Ég hef fengið áminningu...


Ég er búin að vera að kenna mikið sl. mánuðinn úti um hvippinn og hvappinn. Skrifa einmitt þennan bloggpóst sitjandi í kennslustofu Visku, símenntunarmiðstöðvar Eyjamanna eftir að siglingunni heim með Herjólfi hefur verið frestað vegna veðurs.
Útsýnið úr kennslustofu Visku yfir höfnina í Eyjum, þaðan sem ég skrifa
þetta á meðan ég bíð eftir að Herjólfur komist með mig í land fyrir roki :)

Á hluta af þessum ferðum mínum hef ég þurft að gista á hinum ýmsu stöðum, svo ég hef verið að skoða hina ýmsu kosti á netinu. Í þeirri leit minni hef ég oft verið minnt á margt af því sem fræðin segja og ég hef verið að reyna að kenna þeim sem koma til mín, þar sem maður hefur séð bæði dæmi um hluti sem eru frábærlega vel gerðir, og mjög mjög illa. Hér eru 3 stór atriði sem ég hef verið minnt á í markaðsstarfinu í leit minni að gistingu:

Vertu öðruvísi en hinir

Þegar ég fer inn á síðu sem sýnir mér fullt af mögulegum gististöðum, og þeir virðast allir vera eins, hvað vel ég þá? Jú, ég set einhver ákveðin skilyrði (ég t.d. vil hafa mitt eigið baðherbergi og ég þarf internettengingu) og þegar ég hef vinsað úr þau sem ekki uppfylla það, þá standa einhverjir möguleikar eftir. Og hvað þá? Í flestum tilfellum einfaldlega verð. Nema að einhver þeirra skeri sig úr. Sé áhugaverðari en hinir.  Þetta er m.a. það sem gerðist þegar ég var að leita að gistingu á Höfn.

Ég var búin að útiloka einhverja möguleika m.a. byggt á ofangreindu og hentugri staðsetningu og af þeim sem eftir stóð var einn staður sem var margfalt girnilegri en hinir – og greinilega var ég ekki ein á þeirri skoðun því þar var uppbókað. Hvað var það sem heillaði svona við þennan stað? Jú, hann var ekki bara öðruvísi, heldur virðist hann, af myndunum að dæma, hafa karakter. Hann höfðaði til manns af því hann er sérstakur.

Í umsögn um ákveðinn gistiaðila sagði einhver einhverstaðar „nothing to write home about“. Þá er ég heldur ekkert að velja þann stað fram yfir annan. Vertu eitthvað sem fólk vill skrifa heim um, eitthvað sem fólk langar í. Eitthvað sem fólk vill tala um og segja frá – hvort sem þú ert með gistiheimili, veitingastað, hönnun eða hvað sem þú ert með. Ekki vera eins og allir hinir.

Myndir segja meira en mörg orð

Hefurðu prófað nýlega að fara inn á bókunarsíður fyrir gistimöguleika? Hvort sem það er á sveit.is (Ferðaþjónusta bænda), bookings.com, hotels.com eða TripAdvisor, þá sérðu endalausar myndir af húsum að utan og tómum herbergjum. Og þetta rennur allt saman í eitt. Jú, auðvitað viltu sýna húsið að utan og hvernig herbergin líta út, sem hluta af því að gefa fólki hugmynd um hvað það er að kaupa, en þú verður líka að finna leið til að standa út úr röðum og röðum af möguleikum, og þú vilt að fólk langi til að gista hjá þér.

Finndu leið til að draga fólk inn með einhverju áhugaverðu og öðruvísi myndefni og sýndu svo húsið og herbergin með - og hafðu þær myndir fallegar. Alveg það sama gildir um svo margt annað, veitingastaði, snyrtistofur, hinar ýmsu vörur o.s.frv. o.s.frv. Þarna geta myndir gert gæfumuninn.  Ekki bara myndefnið, heldur hvernig þær eru teknar og ekki síður hvernig þær eru unnar. Hvað sem þú ert að markaðssetja, það er þess virði að fá fagmann í að taka myndirnar og vinna þær því þær skipta gríðarlega miklu máli!

Ekki vera týndur!

Ég hef löngum predikað virði tilvísana sem markaðstóls. Ef einhver mælir með einhverju við þig, þá ertu almennt mun líklegri til að kaupa það sem mælt er með en annað. Það er samt ekki nóg.

