Kanntu að segja nei?



Við erum flest í hjarta okkar gott fólk. Flest okkar vilja allt fyrir alla gera og það er náttúrulega voðalega gott. En þegar kemur að fyrirtækinu þínu þá er það eiginlega barasta dauðasynd! Ha? Jú, sjáðu til.

Í hverju ertu góð(ur)? Af hverju? Það er venjulega þannig að maður er góður í því sem maður nýtur þess að gera og maður nýtur þess að gera það sem maður er góður í. Þetta helst í hendur – eggið og hænan.
Svo stofnar maður fyrirtæki til að gera það sem maður er góður í. En það er ekkert auðvelt. Það er að mörgu að huga og það tekur tíma að byggja hlutina upp. Maður er mjög mjög mjög meðvitaður um að maður þarf á tekjum að halda. Án þeirra gengur þetta jú ekki. Svo maður fer að taka hliðarspor. Grafíski hönnuðurinn sem vill vera í að gera brand útlit samþykkir að gera útsölubækling fyrir lágvöruverðsverslun. Fatahönnuðurinn sem vill hanna eigin galakjóla tekur að sér að breyta jakkafötum. Og markaðsráðgjafinn sem elskar að vinna með stefnu og brand samþykkir að veita ráðgjöf við uppsetningu á Facebook síðu og AdWords auglýsingum.

Og hvað gerist?

  1. Maður verður hundfúll að vera að gera eitthvað sem maður vill ekki vera að gera.
  2. Maður gerir hlutina ekki eins vel af því að maður nýtur þeirra ekki, sem bitnar á gæðum vinnunnar og ánægju viðskiptavinarins – að ekki sé minnst á hvað það er erfitt að eiga jákvæð og góð samskipti við einhvern sem er að biðja mann að gera eitthvað sem maður vill ekki gera.
  3. Maður verður þekktur fyrir að gera allskonar hluti sem maður vill ekkert vera þekktur fyrir og það dregur að sér fleiri svoleiðis verkefni en ekki þau sem maður vill vera þekktur fyrir.
  4. Maður hefur engan tíma til að gera það sem maður vill gera, það situr bara á hakanum, og loksins uppgötvar maður að maður hefur ekki komið nálægt því í lengri tíma.
  5. Maður verður þekktur fyrir að gera allskonar, en ekki bara eitthvað ákveðið, og þá er maður bara allskonar maðurinn en ekki „sérstaklega góður í þessu“ maðurinn – og hver heldurðu að fái draumaverkefnin þegar þau koma upp? Jep, „sérstaklega góður í þessu“ maðurinn.

Ég er búin að vita þetta lengi lengi í hausnum. Þetta er allt í fræðunum. En ég er alltaf að læra þetta betur og betur á eigin skinni. Þess vegna fókusera ég á markaðsstefnuna, brandið og að velja tólin til að byggja það upp.

Ég kann ágætlega á Facebook, en ég vísa þeim sem vilja læra á það á hana Amy vinkonu mína, sem er Facebook sérfræðingurinn.

Ég kann ágætlega á LinkedIn, en ég vísa þeim sem vilja massa LinkedIn á Lewis vin minn.

Ég kann ansi vel á Pinterest – var m.a.s. með mitt eigið námskeið á netinu í að nota það, en Melanie vinkona mín er sérfræðingurinn, svo ég vísa fólki sem vill læra á Pinterest til hennar.

Já og YouTube og vídeó í markaðssetningu. Kann eitt og annað, en ekki nærri eins mikið og hann James félagi minn.

Ég er hætt að taka að mér verkefni á þessum sviðum því þau taka frá mér tíma og orku til að gera það sem ég er best í og elska að gera, og taka allan fókusinn úr brandinu mínu og veikja það.

Á ensku er talað um „Jack of all trades, master of none“ – og þegar fólk vill láta gera eitthvað almennilega þá vill það meistarann. Þú getur ekki verið meistarinn í öllu. Veldu þitt svið, haltu þig við það og ég lofa að ef þú heldur það út þá muntu uppskera eins og þú sáir ;)




Hvar er þetta fólk eiginlega?!



Átti frábæran laugardag að mentorast á Startup Weekend Reykjavík. Mæli eindregið með því að allir kynni sér hana og séu með þegar tækifæri gefst til. Hún er almennt haldin í Reykjavík á haustin, en þú getur fundið Startup Weekend  víðsvegar um landið á ýmsum tímum – og víðsvegar um heiminn.

