Ekki vera hrædd(ur) við að þrengja...

Þetta er klassískt í markaðsfræðunum og ég hef talað um þetta margoft áður. Finndu markhópinn þinn, þann sem er vænlegastur fyrir þig, og markaðssettu á hann. Ekki reyna að vera allt fyrir alla. Finndu drauma viðskiptavininn og finndu svo fleiri svoleiðis.

En það er ekkert auðvelt. Og það hræðir mann líka. Maður er alltaf meðvitaður um að maður gæti verið að missa af einhverjum sem gæti mögulega, kannski, fræðilega séð, keypt. Við gerum þetta öll. Ég geri þetta sjálf. Ég þarf alltaf að vera að minna mig á að velja og þrengja - reyna ekki að vera allt fyrir alla.

Hingað til hef ég skilgreint markhópinn minn sem lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru ekki sérfræðingar í markaðsmálum en þurfa að, og vilja, bæta þau. Flott mál. En vá hvað þetta er ennþá vítt! Svo ég er alltaf að skoða málin, spá og spekúlera, ræða við fólk og stilla til. 

Ég hef íhugað að þrengja þetta þannig að þetta séu ofangreindir aðilar en í ákveðnum greinum. Það myndi líta einhvern veginn svona út - t.d. hótelmarkaðssetning frá A til Z, eða markaðssetja endurskoðendur frá A til Z eða markaðssetja fatahönnuði frá A til Z - ég væri í öllum bleiku hringjunum:



Maður gæti alveg orðið ansi góður í þeim markaðsaðgerðum sem ættu við þennan tiltekna bransa sem maður veldi. Þetta gæti alveg virkað. Eeeeeeen nei, það einhvern veginn virkar ekki fyrir mig. Ég er ekki sérfræðingur í ákveðnum greinum, per se,  og ég vil ekki vera það. 

Ég veit hinsvegar að ég er sterkust og ánægðust þegar ég er að vinna í markaðsstefnunni, brandinu og að velja þær markaðsaðgerðir sem henta. Þegar kemur að þessum markaðsaðgerðum - því að setja upp póstlistann, nota Facebook o.s.frv. þá missi ég svolítið áhugann. Ég kann ýmislegt í því, ég gæti það alveg, en maður getur ekki verið allt fyrir alla og það eru mjög færir aðilar til sem eru sérfræðingar í því, en ekki svo góðir í því sem ég er góð í. Þannig að ég er komin á það að þetta er hinn valmöguleikinn:



Þetta er það sem ég vel. Að vinna í kjarna stefnunni, brandinu og velja þær markaðsaðgerðir sem best koma því til skila til markaðarins.

En hvað þýðir það þegar kemur að því að skilgreina markhópinn minn? Hmmm... draumaviðskiptavinurinn...
  • hún/hann þarf að hafa metnað til að vilja geta betur, betur og enn betur
  • hann/hún þarf að vilja byggja upp framúrskarandi fyrirtæki - ekki bara eitthvað sem gengur
  • hún/hann þarf að vilja breyta heiminum með fyrirtækinu sínu - ekki endilega öllum, en a.m.k. sínu litla horni af honum
  • hann/hún þarf að vilja byggja upp fyrirtæki sem er einstakt, öðruvísi og áhugavert
  • hún/hann þarf að vera tílbúin(n) að leggja á sig þá vinnu sem til þarf
  • hann/hún þarf að vera óhrædd(ur) - ja, tilbúinn að taka á hræðslunni
Því að maður verður alveg hræddur þegar maður er að reyna að breyta þó ekki sé nema litlu horni af heiminum. Maður verður hræddur þegar maður stefnir hærra og lengra en hinir. En það eru þeir sem takast á við þessa hræðslu sem fá að njóta þess að gera eitthvað sem skiptir máli.

Svo ég auglýsi hér með eftir ofangreindu fólki því það er fólkið mitt :)

Hvað vilt þú gera og fyrir hvern viltu gera það?

p.s. Ég og Rúna Magnúsdóttir, markþjálfi og snillingur með meiru, erum að undirbúa svolítið alveg hrikalega spennandi fyrir akkúrat svona fólk eins og ég lýsi að ofan. Það verður í haust. Ef þig langar að fylgjast með og vita meira, passaðu að vera skráð(ur) á póstlistann (hérna vinstra megin :)




Hver er þín vegferð?



Það er alltaf tilhneiging til þess, þegar maður rekur lítið fyrirtæki, að vilja vera og gera allt fyrir alla. Sérstaklega fyrstu árin, þegar maður er að koma fótum undir reksturinn og þarf að koma fjárstreyminu af stað. Þá er mikilvægt að halda fókus.

Til þess að halda fókus þá verður maður fyrst að vita nákvæmlega hver maður vill vera, sem fyrirtæki. Maður þarf að vita hvað maður gerir - og hvað maður gerir ekki, sem er ekki síður mikilvægt. Maður verður að trúa og treysta því að það sé rétt, til að halda sér á beinu brautinni, og maður verður að brenna fyrir það sem maður gerir - annars gefst maður einfaldlega upp. Auðvitað er maður alltaf að breytast, læra, þróast og finna sig betur og betur, en það er annað heldur en að elta hugmynd vikunnar út um hvippinn og hvappinn.