Í leit minni að gistingu á Höfn bað ég vinkonu mína sem býr í nágrenninu um meðmæli. Hún mælti með ákveðnu gistiheimili svo ég fór á stúfana að athuga með það. Ég fann ekkert um það á vefsíðunni visitvatnajokull.is, sem er upplýsingavefsíða um svæðið, fyrir ferðamenn. Ég fann ekkert á sveit.is né booking.com en fann að fjallað hafði verið um þetta á Lonely Planet. Ég fann enga vefsíðu fyrir gistiheimilið, og það var ekki skráð á ja.is! Loks fann ég netfang (sem var á almennu léni sbr. simnet, internet, hotmail, gmail o.þ.h. – það er aldrei mjög trausvekjandi þegar um fyrirtæki er að ræða) og símanúmer. Ég hringdi í símanúmerið og það svaraði ekki. Ég hefði aldrei hringt einu sinni nema af því að mælt hafði verið með því, en þetta endanlega fór út í veður og vind þegar það var ekki einu sinni svarað í símann.

Vertu þar sem fólk er að leita að þér. Finndu út hvar það er fyrir þinn bransa og tryggðu að fólk finni þar hluti sem fá það til að vilja skipta við þig. - já og svaraðu síma og tölvupósti :)


Fræðin segja, og ég vissi sosum, að í markaðssetningu er mikilvægt að vera öðruvísi, hafa góðar myndir og finnast þegar fólk leitar að manni en það áhugavert þegar maður sér það svona skýrt í raunveruleikanum. Hvernig eru myndirnar þínar? Finn ég þig ef ég leita að þér? Athugaðu málið ;)

Er varan þín eða þjónusta nógu frábrugðin hinum á markaðnum þínum? Ef ekki, þá er ráð að fara í gegnum MáM þjálfunina til að finna út hvernig þú ætlar að skera þig úr á þínum markaði ;)





Því miður, ég get ekki hjálpað þér...



Í nóvember og desember fæ ég oft símtöl eða tölvupósta frá fólki í kvíðakasti, biðjandi mig um aðstoð við að selja vöruna þeirra eða þjónustu fyrir jólin. Svona ca. kerter í jól :)  Svo ég ætla núna að skrifa bloggpóst til að fræða þig, og sem ég get hreinlega sent hlekk í næst þegar ég fæ svoleiðis beiðni :)

Svarið er einfalt: “Því miður, ég get ekki hjálpað þér”. Það er ekki til nein töfralausn í markaðssetningu sem virkar á örfáum dögum eða vikum. Ef þú hefur ekki sinnt markaðsstarfinu þínu almennilega hingað til, byggt það upp og lagt inn í bankann, þá þýðir ekki að ætla að rjúka til núna og ætlast til að markaðsstarfið skili árangri á nokkrum vikum fyrir jól. Að ekki sé nú talað um að ætla markaðsstarfinu að ná athygli á þessum árstíma þegar allir eru að garga á alla um að kaupa þetta og kaupa hitt - maður einfaldlega drukknar í hávaðanum.

Það er núna sem þeir uppskera sem sáðu fyrir löngu síðan og rækta stöðugt markaðsgarðinn sinn. Þeir sem hafa byggt upp sambandið við markhópinn sinn. Þeir sem hafa leitt fólk í gegnum markaðsferlið nú þegar, eru búnir að byggja upp vitund, eru búnir að byggja upp áhuga, hafa fengið fólk til að líka við sig. Hafa byggt upp traust og hafa gert fólki kleift að prufa vöruna sína eða þjónustuna á einhvern hátt svo að fólki finnist það vita hvað það er að fara að kaupa. (Ef þú hefur ekki enn séð vídeóið mitt um markaðsferlið, smelltu hér til að kíkja á það ;)

Ég gekk inn í Hagkaup um daginn og við mér blasti standur með Vísindabók Villa. Um leið og ég sá hana þá vissi ég að ég myndi kaupa a.m.k. eitt, ef ekki fleiri eintök, til að gefa í jólagjafir. Hvað bókina varðar, þá rauk ég í gegnum markaðsferlið á innan við mínútu. Ég sá hana og vissi því af henni, hún vakti strax áhuga, mér líkaði við hana og treysti því að hún væri þess virði að kaupa. Ég kíkti á hana, sem kom mér yfir prufuferlið, et voilà, ég var tilbúin að kaupa. Eða hvað….?

