Pissar þú í skóinn?

Ég er alsæl að bjóða velkominn gestabloggara á MáM bloggið. Þetta hefur staðið til lengi, en það er jú staðreynd að duglegt fólk sem hefur eitthvað að segja hefur líka mikið að gera og því hefur tekið sinn tíma að koma þessu af stað. Vonandi verður þetta bara fyrsti af mörgum skemmtilegum, áhugaverðum og gagnlegum gestabloggum.

Í dag bloggar hún Halla Kolbeinsdóttir, viðskiptastjóri hjá Hugsmiðjunni, en við Halla kynntumst haustið 2012 þegar ég vann með Hugsmiðjunni í markaðsstefnunni þeirra. Síðan þá hafa þau bara verið að rokka sífellt feitar og feitar (bókstaflega - það er fullt af tónlistarmönnum þarna ha ha ha!) og nú nýlega var bloggið þeirra tilnefnt til SVEF verðlaunannna sem besti vefmiðillinn - og það í hópi stórra og landsþekktra vefmiðla! (Ég vil nú eiga pínku oggu ponsu pons í að blogginu skuli hafa verið ýtt úr vör svo ég er extra glöð fyrir þeirra hönd ;)

Jæja, nóg blaður frá mér - et voilà - gestablogg frá Höllu í Hugsmiðjunni: 

Góður grunnur er gulls ígildi

Í okkar daglega starfi hjá Hugsmiðjunni vinnum við mikið með viðskiptavinum sem koma til okkar í leit að nýjum, betri vef.

Sumir koma til okkar því þau vita að hér eru afburða forritarar, aðrir hafa séð hönnun frá okkur sem heillar og aðrir þekkja okkur vegna vinnubragða í viðmótsforritun. Það sem færri sjá er ósýnilega undirbúningsvinnan. Grunnurinn að góðum vef.

Vinnan sparar tímann

Fyrsta fasa í vefgerð köllum við oft greiningu og hönnun. Til eru mörg afbrigði af fyrstu skrefunum: Markhópagreining, markaðsgreining, vefstefnumótun, ímynd fyrirtækisins og tónn, samkeppnisgreining o.fl. Misjafnt er eftir verkefnum hvort þurfi að ráðast í allar greiningar, en best er, ef vel á að fara, að taka skurk á nokkrum þeirra. Greining getur munað því hvort vefur er hannaður fyrir markhóp fyrirtækisins (í stað starfsmanna fyrirtækisins) og hvort auðvelt sé að nota hann eða ekki.

Við bjóðum sjálf upp á marga þætti hjá okkur, en þegar kemur að því að gera fínt hjá sjálfum sér getur hjálpað að leita utan sinna eigin veggja og fá óháða leiðsögn og ráðgjöf.

Árið 2012 vorum við hjá Hugsmiðjunni að vinna að því að koma okkar eigin vef í loftið. Það gekk svona upp og ofan þannig að við tókum á það ráð að sækja leiðsögn að utan. Við höfðum samband við MáM og eftir nokkra fundi með Þórönnu fór leiðin hjá okkur að skýrast.

Það að sjá skýrt hverjir okkar markhópar eru, hverjir samkeppnisaðilarnir eru og hvað skilur okkur frá þeim er dýrmætt. Saman unnum við að því að koma auga á hvert núverandi brand okkar var og skerpa á því sem var að virka og setja upp plan fyrir framtíðina.

Pissum í skóinn?

Ég fæ á tilfinninguna að sumum finnst þessi vinna vera óþörf. Að fólk hugsi oft „við vitum hver við erum og við hvern við erum að tala: alla - stærra net hlýtur að þýða fleiri viðskiptavinir?“ “Sleppum frekar þessari ‘aukavinnu’ og förum beint í að vinna herferðina”. “Pissum í skóinn” heyri ég bara – skammgóður vermir.

