Efnismarkaðssetning - smá samantekt

Ég ákvað þessa vikuna að taka saman eitt og annað sem ég hef skrifað og sagt varðandi efnismarkaðssetningu (e. content marketing)

Og þú getur fundið það hér :)


Dæmi úr reynslubanka markaðsnörds

Númer 1


Viðmælandi: “Mig vantar aðstoð með markaðsmálin. Getur þú aðstoðað mig?”

Markaðsnörd: “Það eru góðar líkur á því”

Viðmælandi: “Geturðu græjað fyrir mig … [hér koma ýmsar útfærslur af hlutum eins og Facebook auglýsingum, Google auglýsingum, vefsíðu og bara svona almennt að græja hitt og þetta svona taktískt]?”.

Markaðsnörd: “Hver er markhópurinn?”

Viðmælandi: “Bara allir”

Markaðsnörd: “Hverjir eru helstu samkeppnisaðilar?”

Viðmælandi: “Ég þarf ekkert að pæla í þeim”

Markaðsnörd: “Hvernig er brand stefnan þín?”

Viðmælandi: “Brand hvað…? - ég er ekki með neitt svoleiðis”

Markaðsnörd: “Hvað hefurðu verið að gera í markaðsstarfinu hingað til?”

Viðmælandi: “Ég var með [hér koma ýmsar útfærslur af hlutum eins og útvarpsauglýsingum, blaðaauglýsingum, Facebook auglýsingum og hinu og þessu] þarna um daginn en það kom nú sosum ekkert út úr þeim”

Markaðsnörd: “Má ég leggja til að við byrjum á því að vinna grunnvinnuna, skoða markhópana þína, samkeppnina og hvaða brand þú vilt byggja upp og svo byggt á því að gera markvissa aðgerðaáætlun og prógramm fyrir markaðsstarfið þitt?”

Viðmælandi: “Getur þú ekki bara gert þetta fyrir mig?”

Markaðsnörd: “Nei því miður, við þurfum alltaf að vinna saman að þessu. Þetta er þitt fyrirtæki, sem þú þekkir manna best og veist hverjum þú vilt vinna með og hver þú ert og þ.a.l. hvernig þú vilt að fyrirtækið þitt birtist heiminum. Auk þess er dýrt að kaupa mig til að sjá um þetta í framhaldinu. Það myndi þá borga sig frekar að ráða manneskju, ef þetta er ekki eitthvað sem þú ert tilbúinn að gera sjálf(ur), og þar sem þú ert að leita til mín þá grunar mig að það sé ekki inni í myndinni.”

Viðmælandi: “Ég nenni ekkert að standa í þessu.”

Númer 2


Viðmælandi: “Mig vantar aðstoð með markaðsmálin. Getur þú aðstoðað mig?”

Markaðsnörd: “Það eru góðar líkur á því”

Viðmælandi: “Ég geri mér grein fyrir að ég þarf að hafa skilning á þessu og að þó að ég fái aðstoð við þetta, eða mögulega ráði einhvern síðar meir, þá er þetta mitt fyrirtæki og markaðsmálin það sem nær í viðskiptin. Ég vil þess vegna setja mig vel inn í þetta, þó ég fái síðan meiri hjálp með eitt og annað. Getur þú hjálpað mér með það?”.

Markaðsnörd: “Já klárlega. Besta leiðin er að þú vinnir skýra markaðsstefnu með minni aðstoð, fáir markhópana þína á hreint, skoðir samkeppnina vel, farir í stefnumótun fyrir brandið þitt og svo geturðu gert skilvirkt plan um hvaða markaðsaðgerðir þú ætla að nota og hvernig þú getur skipulagt þær þannig að þær verði sem áhrifaríkastar og hagkvæmastar.”

Viðmælandi: “Mér líst vel á það. Hvenær getum við byrjað?”

Markaðsnörd: “Þú getur ýmist byrjað núna strax og unnið sjálfsætt en þó með aðgang að mér á netinu og með ráðgjöf yfir netið ef á þarf að halda, eða þú getur verið með í Bootcamp í haust þar sem hópur fólks fer saman í gegnum þetta ferli og þannig færðu meira aðhald og stuðning bæði frá mér og hinum þátttakendunum.”

Viðmælandi: “Þetta hljómar vel. Hvernig skrái ég mig?”

Markaðsnörd: “á www.mam.is ef þú vilt byrja strax, og á www.mam.is/bootcamp ef þú vilt vera með í haust”

Viðmælandi: “Frábært - ég kýli á það”

Hvor heldurðu að sjái meiri árangur í markaðsstarfinu sínu?