Sannleikurinn var sá að ég hef verið að fylgjast með Villa í mörg ár. Börnin mín hafa setið stjörf yfir öllum bíómyndunum hans með Sveppa, og þegar þeir hafa birst saman í sjónvarpinu um helgar í gegnum tíðina. Ég hef hlustað á spurningaþáttinn hans í útvarpinu á sunnudögum og fór með dóttur mína á Karíus og Baktus með Naglbítunum fyrir mörgum árum síðan. Ég hef vitað af Villa í mörg mörg ár, haft áhuga á því sem hann hefur verið að bralla og líkað við hann. Ég hef séð aðra hluti sem hann hefur gert, og treysti honum þess vegna til að gera góða hluti og það var auðvelt að prufa bókina - ég bara blaðaði í sýningareintakinu. Villi hefur lagt inn hjá mér í mjög langan tíma og þess vegna er hann að uppskera núna með sölu á bókinni sinni.

Ef þú ert ekki þegar farinn að rækta markaðsstarfið þitt, þá er of seint í rassinn gripið að ætla að gera það núna til að fá sölu fyrir jólin. Þú getur hinsvegar tekið þá ákvörðun að ætla að taka þetta föstum tökum og tryggja að þú sért ekki í sömu sporum næstu jól. Það er t.d. tilvalið að skella sér núna á MáM þjálfunina í markaðsmálum til að tryggja að næstu jól verði sérstaklega gleðileg! Ef þú tryggir þér áskrift fyrir jól færðu einn mánuð í bónus, auk þess sem þetta er síðasti sjéns til að fá þjálfunina með sérsniðinni skýrslu frá mér með tillögum að markaðsaðgerðum og sem kemur markaðskerfinu þínu af stað (þjálfunin breytist aðeins eftir áramótin ;)

Smelltu hér til að fá að vita meira um MáM þjálfunina!

xo

Ég elska hann Pablo :)



Ég gekk einu sinni inn í verslun að leita að kuldabuxum á dóttur mína. Þegar ég kom inn var ekki nokkur sála sjáanleg. Eftir smá stund kemur fram maður og þegar ég spyr hann hvort hann eigi kuldabuxur á svona stelpuskottu þá bendir hann lufsulega út í eitt hornið og segir: "ef þær eru til þá eru þær þarna". Því næst tók hann upp dagblað og hóf að lesa það! Ég hvorki fann kuldabuxur, né, ef ég hefði fundið þær, held ég að ég hefði keypt þær. Ég meina - átti ég að gera þeim það til geðs að borga þeim peninga fyrir 0% þjónustu?

Ég var í Ameríkunni núna í byrjun nóvember. Sem er sosum ekki í frásögur færandi, nema að ég kíkti í svona kannski eina eða tvær búðir (eða svo, hmmmm ;) - og ég fékk menningarsjokk! Jákvætt menningarsjokk! :)

Við konurnar könnumst flest allar við það að það leiðinlegasta sem maður getur verslað sér er gallabuxur. En við látum okkur hafa það, því að þó að það sé leiðinlegt að versla þær þá notum við þær í botn og þær eru náttúrulega bara æðislegar - sérstaklega ef maður dettur niður á gott par sem fer manni vel. Svo ég ákvað, þar sem þarna í Ameríkunni var þessi fína gallabuxnabúð með góð verð, að nú skyldi ég versla mér gallabuxur.

Með hjartslætti og kvíða fór ég inn. Ég horfði ráðvillt á hillur eftir hillur eftir hillur af gallabuxum og taldi í mig kjark. Kemur þá að mér ungur maður, voða sætur og hress, og býður fram aðstoð sína. Ég greip hann náttúrulega fastataki. Hann spurði mig eftir hverju ég væri að leita, mælti með sniðum, litum, sagði mér að ég þyrfti að passa að þó ég væri með sama sniðið þá gæti nú þurft mismunandi stærð eftir því hvaða litur væri á gallabuxunum því efnið væri aðeins öðruvísi og ég veit ekki hvað og hvað. Svo valdi hann nokkrar buxur fyrir mig að prófa, fór með mig inn í mátunarklefa og beið á meðan ég mátaði. Lét mig koma fram, skoðaði mig í bak og fyrir og sagði mér hvað gekk, hvenær ég þyrfti aðra stærð, (hann m.a.s. sagði nokkrum sinnum að ég þyrfti minna númer - og hvaða kona elskar ekki að heyra það!). Hann fór og náði í aðrar stærðir þegar þurfti og bara hreinlega snérist í kringum mig eins og skopparakringla. Þetta var hann Pablo og ég er ástfangin af honum. Ekki eins og manninum mínum (enda hefði Pablo líka meiri áhuga á manninum mínum en mér ;)  en OMG, ég væri til í að klóna litla útgáfu af honum og geta haft hann með mér í vasanum alltaf þegar ég fer að versla gallabuxur. Honum tókst að gera gallabuxnamátun og -kaup ánægjuleg og það er afrek út af fyrir sig!