Það er sjaldan sem fleiri en einn til tveir starfsmenn eru með sýnina á hreinu. Verðmætið í að vef-, markaðs-, hönnunar- og framkvæmdastjóri séu öll á sömu blaðsíðu með sýnina er ómetanlegt. Skyndilega er hægt að tala saman út frá sömu forsendum og setja saman aðgerðaplan fyrir markaðsstarf, stefnu og hönnun. Þegar vegakortið liggur fyrir er svo mikið auðveldara að klára hönnun því þá liggja markmiðin í augum uppi. Búið er að taka út mikið af ágiskunum og „tilfinningunni“ sem mismunandi aðilar eru með. Í stað þess að meta vef út frá því sem einhverjum finnst þá er hægt að spyrja: Uppfyllir þessi hönnun markmið okkar sem fyrirtækis? Er þetta það sem markhópur X er að leita að?

Munurinn í heimsóknartölum á vefinn milli ára staðfestir þetta. Árið 2013 fengum við 140% fleiri heimsóknir en 2012. Við höfum stuðst við vinnuskjölin og markaðskerfið frá MáM sem hefur leyft okkur að taka hlutina skrefinu lengra. Það er ótrúlegt hvað markviss undirbúningur skilar miklu.



Hugsmiðjan fór í gegnum MáM þjálfunarferlið og nýtir efnismarkaðssetningu í sínu markaðsstarfi :)




Ætlarðu að skilja peningana eftir á borðinu?



Af einhverjum ástæðum hefur efnismarkaðssetning (e. content marketing) verið mér extra hugleikin síðustu daga, núna síðast bara fyrr í dag þegar ég hélt erindi um markaðssetningu á netinu fyrir Ský (Skýrslutæknifélag Íslands - sem ætti eiginlega að heita Upplýsingatæknifélag Íslands :) Ég er líka að endurvinna fjórða hluta MáM grunnþjálfunarinnar sem fjallar um val á markaðsaðgerðum og samspil þeirra til að ná sem mestum árangri. Stundum veit maður eitthvað, en eitthvað verður til þess að virkilega hamra hlutina inn (ég er viss um að þú kannast við þetta) og á meðan ég hef verið að endurvinna þetta þá sé ég alltaf betur og betur hvað efnismarkaðssetning er stór og gríðarlega mikilvægur hluti af markaðssetningu í dag - og á bara eftir að aukast.

Hvað á ég við með efnismarkaðssetningu. Hmmmmm ætli sé ekki bara best að sýna ykkur fyrsta vídeóið úr þjálfunarprógramminu mínu um efnismarkaðssetningu því ég segi það þar ;)



Nýr og endurbættur fjórði hluti MáM grunnþjálfunarinnar fjallar um markaðsferlið, samspil markaðsaðgerða (hmmmmm... þarna er nú einn góður bloggpóstur ;)  og listar svo upp hinar ýmsu markaðsaðgerðir sem standa til boða, flokkaðar eftir mikilvægi og hvað getur átt við fyrir hverskonar fyrirtæki, vörur og þjónustur og gefur dæmi um markaðsprógrömm sem hentað geta hinum ýmsu aðilum. Þegar ég fór að skoða listann bara yfir þessar helstu aðgerðir þá áttaði ég mig á því hvað efnismarkaðssetning er út um allt!

Hér eru helstu atriðin sem fyrirtæki verða að huga að í markaðssetningunni sinni þar sem efnismarkaðssetning kemur við sögu (og linkar í nokkur vídeó sem ég átti í farteskinu um sum þeirra ;)