Ég elska þegar fólk fílar mig ekki!



Ég hitti vinkonu mína og kollega fyrr í vikunni. Hún spurði mig hvaða viðbrögð ég hefði fengið við síðasta bloggpóstinum og tölvupóstinum sem ég sendi þeim sem fylgja mér. Ástæðan fyrir því að hún spurði var að kona nokkur hafði komið að máli við hana og var ekki alls kostar ánægð með mig. Hún vissi ekki alveg hvernig hún átti að taka því að í efnislínu tölvupóstsins sem ég hafði sent henni stóð “Ekki vera rass, … “ og nafn viðtakanda. Það var greinilegt á orðum vinkonu minnar að þetta hafði heldur betur farið fyrir brjóstið á konunni.

Vinkona mín reyndar spurði hana hvort hún hefði síðan lesið póstinn - vitandi að þá hefði hún væntanlega fattað grínið - en frúin hafði ekki gert það. O jæja …

Viðbrögð mín voru eintóm gleði. Mér fannst þetta frábært! OK - nú máttu alls ekki misskilja mig. Það var ekki markmiðið mitt að láta vesalings konunni líða eitthvað illa og mér þykir það miður. Hinsvegar er ég mjög glöð þegar einhver fílar alls ekki það sem ég geri. Af hverju? Af því að ef einhver fílar það engan veginn eru góðar líkur á því að einhver annar fíli það í botn! Og það er það sem maður vill.

Ugla sat á kvisti


Ég hef sagt það oft áður og segi það enn og aftur. Markaðssetning snýst öll um að mynda samband. Því sterkara samband sem þú* getur myndað, því líklegra er fólk til að kaupa af þér, því líklegra er það til að kaupa af þér aftur og því líklegra er það til að segja öðrum frá þér og skapa þér þannig meiri viðskipti. Þú vilt að sumir elski þig og aðrir hati þig - verum raunsæ, það eru aldrei allir að fara að elska þig! Þeir sem elska þig vilja ekki skipta við neinn annan og ef fólk fílar þig ekki þá ertu í það minnsta líkleg(ur) til að vekja umtal ;)

Ef öllum finnst þú* hinsvegar bara ágæt(ur), þá skiptirðu fólk ekki nógu miklu máli til að það velji þig framyfir einhvern annan. Ef þú ert ágæt(ur) og hinn er ágæt(ur) og þessi þarna er ágæt(ur) þá getur fólk alveg eins notað “ugla sat á kvisti” til að velja hvern það verslar við. Eða enn verra, valið eingöngu byggt á verðum - og þá fyrst fer reksturinn að verða erfiður þegar það er það eina sem maður keppir á!

*Athugaðu að þegar ég segi “þú” þá á ég við fyrirtækið þitt, vöru, þjónustu - jú eða þig sjálfa(n) ef þú ert það sem þú ert að markaðssetja.

Vertu bleik!


Þegar ég byrjaði í sjálfstæðum rekstri var ég mikið spurð hvað í ósköpunum ég væri að spá að nota þennan sterka bleika lit í markaðsefninu mínu. “Heldurðu að þetta komi ekki til með að stuða fólk?” var ég spurð, og “heldurðu að karlmenn vilji skipta við þig þegar þú notar þennan lit?”

Sjáðu til, það er mjög mjög mjööööööööög meðvituð ákvörðun að nota þennan bleika lit. Hann er fullkominn til að koma brandinu mínu til skila. Hann er eins og ég, kraftmikill, sterkur, biðst ekki afsökunar á neinu, lifandi og “in your face”. Hann er líka ólíkur litunum hjá öllum hinum sem eru á álíka markaði og ég.

Ef að þessi litur er nóg til að stöðva fólk í því að vilja vinna með mér, þá eru allar líkur á því að það fólk sé hvorteðer ekki rétta fólkið fyrir mig að vinna með. Ef liturinn stuðar einhvern, þá myndi ég væntanlega stuða þann hinn sama :)            Og ef að strákarnir vilja ekki vera memm bara af því að ég er bleik - ooo jæja, þá eru það hvorteðer ekki strákar sem ég vil vinna með ;)

Vertu þú!