Þessi verslun er í Ameríku (Levi's í Wrentham Outlet fyrir utan Boston ;) og ég hef þegar lofað sjálfri mér því að þangað fer ég aftur. Ég keypti mér þrennar buxur - sem ég elska - og mun ábyggilega kaupa mér aðrar þrennar þegar ég fer næst. Ég segi öllum heiminum frá þessu ... ég er eitt stykki himinlifandi og brjálæðislega ánægður viðskiptavinur!

Allt of oft þegar maður kemur inn í verslun hérna á blessuðum klakanum, þá fær maður á tilfinninguna að maður sé að trufla starfsfólkið. Bölvað vesen er þetta á manni að vera eitthvað að þvælast þarna inn og skoða og kannski barasta kaupa eitthvað. Þetta er náttúrulega ekki algilt, ég hef alveg fengið svaka góða þjónustu í íslenskum verslunum, en þetta er því miður algengara en hitt. Hvernig í ósköpunum getum við kvartað yfir því að fólk versli ekki hjá okkur þegar þetta er viðmótið sem fólk fær? Nei takk - hingað og ekki lengra. Taki það til sín það íslenska verslunarstarfsfólk sem á það, rífið ykkur upp á rassgatinu og farið að vinna fyrir laununum ykkar. Já og vitiði, bónusinn er að það verður líka bara miklu skemmtilegra í vinnunni því það verða allir svo glaðir :)

Átt þú sögu af góðri þjónustu einhverstaðar sem þú vilt deila með okkur? Segðu okkur endilega frá! :)





Af hverju dó Europris?

Munið þið eftir Europris? Þessum allt muligt verslunum sem maður fékk bæklinga frá inn um lúguna reglulega. Europris hætti starfsemi á Íslandi á síðasta ári.

Ég vil byrja á því að taka fram að ég veit alls ekki af hverju Europris hætti og þekki ekki til fyrirtækisins á nokkurn hátt annan en að hafa fengið bæklingana þeirra inn um lúguna og hafa farið nokkrum sinnum þarna inn. Hinsvegar hef ég mínar theoríur og mig langar að nota þær til að undirstrika ákveðna hluti sem skipta máli í markaðsmálunum.

Ég er á því að vandamálið við Europris hafi verið að maður vissi aldrei hvað Europris var. Jú, lágvöruverslun, en lágvöruverslun með hvað? Ég man eftir að hafa komið nokkrum sinnum þarna inn og það voru aldrei sömu vörurnar til. Þú gast ekki treyst því að eitthvað sem þú sást þarna í síðasta mánuði væri til þegar þú kæmir í næsta mánuði.

Ef mig vantar brauð og mjólk, þá veit ég að ég get farið t.d. í Nettó eða Bónus. Ég get treyst því að ég fái það þar. Ef mig vantar úlpu þá veit ég að ég get farið t.d. í 66 Norður eða Cintamani. Ef mig vantar bækur, þá fer ég í Eymundsson eða á Amazon. En þannig var það ekki með Europris. Maður gat aldrei gengið að því sem vísu að maður fengi það sem maður var að leita að. Maður vissi aldrei hverskonar búð þetta var. Ég vissi aldrei í hvaða skúffu í skjalaskápnum í hausnum á mér ég átti að flokka hana. Var þetta matvöruverslun? Já, en nei – ég gat klárlega ekki keypt alla matvöru sem mig vantaði. Var þetta fataverslun? Já og nei, eitthvað smá en þó ekki. Var þetta útivistarverslun? Hmmm stundum og stundum ekki.

Ég hafði bara aldrei hugmynd um hverskonar verslun þetta var. Og ef maður veit ekki í hvaða hólf eða skúffu maður á að flokka eitthvað, þá geymir maður það hvergi og man þess vegna ekki eftir því þegar maður vantar eitthvað sem þessi aðili gæti haft að bjóða. Og hvað Europris varðar þá vissi ég aldrei hvort þeir hefðu það sem mig vantaði.

Mig grunar nú samt að margir sakni þeirra. Ég man að amma fékk þarna eitthvað garn sem hún fílaði í botn. Við keyptum einhvern tímann eitthvað partýtjald þarna og þarna kenndi ýmissra grasa. En þetta er eitt skýrasta dæmið sem ég hef séð um hversu mikilvægt er að fólk viti hver þú ert og hvað þú gerir og geti treyst því.

Hvað finnst þér? Verslaðir þú í Europris? Saknarðu hennar?