  • Vefsíðan - ef það er ekki efnismarkaðssetning þá veit ég ekki hvað! Hvað þarf að vera á henni? Hvað er það sem fólk vill fá að vita? Hvaða virði er í henni fyrir fólk?
  • Lykilorðagreining - nauðsynleg fyrir alla efnismarkaðssetningu. Lykillinn að því að fólk finni efnið þitt þegar það er að leita að því.
  • Leitarvélabestun - sama og með lykilorðagreininguna
  • Markaðstextinn þinn (vefsíðutexti, upplýsingar á samfélagsmiðlum, og ef við á bæklingar og auglýsingar o.s.frv.) - úff hvað er það annað en efnismarkaðssetning?
  • Að ná í fjölmiðlaumfjöllun í markaðsskyni - fjölmiðlar pikka ekki upp auglýsingar frítt. Það þarf að vera vinkill, það þarf að vera eitthvað áhugavert, það þarf að vera eitthvað virði og eitthvað til að segja frá - sem er einmitt líka kjarninn í efnismarkaðssetningu.
  • Það er nokk sama hvaða samfélagsmiðil þú ert að nota - það er efnismarkaðssetning. Hvort sem það er Facebook, Twitter, LinkedIn, Pinterest, YouTube, Google+, Instagram, Tumblr ... ef fólk er ekki að fá eitthvað áhugavert sem því finnst vera virði í og er matreitt á réttan hátt fyrir það, þá getur maður hamast eins og hamstur í hjóli án þess að nokkuð gerist. Og blogg - sem má í raun flokka sem samfélagsmiðil, er náttúrulega hreinræktuð efnismarkaðssetning.
  • Póstlistinn er efnismarkaðssetning út í gegn, en fæst íslensk fyrirtæki nýta hann þannig. Flest nota hann bara til að senda út tilboð, boð á forútsölur og annað. Þar eru gríðarleg ónýtt tækifæri til að byggja upp sterkara samband við tilvonandi og núverandi viðskiptavini og fá meiri viðskipti fyrir vikið - og ekki bara við þá sem vilja fá afslátt ;)
  • Svo eru hlutir sem eru kannski ekki svo mikið notaðir á íslenskum markaði sem geta verið frábærir í markaðssetningu og eru efnismarkaðssetningartól eins og vefnámskeið og Google Hangouts Live on Air (sem maður ætti náttúrulega að nota miklu miklu meira).

Ég gæti haldið áfram lengi lengi en ég vona að ofangreint hafi a.m.k. komið því til skila að efnismarkaðssetning er hluti af markaðssetningu allra fyrirtækja, hvort sem þeim líkar það eða ekki - svo er spurning hvort þú ætlar að nota þetta frábæra tækifæri í botn til að mynda samband við viðskiptavinina þína eða, eins og sagt er "leave the money on the table". Ef þú vilt nýta það í botn, þá er MáM þjálfunin í efnismarkaðssetningu eitthvað sem þú ættir að skoða.

p.s. "shout out" til viðskiptavina minna í Hugsmiðjunni sem hafa verið að taka efnismarkaðssetninguna föstum tökum með góðum árangri - og bloggið þeirra fékk tilnefningu til SVEF verðlaunanna sem besti vefmiðillinn innan um stóra vefmiðla eins og Vísir og DV. Hrikalega stolt af þeim!

Ég hef skrifað töluvert um efnismarkaðssetningu áður, t.d. þessar þrjár færslur sem þér gætu þótt áhugaverðar ef þú hefur ekki lesið þær nú þegar:

Ekki byggja á sandi

Gefðu, gefðu og gefðu meira

Sköpun og skipulag



Þýðir eitthvað að vera að markaðssetja á Facebook lengur?

Ertu að markaðssetja á Facebook?

Ef svo er, þá hefurðu væntanlega tekið eftir því þegar þú horfir á tölurnar fyrir Facebook síðuna þína að póstarnir þínir eru að ná til sífellt færra fólks - eða hvað? Það hafa margir verið að taka eftir þessu núna í nokkurn tíma - og nei, það er ekki bara það að fólk hafi verið minna á Facebook í kringum hátíðarnar og sjái þess vegna minna af því sem þú póstar.

Facebook hefur sagt það bara hreint út að nú sé ekki lengur hægt að treysta á að ná til fólks frítt í gegnum Facebook síður og mæla með því að nota keyptar auglýsingar. Þetta ætti sosum ekki að koma neinum á óvart. A: Þeir eru jú í bissness og tekjurnar þeirra koma af auglýsingum og B: Það flæðir ógnarmagn af póstum á Facebook og þeir verða einhvern veginn að velja það sem þeir birta hjá fólki þannig að fólk sé að fá það sem það vill sjá - því annars yrði það fljótt að fara bara (og þá væri Facebook ansi gagnslaust markaðstól). Fólk sér ekki allt sem þeir sem það tengist á Facebook pósta - Facebook velur úr.