Það hefur aldrei neinn náð langt á því að vera fyrir alla og þú munt ekki ná langt heldur ef þú reynir það. Vertu það sem þú vilt vera, það sem þú vilt að fyrirtækið þitt, vörur og þjónusta standi fyrir og þá muntu ekki bara ná í gegn um hávaðann og samkeppnina á markaðnum heldur muntu fyrir vikið mynda mun sterkari sambönd við fólk sem fílar þig í botn!

Kíktu hérna á Pinterest töfluna mína sem er helguð fólki, fyrirtækjum, vörum og þjónustu sem hafa afgerandi karakter sem fólk getur þá annað hvort elskað eða hatað - aðilar sem hafa hugrekki og uppskera tryggja fylgjendur í kjölfarið!: http://www.pinterest.com/thoranna/brave-brands/ - ef þú manst eftir fleirum sem eiga heima þarna, endilega láttu mig vita ;)

Brand stefnumótun er hjarta MáM þjálfunarinnar - byggðu upp brand sem fólk elskar!



Ekki vera rass - markaðsrannsóknir eru nauðsynlegar!

Ég vaknaði upp við vondan draum um daginn. Ég var að vinna með stórum hóp af fólki í markhópagreiningu og allt í einu áttaði ég mig á því að þau voru bara að skálda út í bláinn með hvernig markhópurinn þeirra væri, í stað þess að hafa einhverjar raunverulegar upplýsingar. Og það minnti mig á eitthvað sem ég veit alveg en maður á til að gleyma. Það kann ekkert okkar hugsanalestur! (Ef það er rangt, og þú kannt hugsanalestur, vertu þá endilega í bandi því mig langar miiiiiiiiiiiikið að tala við þig! :)

Ekki bara gerði ég ráð fyrir að þau vissu að þau yrðu að gera markaðsrannsóknir til að fá að vita meira um markhópinn - og gerði þar með ráð fyrir að þau læsu mínar hugsanir - heldur gerðu þau ráð fyrir að þau vissu allt um markhópinn - og gerðu þar með ráð fyrir að þau læsu hugsanir og vissu allt mögulegt um fólk sem þau höfðu jafnvel aldrei hitt!

Og hverju skiptir þetta? Jú, þetta skiptir nefnilega öllu máli. Markaðsstarfið snýst allt um að ná til fólks og mynda við það samband. Ef að þú heldur eitthvað um fólk sem ekki er rétt og talar við það byggt á því, þá er blaðrið í þér tilgangslaust - ekki satt?

Þetta er svona eins og að vera strákur og labba upp að stelpunni á barnum og byrja að reyna við hana á fullu - sem þú hefðir getað sparað þér með smá könnun sem leitt hefði í ljós að hún væri barasta ekkert fyrir stráka heldur kysi heldur fegurra kynið ;)

Það er alltaf gott að muna það sem þeir segja á engilsaxneskunni:



En þá heyrist gjarnan: “En ég er bara með lítið fyrirtæki og ég hef ekkert efni á að kaupa markaðsrannsóknir”. Veistu, það er heldur enginn að tala um að gera það. Nú verður kannski einhver fræðimaðurinn alveg tjúll, en það er betra að gera tiltölulega einfalda könnun upp á eigin spýtur sem getur gefið manni einhverjar vísbendingar, heldur en að gera ekki neitt.

Hér eru nokkrir einfaldir hlutir sem þú getur gert til að læra meira um markhópinn þinn, án þess að þurfa að veðsetja fyrirtækið!:

  • Skoðaðu gögn hjá þér: Sölutölur, viðskiptavinaskrár, dagbækur, gestabækur, bókanir og aðrar upplýsingar sem þú kannt að luma á.
  • Ræddu við framlínufólkið þitt (ef það er ekki þú), þá sem afgreiða viðskiptavininn og þjónusta hann alla daga. Hverjir eru viðskiptavinirnir þínir? Hverjir þeirra eru bestir? Hvernig eru þeir?
  • Gerðu könnun á netinu með tólum á borð við Google Forms.

  • Gerðu vettvangsrannsókn, settu saman rýnihóp eða taktu viðtöl við fólk - eða enn betra, fáðu einhvern sem þú þekkir til að aðstoða þig við það ;)

Hvað sem þú gerir, ekki gera rass úr mér eða þér - fáðu að vita hvernig hlutirnir raunverulega eru ;)

Í MáM þjálfuninni er ekki bara farið í rokna góða markhópagreiningu, heldur einnig hvernig þú getur gert markaðsrannsóknir til að fá að vita meira um markhópana þína og þú getur alltaf spurt spurninga og fengið svör og ráð í lokaða hópnum okkar á Facebook :)