Þarna hitti ég fullt af flottu fólki að vinna að fullt af flottum verkefnum og ég er mjög spennt að fylgjast með framhaldinu. Ein af þeim sem ég talað við þarna var nýbúin í námi og var að hefja fyrstu skref í ráðgjafastarfsemi í sínu fagi. Hún hafði samviskusamlega lesið pistlana mína og gerði sér vel grein fyrir því að hún þyrfti að skilgreina markhópinn sinn. Vandamálið var bara að hún hafði ekki hugmynd um hver draumaviðskiptavinurinn væri, eða hvernig henni líkaði best að vinna með viðskiptavinunum sínum, vegna þess að hún var algjörlega að byrja og hafði ekkert unnið við þetta áður með þessum hætti. Svo mér datt í hug að fleiri kynnu kannski að njóta góðs af því sem við ræddum á laugardaginn :)

Ég var að mörgu leyti í sömu stöðu þegar ég byrjaði. Ég vissi að ég vildi vinna með aðilum sem ekki hefðu sérfræðiþekkingu í markaðsfræðunum en þyrftu að bæta markaðsstarfið og ég hafði mínar hugmyndir um hvernig best væri að gera það. Svo ég byrjaði að vinna maður á mann með viðskiptavinum. Og það gekk bara vel. Ég reyndar ákvað svo að breyta hvernig ég vann, en ég hef fjallað um það í öðrum pistli og á eflaust eftir að tala um það aftur. Hitt sem gerðist var að ég fór að átta mig á hverskonar viðskiptavinum ég vildi vinna með. Það voru sem betur fer engir þeirra slæmir, alls ekki, en ég naut þess meira að vinna með sumum en öðrum og það var augljóst að sumir fengu meira út úr því að vinna með mér en aðrir.

Mín ráð til þessarar flottu stelpu sem ég hitti á Startup Weekend voru einföld. Byrjaðu bara! Hentu þér út í djúpu laugina. Jú, markaðssetningin verður ekki mjög markviss til að byrja með, því þú talar ansi vítt við alla sem mögulega vilja heyra, en þannig byrjarðu að fá fólk til þín. Talaðu frá hjartanu og því sem þér finnst, hvort sem það er á Facebook, í bloggi, á póstlistanum eða annars staðar og þá muntu laða að þér rétta fólkið fyrir þig.

Bjóddu vinum og vandamönnum fría ráðgjöf. Biddu þá að vera ekkert að segja frá því að þau séu ekki að borga, en vera endilega dugleg að segja frá ef þeim líkar vel og eru tilbúin að mæla með þér. Og vertu meðvituð. Vertu meðvituð um hvað þú fílar, hvað þú fílar ekki. Af hverju er það? Hvað á þetta fólk sameiginlegt sem þú fílar að vinna með? Hvað á þetta fólk sameiginlegt sem þú fílar ekki eins vel að vinna með.

Það gerir ekkert gagn að sitja og velta hlutunum fyrir sér of lengi. Jú, ég mun alltaf vera talsmaður þess að plana, en svo verðurðu líka bara að gera. Svo staldrarðu aftur við, lærir af reynslunni, og planar næstu skref byggt á þeirri reynslu. Það er engin önnur leið til að vita þetta allt saman. Það kemur ekki til með að koma til þín í draumi og það er enginn annar þarna úti sem getur sagt þér það.

Farðu út og talaðu við fólk. Fáðu þau til að prófa vöruna þína eða þjónustu, gefa þér endurgjöf og spekúleraðu í hvað virkar fyrir þig og hvað ekki. Þú átt stöðugt eftir að vera að slípa. Það eru núna að verða 2 ½ ár síðan ég byrjaði að vinna sjálfstætt og mér finnst ég vera hinum megin á hnettinum miðað við hvar ég byrjaði – og ég er enn að læra, tjúna til, slípa, græja og gera. Og veistu hvað, mikið er ég fegin – annars yrði þetta barasta leiðinilegt!

Gangi þér vel að finna fólkið þitt! :)



Blessað feisið :)

Mörg okkar eru að nota samfélagsmiðla til að markaðssetja okkur og fyrirtækin okkar. Ég bað vaskan hóp frumkvöðla að henda á mig spurningum um Facebook sem þau vildu fá svör við og hér eru spurningarnar og svörin við þeim. Einhverjar spurninganna kölluðu á mun meira en bloggpóst, svo þær verða að bíða betri tíma og annars vettvangs, en þetta kemur vonandi að gagni :)

Hvað er munurinn á Facebook auglýsingum og svo þessum "boosted posts" sem maður getur keypt?