Ég þekki þetta vel sjálf. Ég lagði af stað með það að vilja efla minni fyrirtæki í markaðssetningu. Hvernig ég geri það hefur breyst, og er sífellt að þróast. Ég byrjaði með því að hitta viðskiptavini mína og vinna maður á mann, áttaði mig svo á því að það væri bæði tímafrekt og dýrt, auk þess sem ég var alltaf að segja sömu grundvallarhlutina aftur og aftur og aftur. Svo ég þróaði þetta áfram. Ég fór að gera þjálfunarefni og setti það á netið, þannig að fólk gæti unnið sig í gegnum það sjálft og leitað svo bara til mín þegar þarf að skoða sérstaka hluti, hluti sem ekki er hægt að staðla. Þannig get ég skalað þetta upp, þjónustað fleiri á lægra verði, og fyrir mig er það líka meira gefandi því að þegar ég vinn með viðskiptavininum maður á mann þá erum við komin upp úr grunnvinnunni og í frekari pælingar.

Freistingarnar eru hinsvegar alls staðar. Að fara þessa leið þýddi mikla vöruþróunarvinnu, bæði við að móta efnið, taka það upp, búa það til, tækla tæknilegu málin o.s.frv. o.s.frv. Vinna sem gaf ekki af sér tekjur þegar hún var unnin og vinna sem er enn í gangi. Ég reyni að halda fókus eins vel og ég get, en hef samt tekið að mér verkefni sem voru ekki eins og ég hefði viljað hafa þau, verkefni þar sem ég var að vinna maður á mann á óhagkvæman hátt bara til að fá fjárstreymið á þeim tímapunkti - en samt alltaf verkefni sem tengjast markaðsstarfinu.

Ég hef nokkrum sinnum á þessum tíma fengið atvinnutilboð. Góð atvinnutilboð. Og veistu, ég gæti alveg stundum hugsað mér að ráða mig í fasta vinnu, fyrir rétta starfið, rétta fyrirtækið - og síðast en ekki síst, rétta yfirmanninn (sem leyfði mér að sjálfsögðu að halda áfram að MáMast með ;)  Öll þessi störf fólu í sér einhverja markaðsvinnu, en voru samt aðallega annarskonar, verkefnastjórnun eða annað í þeim dúr. Eins ánægð og ég er að fólk skuli hugsa til mín, og vilja ráða mig - það er alveg notalegt fyrir egóið ;) - þá þakkaði ég alltaf kærlega fyrir mig en afþakkaði boðið.

Málið er nefnilega að ég veit loksins hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Ég er og vil vera markaðsnörd. Það er fullt sem ég er ekki góð í og kann ekkert í, en þetta kann ég. Í þessu er ég góð. Vegna þess að ég brenn fyrir þetta, vegna þess að ég þreytist aldrei á að pæla í markaðsmálum, læra meira og meira og mér finnst ekkert eins skemmtilegt og að sjá þegar störf mín bera árangur. Því að með því að hjálpa öðrum að efla markaðsstarfið hjá þeim, þá gerir það viðkomandi kleift að vera og að gera það sem hann eða hún vill vera og gera. Það sem að viðkomandi brennur fyrir.

Það er minn fókus. Hugmynd vikunnar er kannski freistandi, en hún passar ekki inn í vegferðina mína. Hún passar ekki inn í markmiðin mín og hún passar ekki við ástríðuna mína. Þess vegna verð ég barasta að halda áfram að vera markaðsnörd.

Hver er þín leið? Hver eru þín markmið? Fyrir hvað brennur þú þegar kemur að fyrirtækinu þínu? Hver er þinn fókus?


Taktu á honum stóra þínum!

Þegar kemur að tækni, þá verðurðu einfaldlega að taka á honum stóra þínum eða sætta þig við að lúta í lægra haldi fyrir samkeppninni...


Ath! Vídeóið er á ensku en þýðingin er hér fyrir neðan :)


Mig langar að tala um tækni í dag. Tækni er dásamleg. Hún hefur gert svo mikið fyrir okkur. En hún er líka algjört helv... vesen. Það er erfitt að fylgja henni eftir. Það er svo mikið að gerast. Endalausar breytingar. Tækni hefur breytt markaðsstarfi gífurlega á síðustu tveimur áratugum. Bara á síðasta áratug höfum við séð mjög miklar breytingar ef við hugsum til YouTube, Facebook, allskonar markaðshugbúnaður, markaðssetning á netinu, tölvupóstsforrit og hitt og þetta - risastórar breytingar.

Staðreyndin er þó að við þurfum að aðlagast. Við þurfum að aðlagast þessari nýju tækni og við verðum að nota hana eða deyja ellar. Ég fæ oft til mín viðskiptavini sem segja "ég er bara ekki svo voðalega tæknisinnaður, ég get ekki notað þetta og ég get ekki notað hitt." Ég hef bara ein skilaboð til þeirra: "Þú verður að komast yfir þetta. Þú bara verður. Taktu bara á honum stóra þínum. Farðu á námskeið, farðu í dáleiðslumeðferð, farðu til einhvers sem kann að eiga við kvíðaröskun, sálfræðing, geðlækni, hvaða nöfnum sem þeir kallast. En þú verður að finna leið til að komast yfir þetta." Vegna þess að í viðskiptum er tækni mjög öflugt verkfæri og staðreyndin er að ef þú nýtir þér hana ekki þá munu samkeppnisaðilarnir þínar gera það og þú verður einfaldlega skilinn eftir. 

Ef þú ert ekki vel tæknilæs, finndu þá leið til að verða það. Hvað getur þú gert í dag?