Þú getur séð nokkrar fleiri greinar um þessar Facebook breytingar hér fyrir neðan ef þú vilt kafa ;)

Hvað skal þá til bragðs taka? Eigum við að hætta bara að nota Facebook eða er eitthvað sem við getum gert til að vinna með þetta? - já, það getum við. Hér eru 7 atriði sem eru nauðsynleg til að fá sem mest út úr Facebook í dag:

Númer 1
Póstaðu efni sem fólk hefur áhuga á og gerir eitthvað með. Ef ég líka við, skrifa ummæli við eða deili pósti frá einhverjum (hvort sem það er manneskja eða síða) þá sýnir Facebook mér meira frá viðkomandi. Það þýðir að við þurfum að vera með efni sem fólk virkilega hefur áhuga á til að auka árangurinn af því sem við gerum frítt á síðunni okkar. Og hvernig getum við tryggt það? jú...

Númer 2
Við verðum að vita við hverja við viljum vera að tala. Þetta þýðir að við þurfum að vera mjög skýr á því hverjir markhóparnir okkar eru og við verðum að þekkja þá og skilja eins vel og mögulegt er svo við getum höfðað til þeirra. Facebook er samfélagsmiðill - hver vill vera í félagsskap með einhverjum sem leggur sig ekki fram um að þekkja mann eða skilja og er þess vegna bara að blaðra um eitthvað sem maður hefur engan áhuga á? - neitt frekar en maður talar við gæjann í partýinu sem talar bara um sig og hefur engan áhuga á þér ;)   - þetta er ein af ástæðunum fyrir því að markhópagreining er svona stór hluti af MáM þjálfuninni.

Númer 3
Þú þarft að vera áhugaverð(ur). Alveg eins og Michelin matreiðslumeistarar gera ekki bara góðan mat, heldur kunna líka að bera hann fram þannig að hann veki athygli, þá þarftu að huga að því hvernig þú birtist fólki. Hafðu karakter, vertu afgerandi, og hafðu samræmi. Það er þetta með brandið sem ég hef svo oft minnst á og þú getur fundið ýmislegt meira um hér á blogginu og brandið er líka mikilvægasti hluti MáM þjálfunarinnar ;)

Númer 4
Þú þarft að taka efnistökin þín, gerð efnisins og dreifinguna föstum tökum. Það er að ýmsu að huga. Þarna kemur inn eitt og annað er varðar efnismarkaðssetningu (e. content marketing). Ef þú græjar þetta ekki, þá verður mjög erfitt að vera alltaf að senda frá sér efni sem höfðar til hópsins og verkefnið verður óyfirstíganlegt fjall. Ég hef líka talað töluvert um efnismarkaðssetningu hér á blogginu og gert sérstakt MáM prógramm um hana.

Númer 5
Lærðu að nota Facebook auglýsingar almennilega til að styðja við það sem þú ert að gera á Facebook og annars staðar. Það er ótrúlegustu hluti hægt að gera með Facebook auglýsingum. Þú getur miðað auglýsingar á þá sem hafa lækað ákveðnar síður, þú getur keyrt inn netfangalista og auglýst bara á þá sem eru með þau netföng á Facebook, þú getur fundið “lookalike audiences” - þ.e. auglýst bara á fólk sem líkist hópnum sem er þegar á síðunni þinni o.fl. o.fl. Með allt sem snýr beint að Facebook, eins og auglýsingar, þá fer ég beint til hennar Amy - þú getur fengið að vita allt um það á www.mam.is/facebook

Númer 6
Það er ódýrara að auglýsa á þá sem eru búnir að læka síðuna þína heldur en aðra, svo að það er ennþá gott að hafa fullt af fylgjendum á síðunni - en það er tilgangslaust ef það eru ekki réttu fylgjendurnir (sjá nr. 2!). Allskonar like leikir, like-deila-kvitta og þá geturðu unnið iPad eða eitthvað bladí bla eru ekki bara leiðigjarnir og pirrandi, heldur draga að sér allskonar fólk sem hefur í rauninni engan áhuga á því sem þú hefur að bjóða og eru ekkert að fara að leiða til viðskipta - gerðu það fyrir mig - ekki gera það ;)