Facebook auglýsingar eru auglýsingarnar sem birtast ýmist hægra megin við fréttaveituna þína, eða í fréttaveitunni. Þær geta verið ýmiskonar, s.s. CPM eða CPC (sjá hér fyrir neðan) og haft ýmiskonar tilgang.



Ef ég vel að "Boost Post", þá er ég í raun einfaldlega að borga fyrir að pósturinn sem ég set á síðuna mína nái meiri sýnileika hjá fólki, ýmist hjá þeim sem fylgja síðunni og vinum þeirra, eða víðar.



Það er ekki þannig að allir sem hafa sett Like á síðuna þína sjái allt sem þú setur þar inn. Það er gríðarlega mikið af efni sem flæðir um Facebook og þeir eru með allskonar leiðir til þess að hjálpa þér að vinsa úr og sjá meira af því sem þú hefur áhuga á og minna af því sem þú hefur ekki áhuga á. Þú hefur væntanlega tekið eftir því að þeir sem sjá póstana þína eru almennt mun færri en eru búnir að smella like á síðuna. Fólk sem hefur oft skellt like á póstana þína, deilt þeim eða sett ummæli við þá er mun líklegra til að sjá póstana þína í framhaldinu en þeir sem aldrei gera neitt með þá. Þess vegna viltu fá sem mesta virkni frá fylgjendum þínum á Facebook, því þannig færðu meiri sýnileika án þess að þurfa að borga fyrir það. Boosted posts gera þér hinsvegar kleift að borga fyrir meiri sýnileika. Oh well, Facebook er jú í bissness.

Þegar maður kaupir Facebook auglýsingar, hvað er munurinn á CPM og CPC?

CPM þýðir Cost Per 1000 Impressions, eða hvað maður borgar fyrir að þúsund manns sjái auglýsinguna þína. Þetta er líka þekkt sem PPI eða Pay Per Impression.

CPC þýðir Cost Per Click, eða kostnaður við að einhver smelli á auglýsinguna þína, einnig þekkt sem PPC eða Pay Per Click.

Munurinn er semsagt hvort þú borgar bara fyrir að fólk sjái auglýsinguna, eða hvort þú borgar fyrir að fólk smelli á hana.

Hvort viltu? Það fer eftir því hver tilgangurinn með auglýsingunni er. Þú verður alltaf að hugsa um samspil þeirra markaðsaðgerða sem þú ert að nota og hvernig þú ætlar að færa fólk í gegnum markaðsferlið - sjá hér. Ef að tilgangurinn er t.d. að láta vita af þér, minna á þig, vekja áhuga eða fá fólki til að líka við þig, þá getur verið sterkara að borga bara fyrir að fólk sjái þig. Ef þú hinsvegar vilt ná fólki inn á Facebook síðuna þína (ath! þú getur fengið like án þess að fólk fari inn á síðuna) eða inn á vefsíðuna þína (þar sem það getur t.d. fengið meiri upplýsingar, keypt, skráð sig eða annað) þá viltu fá fólk til að smella í gegn og kaupir CPC. Þú þarft alltaf að meta þetta hverju sinni í samræmi við hvað þú vilt að auglýsingin geri fyrir þig.

Á maður að vera með vegginn á síðunni sinni opinn fyrir póstum frá öðrum, eða loka fyrir það?

Facebook er samfélagsmiðill. Hann er ekki í eðli sínu auglýsingamiðill, þó að hægt sé að auglýsa á honum. Fólk fer ekki inn á Facebook til að láta auglýsa á sig heldur til að eiga samskipti. Fyrirtæki sem gera sér grein fyrir þessu og nota Facebook til að byggja upp samband við viðskiptavini sína fá mun meira út úr honum. Með því að loka fyrir pósta frá öðrum á síðunni þinni ertu í rauninni að segja að þú viljir ekki hlusta á þá. Það er ekki líklegt til að byggja upp gott samband, er það?

Þú þarft hinsvegar að passa að fylgjast með og fara inn á Facebook a.m.k. einu sinni á dag til að bregðast við því sem er að gerast, hvort sem það er að svara spurningum eða annað. Og þú vilt passa að það sé ekkert á veggnum sem þú vilt ekki að sé þar. Því miður er til fullt af fólki sem kann sig ekki á netinu, það er bara svo. Auðvitað viltu ekki loka á öll skoðanaskipti, en stundum fer fólk yfir strikið og þá er allt í lagi hreinlega að eyða commenti og jafnvel blokka viðkomandi einstakling frá því að geta póstað á síðuna - en það á ekki að vera almenna reglan að loka á fólk.

