjunum sem við eigum viðskipti við. Traust skiptir alltaf máli, en það hefur kannski ekki alveg jafn mikið vægi þegar við kaupum eitthvað ódýrt sem skiptir okkur litlu máli, en eftir því sem hlutirnir verða dýrari, persónulegri eða krefjast meiri skuldbindingar, þá kallar það á meira traust til að við séum tilbúin að kaupa. Þú verður þess vegna að finna markvissar aðferðir til að byggja upp traust.

Hversu mikinn áhuga sem við höfum, hversu mikið sem okkur líkar við hlutina og við treystum þeim, þá finnst okkur alltaf öruggara að fá að prófa. Prufa er því oft algjörlega nauðsynleg áður en fólk er tilbúið að kaupa. Þegar um vöru er að ræða er þetta oft einfalt mál. Þú getur farið í verslunina og skoðað vöruna, haldið á henni, jafnvel prófað hana. Það eru oft ábyrgðir og oft hægt að skila innan ákveðins tíma. Þegar um þjónustu ræðir getur þetta verið aðeins erfiðara. Það er jú eðli þjónustu að ef þú prófar hana þá ertu búinn að fá hana. Það er ekki hægt að klippa hárið aftur á, eða tæma hausinn af þeirri þekkingu sem fólk fékk á námskeiðinu. Þú þarft þess vegna að hugsa aðeins út fyrir kassann með þetta og það eru margar leiðir til að leysa þetta mál. Sumar þjónustur bjóða prufu í ákveðinn tíma (mjög þekkt í hugbúnaðarbransanum t.d.), þú getur notað myndbönd, ummæli viðskiptavina og ýmsar aðrar leiðir.

Það er ekki fyrr en fólk hefur farið í gegnum alla þessa þætti: vitund - áhuga - líka við - traust - prufu - þá fyrst komum við að sölu. Og oftast þarf að ýta aðeins við henni. Fólk er einfaldlega þannig að því finnst auðveldara að taka ekki ákvörðun heldur en að gera það, svo þú þarft að ýta við þeim að taka ákvörðunin um að kaupa - og tryggja að það sé ekkert í söluferlinu sem hægt er að hnjóta um.

Þessu lýkur ekki öllu með sölunni. Það mætti segja að þarna sé sambandið fyrst að byrja, því eðli sambandsins hefur breyst. Þetta er ekki lengur bara einhver manneskja út í bæ, þessi manneskja er núna viðskiptavinur. Þú hefur þegar leitt viðkomandi í gegnum fyrri hluta markaðsferlisins, þannig að það er bara rökrétt að halda áfram að byggja þetta samband. Þessi aðili þekkir þig, hefur áhuga á þér, líkar við þig, treystir þér og hefur prófað vöruna þína eða þjónustu. Jú, að sjálfsögðu viltu alltaf líka vera að vinna í að ná í nýja viðskiptavini til að fyrirtæki vaxi enn frekar, en ekki sleppa hendinni af þeim sem þú hefur náð til nú þegar. Finndu út hvað meira þú getur gert fyrir þá og þá nærðu ekki bara endurtekinni sölu, heldur geturðu líka fengið eitt af öflugustu markaðstólunum - tilvísanir! Þegar viðskiptavinirnir þínir mæla með þér við aðra þá vita þeir af þér og eru mun líklegri til að hafa áhuga á þér, líka við þig, treysta þér og vera tilbúin til að prófa þig heldur en aðrir. Tilvísanir geta verið ótrúlega öflugar og eru markaðstól sem þú átt klárlega að vera að byggja upp.

Spekúleraðu í því hvað þú ert að gera í markaðsstarfinu í dag og hvernig það leiðir mögulega viðskiptavini í gegnum markaðsferlið. Hvernig geturðu notað aðgerðirnar til að styðja við ferlið og leiða fólk í gegnum það að sölu, endurtekinni sölu og tilvísunum?




No comments:

Post a Comment