Númer 7
Náðu fólkinu þínu lengra. Ekki nota bara Facebook til að vera með þeim á Facebook. Notaðu Facebook til að ná til þeirra og hefja sambandið. Fáðu þau svo til að vera memm á póstlistanum þínum þar sem þú getur verið reglulega í sambandi án þess að borga fyrir hvert skipti. Fólk les kannski ekki alla tölvupóstana sem þú sendir, en alltaf einhverja, og eru minnt á þig í hvert skipti sem þú ert í pósthólfinu þeirra. Athugaðu þó að atriði 1.-4. hér fyrir ofan gilda alveg jafnt fyrir póstlistann þinn og Facebook. Athugaðu líka að póstlistamarkaðssetning hefur ýmsar reglur sem þú verður að kynna þér áður en haldið er af stað og það er ákveðin list að gera hana vel - fólk getur jú alltaf afskráð sig - meira um þetta síðar. Ég er einmitt að fara að bjóða upp á frábært námskeið í póstlistamarkaðssetningu á næstunni og besta leiðin til að fylgjast með hvenær það kemur er … jú að skrá sig á póstlistann! ;)


Hvað segir þú? Hefurðu fundið fyrir þessum breytingum hjá Facebook og hvað ætlar þú að gera í málunum?


Ef þú vilt lesa meira um þetta:




Ertu kominn af stað í ræktina?

Við könnumst öll við það að fá nóg af leti og áti eftir hátíðarnar. Nú skal sko tekið á því, farið í ræktina, bara borðað gras og grænmeti (eða rjómaostur og beikon ef maður skellir sér í LKL :) Kannastu ekki við þetta? Að rjúka af stað í ræktina, taka vel á því í smá tíma og svo smám saman fjarar þetta út? Eða ertu kannski í duglega hópnum sem heldur þetta út jafnt og þétt all árið um kring? Ef svo, þá óska ég þér til hamingju! Taktu nú það hugarfar og notaðu það í markaðsstarfinu!

Markaðsstarfið er nefnilega alveg eins. Mjög oft rýkur fólk til og ætlar nú heldur betur að taka á málunum - rífa upp söluna. Þetta er gjarnan á sömu tímum og ræktin eða skólabyrjunin, þ.e. í lok ágúst og í september, rétt fyrir jólin (jamm - ég veit!) og svo aftur eftir jólin. Þegar fer að vora róast allt og mætti halda að enginn ætli að selja neitt. En veistu, þetta er alveg eins með markaðsstarfið og ræktina…

Ef ég mæti í ræktina einn mánuð á ári og hamast eins og brjálæðingur, mæti 6 sinnum í viku í 3 tíma í einu - kemst ég þá í form? Í rauninni ekki. Það er líklegra að ég geri út af við mig. Ég kemst í áttina og svo dettur þetta allt niður og ég þarf að byrja á sama stað aftur næst. Það er alveg eins með markaðsstarfið. Það þýðir ekkert að rjúka af stað með flugeldasýningu með löngu millibili og gera svo ekkert þess á milli - þá kemst markaðsstarfið aldrei í form.

Kunningi minn kom líka með aðra skemmtilega líkingu hvað þetta varðar. Hann hefur mikið unnið með bændum í gegnum tíðina. Hvernig ætli það væri ef bóndinn færi bara og mjólkaði kýrnar duglega einu sinni í mánuði? Eða gæfi dýrunum bara einu sinni yfir vetrartímann? Hrúgaði bara vel í ílátin og léti svo duga? Hvernig myndi það ganga? - það myndi náttúrulega ekkert ganga. Það er bara svoleiðis að það verður að mjólka á hverjum degi, það verður að gefa á hverjum degi, sama hvað tautar og raular. Sama hvort manni finnst það skemmtilegt eða leiðinlegt. Sama hvort það er mánudagur eða sunnudagur, aðfangadagur eða páskadagur.

Þetta er alveg eins með markaðsstarfið. Það þarf alltaf að vera að. Auðvitað tek ég þér fagnandi ef þú skellir þér í MáM þjálfun hjá mér núna á nýju ári og það er frábært skref í rétta átt. En það gerir hinsvegar ekkert að massa þetta í janúar og hætta svo í febrúar. Og það gerir heldur ekkert að kaupa áskrift og gera svo ekkert við hana - það er svona eins og með styrktaraðila líkamsræktarstöðvanna ;)  Málið er bara að mig langar ekkert í neina styrktaraðila. Mig langar að hjálpa þér að byggja upp öflugt markaðsstarf sem skilar þér góðum viðskiptum og góðum rekstri. Það gerist ekki á einni nóttu. En ef þú ert til í að vera memm í ræktinni reglulega, þá verð ég voðalega glöð að sjá þig :)