Kjarni málsins

Hvað gerir þú? Hvað er það sem þú gerir fyrir viðskiptavini þína? - geturðu svarað því í einni stuttri setningu? Ef þú getur ekki komið því skýrt frá þér, hvernig eiga aðrir að hafa skýra hugmynd um það hvað þú gerir?

Og ef þú ert ekki með það á hreinu hvað kjarninn er í því sem þú gerir, hvernig ætlarðu að meta ný tækifæri? Við hvað ætlarðu að miða þegar einhver kemur með nýja hugmynd að einhverju sem fyrirtækið gæti gert. Ætlarðu að elta allar hugmyndir út um hvippinn og hvappinn, hugmynd dagsins, hugmynd vikunnar eða hugmynd mánaðarins - og verða eitt af þessum fyrirtækjum sem ætlar að vera allt fyrir alla og gera allt fyrir alla - og enginn veit nákvæmlega hvað gerir?

Ég er búin að vera að vinna með nokkuð mörgum viðskiptavinum upp á síðkastið þar sem svarið við þessari spurningu vantar og í sameiningu erum við búin að vera að leita að rétta, kjarnyrta, einfalda svarinu. Þessum kjarna sem er svo dýrmætur áttaviti.

Listagallerí kemur á framfæri ungu og framsæknu listafólki sem hefur sótt menntun sína og reynslu utan landsteinanna. Fyrirtæki stuðlar að þekkingaryfirfærslu og tengslamyndun í viðskiptalífinu. Ég hjálpa minni fyrirtækjum að ná hámarks árangri úr markaðsstarfinu og þar með auknum hagnaði.

Eftir það er hægt að svara spurningunni “hvernig gerir þú það?” - og það getur breyst í tímans rás. Klassísk saga úr viðskiptafræðinni eru hestakerruframleiðendurnir sem fóru á hausinn þegar bíllinn fór að verða algengt farartæki. Þeir skilgreindu sig sem verandi í hestakerruframleiðslu - en þeir voru í rauninni í því að koma fólki frá einum stað til annars (eða “in transportation”) - tækið sem þeir notuðu var hestakerra - og þeir klikkuðu á því að vera opnir fyrir nýjum tækjum sem þjónuðu sama tilgangi - eins og bílnum.

Það sem þú gerir er eitt. Það verður að vera á hreinu hvað það er og það breytist ekki svo glatt. Hvernig þú gerir það er svo annað mál ;)

With a little help from my friends

Iðnaðarmenn eru ekki beint að rokka feitt þessa dagana. Það er lítið við að vera og litla vinnu að fá. Hvað er til ráða? Margir hafa kosið að fara úr landi, aðrir eru á atvinnuleysisbótum, vafalaust eru einhverjir farnir að vinna við eitthvað allt annað en sína iðngrein en svo eru sumir sem leita leiða til að markaðssetja sig betur, á nýjan hátt eða á nýja markaði.

Það gerði Bragi vinur minn og félagar hans. Þeir byggðu upp tengslanetið sitt og nú eru um 40 mismunandi iðnaðarmenn tengdir þannig að ef einn þeirra fær verk sem annar gæti komið inn í þá leita þeir til hvers annars. Þeir benda hver á annan. Ef pípari nær í málningarverk hefur hann samband við málarana í tengslanetinu, ef málararnir fá rafmagnsverk þá tala þeir við rafvirkjana o.s.frv. Saman ná þeir til miklu fleira fólks og fá að vita af mun fleiri verkefnum heldur en þeir myndu vita af hver um sig. Klassísk skæruliðamarkaðssetning - og þeir eiga hrós skilið fyrir að hugsa út fyrir kassann og nýta sér þau tækifæri sem eru til staðar.

Bragi er að taka þetta lengra. Hann er með vefsíðuna Handtak.is þar sem hann leiðir saman þjónustuaðila eins og pípara, smiði, málara, rafvirkja, garðyrkjufræðinga o.s.frv. og þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Það kostar ekkert að skrá sig og setja inn verkefni sem maður þarf að láta vinna fyrir sig og síðan hafa þjónustaðilarnir samband við mann og maður velur þann sem manni líst best á. Fyrir þjónustuaðilana kostar ekkert að skrá sig og fá að vita af þeim verkum sem koma inn og svo borga þeir smá upphæð til að fá nánari upplýsingar um verkbeiðnirnar og geta haft samband við þann sem biður um verkið. Þarna er nýtt markaðstól fyrir iðnaðarmenn.

Ástandið er ekki gott - en það er ekki öll von úti enn. Eins og Bítlarnir sögðu: “I get by with a little help from my friends, Ooooh I’m gonna try with a little help from my friends, Ooooh I get high with a little help from my friends! (OK - við skulum láta sem “get high” þýði að ná sér upp úr vinnulægðinni ha ha ha :)

Hugsaðu málið - með hverjum getur þú unnið til að koma þér og þínu á framfæri?