Er hægt að hafa mismunandi tungumál á Facebook síðum eftir því hvar lesandinn er staðsettur? Eða eru einhverjar góðar aðferðir til ef maður vill ná bæði til Íslendinga á íslensku og annarra á ensku?

Stutta svarið er já. Það er hægt að hafa mismunandi tungumál á Facebook síðum eftir staðsetningu og tungumálastillingum notenda. Það er hinsvegar ekkert einfalt svar til varðandi hvort það er besta aðferðin. Það er mjög margt sem þarf að huga að varðandi þetta, sérstaklega þegar farið er að teygja sig lengra en bara í íslensku og ensku og menningarlega hliðin á málunum er líka alltaf eitthvað sem má ekki gleymast.

Hér geturðu fundið ágætis vídeó um notkun á Language Gate fídusnum á Facebook: http://www.wealthyblogger.com/language-gate-on-facebook/.

Athugaðu hinsvegar að síðan sjálf breytist ekki, þetta virkar bara fyrir póstana. Facebook er með nokkuð sem heitir Global Pages, þar sem síðan í heild er mismunandi eftir því hvaðan notandinn kemur, en það er tól sem er bara hægt að fá ef maður er það stór auglýsandi hjá þeim að maður sé með viðskiptastjóra - sem ég hugsa að eigi nú ekki við mörg fyrirtæki hér á klakanum. Sorry - veit að þetta er loðið svar, en það er einfaldlega ekki til standard svar sem á við öll fyrirtæki og alla markaði og þetta verður að skoðast fyrir hvert og eitt dæmi fyrir sig.

Eru einhver trix til að gera síðuna áhugaverðari fyrir lesendur?

Það er ekki hægt að stytta sér leið, ef það er það sem verið er að fiska eftir. Á Facebook, líkt og í allri markaðssetningu, gildir að þekkja markhópinn sinn vel, vita á hverju hann hefur áhuga og veita honum það. Deila efni sem þau hafa áhuga á og byggir brandið þitt upp um leið. Þetta er vinna, en þetta er vinna sem ber árangur ef unnin rétt, og getur byggt upp tryggan hóp viðskiptavina til lengri tíma.





Ekki vera leiðinleg(ur)!



Eitt af því sem maður er alltaf að reyna að segja fólki sem þarf að markaðssetja vöruna sína eða þjónustu, er að vera öðruvísi, vera sérstakur, áhugaverður, skipta fólk máli. Ég er á því að maður eigi alltaf að vinna að því að fá ákveðinn hóp fólks til að elska fyrirtækið þitt, vöruna eða þjónustuna. Og fyrir vikið halda sumir stundum að ég sé barasta rugluð!

En veistu, neibb, ég er það ekki. Mamma sagði alltaf við mig, “ef það er þess virði að gera hlutina, þá er þess virði að gera hlutina vel”. Fyrirtækið þitt, varan eða þjónustan er ekki einhver smá partur af lífinu sem er allt í lagi að láta bara malla. Ef þú ert með eigið fyrirtæki, viltu þá ekki gera hlutina eins vel og mögulegt er? Fá eins mikið og mögulegt er út úr því? Og viltu ekki hafa gaman í vinnunni? Gamanið kemur með því að gera hlutina vel, stefna lengra, og skapa eitthvað spennandi, eitthvað óvenjulegt, eitthvað áhugavert. Geeeeeeeeeeeeeeerðu það, ekki vera leiðinleg(ur)!

Nú er komin fram á sjónarsviðið fáránlega góð sönnun þess að það er alveg sama hvað þú er með - þú getur gert það áhugavert! Fyrirtækið byrjaði 2007 með tveimur manneskjum og er enn smátt í sniðum. Varan er ekki beint eitthvað sem markaðsfólk hugsar “jibbííí, gaman að selja þetta!” - varan er sprey sem kemur í veg fyrir kúkalykt. Jamm - ég sagði það - kemur í veg fyrir kúkalykt. En þeim tekst að vera áhugaverð, fyndin og skemmtileg - og ég efast ekki um að fólk sem notar þessa vöru elskar þau. Þarna ertu með raunverulegt vandamál til að leysa og þau eru skemmtileg með það.

Ég setti saman Pinterest töflu með upplýsingum og dæmum um hvernig þau gera þetta. Kíktu á hana - þetta er algjör snilld og ætti að vera þér innblástur til að gera hlutina áhugaverða, alveg sama hvað þú ert að selja! Pinterest.com/thoranna/fantastic-marketing-and-branding-poo-pourri/

Ég vil aldrei aldrei aldrei aftur heyra að einhver sé með vöru eða þjónustu sem er ekki hægt að gera eitthvað áhugavert við!

Hvernig ætlar þú að gera þína vöru eða þjónustu áhugaverða - og eitthvað sem fólk getur elskað?

Í MáM þjálfuninni er mikil áhersla lögð á branding, og inni í þeirri vinnu að finna hvað það er sem er áhugavert við vöruna þína eða þjónustu og hvernig þú getur komið því á framfæri og fengið fólk til að elska það sem þú hefur að bjóða. 





Það var þetta með að finnast á Google - 5 atriði

Ef ég ætti 100 kall fyrir hvert skipti sem ég er spurð hvernig maður á að finnast efst á Google, þá ætti ég a.m.k. fyrir fríum hádegisverði einu sinni í viku :)

Leitarvélabestun - eða það að gera vefsíðuna þína og annað um þig á netinu þannig úr garði að það finnst sem best á Google og öðrum leitarvélum (já, það er víst til Bing og Yahoo o.fl. líka ;) - var alltaf frekar mikið tækninördamál. Þetta snérist allt um lykilorðagreiningu, meta data, robot txt, hlekkjasöfnun og allskonar svona skemmtilegheit. Margt af þessu er enn alveg gott og gilt en margt ekki og vægi þess er stöðugt að minnka. Það er orðið erfiðara að komast hátt á leitarvélunum með allskonar trixum, brögðum og brellum því að Google og hinir eru farnir að sjá við þeim og breyta hlutunum hjá sér þannig að það er ekki hægt að plata þá upp úr skónum. Og þeir eru sífellt að breyta og bæta! En veistu, það er sko barasta ekkert slæmt. Það er eiginlega bara rosa gott. Því veistu hvað það gerir? Það neyðir bara alla til að verða betri í markaðssetningu.

Hmmm… hvernig þá? Jú, hvað er farið að skipta meira máli? Raunveruleg gæði og áhrif. Með því að vera með gott efni á vefsíðunni, með því að vera virkur á netinu, á samfélagsmiðlum, vefsíðunni, blogginu o.s.frv. þá dregurðu fólk að þér og eykur vægi þitt á leitarvélunum. Því fleiri manneskjur sem fíla þig á netinu, því meira fíla leitarvélarnar þig á netinu. Svo nú þarf ekki alla þessa tækninörda - nú þarf gott markaðsfólk!

OK og hvað á þá einhver eins og ég, sem kann ekkert á þetta tæknilega dót, að gera til að finnast á netinu? Hér eru 5 atriði:

1. Lykilorðagreining er enn góð og gild - þú vilt vita hvaða orð og orðasambönd fólk notar til að leita að hlutum eins og því sem þú býður á netinu - sjá meira hér 
2. Notaðu lykilorðin alls staðar þar sem þú ert á netinu - en eðlilega þó. Google sér í gegnum það ef þú ert að reyna að hrúga þeim inn. Ekki nota þau bara á vefsíðunni, heldur líka í blogginu, á samfélagsmiðlunum og þegar þú sendir frá þér fréttatilkynningar (því þær munum mjög líklega birtast á netmiðlum ef þær eru birtar á annað borð).
3. Finndu, búðu til og deildu efni sem markhópurinn þinn hefur áhuga á og verður til þess að fólk langar að fylgjast með þér, gefa þér like, retweet, share, veita ummæli og hvað þetta heitir allt saman. Því meira sem fólk sýnir að það kunni að meta hlutina á þann hátt því meira tekur Google eftir þér. 
4. Til að geta búið til efni sem fólk hefur áhuga á þá þarftu að þekkja markhópinn þinn vel og vandlega svo þú vitir hvað þau vilja! 
5. Til að geta verið áhugaverður á netinu þá þarftu að hafa brandið þitt á hreinu!

Leggðu þig fram um að veita fólki hluti sem er virði í og byggir upp ímynd þína og orðspor því það mun koma þér mjög langt - jafnvel á toppinn á Google ;)